föstudagur, maí 20, 2005

Alveg lens...

Ég er alveg lens yfir júróvisjón fréttunum! Selma okkar komst ekki áfram. Nú sé ég þetta ekki fyrr en í kvöld og veit því ekki hversu frábær hin lögin voru (er ekki búin að kynna mér þetta jafnvel og sumir, nefnum engin nöfn Elsa) en ég efast einhver vegin stórlega um að hún hafi átt þetta skilið. Eftir að þessu var breytt í símakosningu hafa gæði Júró dalað mikið og þetta er orðin hálfgerð trúðasýning og vinsældakosning. Keppnin er vinsæl í Au-Evrópu og þar af leiðandi kýs fólk þar mjög mikið. Hvers eiga fámennar þjóðir eins og Ísland...hvað þá Andorra (50 þús) að gjalda? Reyndar er þetta með fólksfjölda landanna og fjölda atkvæða ekki algilt en það hlýtur þó að hafa mikil áhrif. Það mun ekkert "la det svinge" eða "Waterloo" snilldarlag vinna hér eftir, bara einhverjar Ruslur með læti á viðinu. Svei attan!

þriðjudagur, maí 17, 2005

deiglan.com

Jamm, smá svona fréttapistill eftir mig á Deiglunni í dag, endilega kíkið á það:) Annars er bara það að frétta frá Sydney að hér er grenjandi rigning (fínt svo sem þegar maður er bara inni að læra) en það er líka allt í lagi því ég er að fara að fá mér pizzu og bjór ásamt Gumma og öðru góðu fólki í höllinni hennar Önnu Dóru á Watsons Bay. Takk fyrir í bili.

sunnudagur, maí 15, 2005

Kveðjustund

Þrátt fyrir mikla törn í skólanum höfum við Gummi náð að kynnast slatta af liði hérna sem við munum vonandi hafa meiri tíma til að kynnast í vetur (það er haust hér muniði) en við höfum eignast eina vinkonu, og það er hún Anna Dóra sem hefur búið hér í þrjú ár. Anna Dóra þurfti því miður endilega að taka upp á því að klára námið sitt hérna núna og flytur því heim á miðvikudaginn. Hennar verður sárt saknað hér í Sydney og við Gummi erum eiginlega alveg í rusli yfir þessu því hún er alltaf að bjóða okkur í grill og fleira skemmtilegt. Það er alla vega alltaf fjör í kringum hana og alltaf hægt að finna afsökun fyrir smá skralli með Önnu Dóru. Á miðvikudagskvöldið verður því mínútuþögn á Róshæðargötu hjá okkur Gumma. Við eigum þó tvö kvöld eftir með henni því í kvöld er okkur boðið í mat til Simma og Sibbu en hann er formaður Íslendingafélagsins hér (og er frændi Önnu Dóru, við fáum að koma með henni) og svo ætlum við að borða pizzu og sötra bjór heima hjá henni á þriðjudagskvöldið, þannig að eftir það þurfum við víst að finna okkur fleiri vini:)

fimmtudagur, maí 12, 2005

Steingrímur



Það nær náttúrulega bara engri átt hvað Steingrímur systursonur minn er krúttlegur, og þar að auki mikill töffari. Ég sakna hans ógurlega mikið.

miðvikudagur, maí 11, 2005

Skyldublogg

Ég er að hugsa um að sækja kínverskunámskeið til að skilja upphafssíðuna á blogger.com. Ok, annars er Gvendur minn bara alltaf að læra núna og gengur vel, ég er reyndar líka alltaf að læra, (BA ritgerð) en þegar því líkur verð ég frekar verkefnalítil. Skólinn byrjar um mánaðarmótin júlí/ágúst og það er vorönn hérna vitlausumegin á hnettinum. Það er að segja ef allt gengur upp þá byrja ég þá. Ég þarf að fara að tala við fröken Nemendaskrá til að tryggja að ég hafi fengið skólavist, held þetta eigi að vera alveg pottþétt. Vonandi getum við skoðað okkur eitthvað um hérna á eyjunni í júlí en þá er frí, í júní eru sem sagt haustpróf. Ætli ég reyni ekki bara að læra að hekla eða eitthvað á meðan, hahaha, finn út úr því. Jebbs, og þeir sem fylgjast með hinni síðunni vita að ég var á Nýja Sjálandi en ég nenni ekki að endurtaka mig svo kíkið bara á heimasíðuna okkar Gumma, linkur hér til hægri. Hvernig er það, er fólk hætt að tala um Opruh þáttinn? Lauslátu íslensku karlarnir hafa þaggað umræðuna niður áður en athyglin næði þeim. Gúrka.

fimmtudagur, maí 05, 2005

pakki

Í fyrradag fengum við Gummi frábæran pakka, foreldrar hans sendu okkur bækur sem við höfðum gleymt og vantaði hingað út, en inn á milli bókanna leyndist sveittur og kraminn lakkrís sem gladdi okkur mikið. Einnig sendu þau okkur íslensk tímarit og eitt stykki DV þannig að ég las DV með morgunkaffinu:) sniðugt maður. Pakkinn fór reyndar frekar langa leið hingað þannig að blaðið var frá 13.apríl sem skipti náttúrulega engu máli. Án þess þá myndi ég ekki vita í dag að stuðningsmenn Keflavíkur höguðu sér eins og barbarar eftir sigurinn á Snæfelli (körfubolti fyrir þá sem ekki vita), að Brad elskaði Jennifer ekki nóg, að nýja stelpan sem stýrir Djúpu Lauginni er á lausu og síðast en ekki síst að Milli Vanilli gætu komið til Íslands í sumar. Þessi síðasta frétt vakti athygli mína því a) ég er með hið ekki svo frábæra lag "girl I´m gonn miss you" með strákunum á heilanum (eða það er þeim sem sungu fyrir Milli Vanilli sem voru náttúrulega ekki þeir sjálfir, aftur fyrir þá sem ekki vita) og b) annar þeirra er dáinn. Eftir að allt svindlið kom í ljós, Grammy verðlaunin tekin af þeim og ég veit ekki hvað og hvað flippaði hann svolítið enda búinn að drulla upp á hnakka. Hann hafði líkt sjálfum sér við söngvara á borð við Paul McCartney, sagðist vera betri en Bítlarnir og Elvis og allir þeir í viðtölum vestan hafs. Magnaður gaur. Hann endaði held ég ævi sína á hostelherbergi, of stór skammtur eða eitthvað álíka. Jeminn eini, það kemur illa út fyrir mig hvað ég veit mikið um Milli Vanilli. Hmmm, viljiði meira, gaurinn sem "fann þá upp" var þýskur og fannst þeir lúkka svo vel, fékk bara aðra til að syngja. Strákarnir gátu hins vegar breikdansað og þóttu fríðir:) ok ég er hætt. Girl I´m gonna miss you....

miðvikudagur, maí 04, 2005

ekkert blogg

Talandi um Opruh, þá fór ég á Vísi.is áðan og sá að íslenskar konur eru reiðar við Svanhildi. Þannig að eitthvað er sem sagt til í þessu sem Inga Steinunn, heimildarkona mín í þessu máli á Íslandi, sagði altsaa að Svanhildur hafi gefið í skyn að íslenskar konur væru lausgyrtar. Öss, ég segi ekki meir. jæja, hef reyndar ekkert að segja.

mánudagur, maí 02, 2005

Oprah?

Hulda spurði í kommenti við síðustu færslu hvort ég fengi svefnfrið (út af draumunum). Svarið er nei. Þess vegna sef ég svona lengi, því fyrst þegar ég vakna á morgnana er ég alveg uppgefin og neyðist til að kúra lengur. Eins og Inga segir, við fiskarnir höfum bara aðeins fjörugra ímyndunarafl. En hvernig er það, var Svanhildur Hólm hjá Opruh? WHY? aldrei segir enginn mér neitt!

föstudagur, apríl 29, 2005

Sonur minn

Í nótt eignaðist ég son. Nei, meðgangan er ekki styttri í Ástralíu, þetta var bara enn einn klikkaður draumur, en ég held ég sé með fæðingar á heilanum. Þetta byrjaði á því að ég ákvað að fara í ræktina (sem ég geri aldrei) og sund og bað tvær vinkonur mínar um að koma með mér, Söndru (sem kom með Gúndu systur Heiðar en þarna var Gúnda systir Söndru, sorry Heiður mín) og Heiðdísi Höllu. Siggi sæti sem var nemandi í Álftó á sínum tíma (nokkrum árum eldri en ég) átti líkamsræktarstöðina, og mig dreymdi alveg skrilljón eldri nemendur Álftó, eins og Ingibjörgu í Oasis-búðinni, ahaha, ekki segja þeim. Nú jæja, Heiðdís og Sandra komu, nema hvað ég ætlaði ekki að fara að púla í tækjum heldur notfærði mér eldhúsaðstöðuna í ræktinni og ætlaði að hita heitt kókó og baka pönnsur (en þess má geta að í gær fór ég á kaffihús og borðaði bestu crepes með súkkulaði og jarðarberjum EVER). Ég man ekki meira með þær stöllur Söndru og Heiðdísi (sem nota bene þekkjast ekki) því næst ól ég son minn og það var bara ekkert vont. Ég nenni ekki einu sinni að telja upp allt fólkið sem kom þarna fyrir því það voru næstum allir sem ég þekki. Skýringin; ég hélt partý og bauð öllum, um leið og ég fæddi, til að fagna fæðingunni sko. Ég man reyndar mjög skýrt að Heiður var óvenjuölvuð og með stutt hár. Sonur minn var fullkominn og var varla búið að klippa á naflastrenginn þegar hann var farinn að standa upp við húsgögn, sem flest önnur börn gera eftir nokkra mánuði. OMG, þið haldið eflaust að ég sé orðin biluð, þið sem eruð enn að lesa þessa vitleysu.

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Draumar og dömubindi

Dagarnir koma og fara, ég sit og læri, ef ekki þá stari ég bara út um gluggann á flugumferðina. Ég elska þetta útsýni. Emiliana og Fishermans´woman sjá um að dagurinn í dag hljómi betur. Mig dreymdi í nótt að ég var á fæðingardeildinni (eða álíka stað) nema hvað, börnin voru geymd í vatnstönkum og undu sér vel. Þetta var svona Matrix þema í drauminum. Ég fékk að skoða litlu krúttin, taka þau upp úr tankinum og dást að þeim, þau voru pínulítil, eins og ungar og nokkur kúkuðu í lófann á mér. Mér fannst það ógeðfellt. Þegar leið á drauminn fór ég í barnafatabúð að velja afmælisgjöf handa Steingrími mínum sem verður eins árs í maí. Þetta var eini eðlilegi hluti draumsins. Hvað er Ástralía að gera mér? Hina dreymnu tótlu er farið að dreyma enn bilaðri drauma en áður, og voru þeir nógu klikkaðir fyrir. Það er ekki svefnfriður fyrir þessum ósjálfráðu hugsunum mínum þegar ég sef. Og ofan á allt saman þá selja þeir ekki Always dömubindi hérna! Fyrstu dömubindin sem ég keypti voru svo þykk að ég vaggaði eins og gæs, þetta minnti bara á gömlu Sjafnarbindin heima. Össs.

mánudagur, apríl 25, 2005

Anzac dagurinn...

hann er í dag og tótlutjattið hefur eiginlega ekki hugmynd um hvað það þýðir. Þetta er svona public holiday hér í Kengúrulandi og snýst eitthvað um þegar heimamenn héldu til Tyrklands 1915 í stríð í Gallipolli, og töpuðu. Þannig að þetta er ekki beint svona gleðidagur, engar skrúðgöngur og blöðrur, en þeir halda samt upp á hann, veit ekki alveg hvernig, því ég er bara búin að vera inni að lesa. Held að þetta byrji klukkan 5 eða 6 um morgun alltaf þann 25.apríl (með ræðuhöldum býst ég við án þess að hafa hugmynd) og seinnipartinn fara allir á pöbbinn og spila einhvern leik, veðja nokkrum dollurum og svo man ég ekki hvað gerist næst. Nú jæja, þar sem við Gvendur erum ekki jafn fáránlega árisul og Ástralir (þeir fara út að skokka eða jafnvel á brimbretti ELDsnemma, áður en þeir fara í vinnuna...geðsjúklingar) þá misstum við af þessu. Kannski við reynum að taka þátt á næsta ári.

Afmæli
Okkur var boðið í afmæli á laugardaginn og kíktum að sjálfsögðu. Hún María sem er grísk/suður-afrísk átti afmæli en hún er sambýliskona (flat-mate) Önnu Dóru. Foreldrar hennar voru komin alla leið frá Suður-Afríku til að elda ofan í okkur, og var smá grískur keimur yfir þessu öllu saman. Meira að segja grísk tónlist, en ég fékk engan til að koma í grískan hringdans, enda held ég að hnén mín þoli það hvort eð er ekki. Á meðan ég man, ég hef bara ekki nöldrað um Nælon hér á tótlutjattinu í hálft ár held ég! Eru þær enn til?

sunnudagur, apríl 24, 2005

Útlönd

Ég er að fara til útlanda, nanínanínaní:) Túristavisað mitt er að renna út og ég þarf að fara úr landi og koma aftur til að fá að vera í 3 mánuði í viðbót. Reyndar fæ ég væntanlega stúdentavisa í sumar þannig að þá reddast þetta. Mig langaði mikið að koma til Íslands (hehe) en ákvað að frekar að fara til Auckland á Nýja Sjálandi, enda muuuuun ódýrara. Draumurinn er nú frekar að ferðast um Suðureyjuna (Auckland er á Norðureyju) en við höfum svo lítinn tíma að þetta verður bara að vera svona helgarferð til Auckland. Jamms, vildi bara láta vita. Hef varla farið út fyrir Redfern undanfarið en það er hverfið mitt þannig að þetta verður bjútífúl að sjá eitthvað fleira.

miðvikudagur, apríl 20, 2005

Fegurð

Vorið er tími...fegurðarsamkeppna. Í flestum krummaskuðum og hornum landsins er keppt í þessari grein á vorin og þykir mér þetta alltaf jafnmerkilegt. Í ár var ég næstum því búin að gleyma þessu því ég er stödd hinum megin á hnettinum en Dagný saumóvinkona var eitthvað að ræða þetta á sinni síðu þannig að ég freistaðist til að kíkja á heimasíðu keppninnar og tjekka á gripunum, skoða úrvalið. Ég á vinkonur sem hafa keppt í fegurðarsamkeppni og ég vona að þær móðgist ekki, auðvitað gerir fólk þetta á sínum forsendum og ég efast ekki um þær lærðu margt af þátttökunni og eignuðust nýjar vinkonur. Ég er ekki dæma keppniskonurnar sjálfar, bara hugmyndina sem slíka. Það eru haldnar ótal fyrirsætukeppnir sem mér finnst eiga fullkomnlega rétt á sér því það er atvinnugrein (fyrirsætubransinn) og því finnst mér ekki þörf á fegurðarsamkeppni, af hverju taka þær (og þeir) ekki bara þátt í fyrirsætukeppnum? Af hverju er keppt í því að vera fallegastur árið 2005? Mér finnst asnalegt að ná bronsi í fegurð. Fá þær kannski ekki medalíur? hehehe:) Nú jæja, ég ákvað að rétt kíkja á keppniskonurnar í Ungfrú Reykjavík og las stutt viðtal við Steinson junior sem ég man ekki í augnablikinu hvað heitir fullu nafni. Þar er hún spurð af hverju hún taki þátt í þessari keppni og hún svaraði "til að heiðra minningu ömmu minnar". Þá spyr ég, hvað ef hún væri ljót? Hvernig hefði hún þá heiðrað minningu ömmu sinnar? En hún vann þannig að hún heiðraði ömmu vel með fegurð sinni, veit ekki alveg hvernig maður orðar þetta einu sinni. Blessuð sé minning hennar.

mánudagur, apríl 18, 2005

Myndir

Ég hef verið að dunda mér við að setja inn gamlar myndir, þær eru hérna til hægri á síðunni. Á sydneyblogginu okkar Gumma eru svo myndir frá okkur héðan. Eftir u.þ.b. 3 vikur neyðist ég til að fara til útlanda, fer til Nýja Sjálands í 3 daga að endurnýja visaáritunina mína þar sem ég fæ ekki studentvisa alveg strax. Fyrir mig að fljúga til Auckland er svipaður díll og flug, fram og tilbaka frá Reykjavík til Akureyrar, kannski aðeins dýrara Nýja Sjálands flugið:) Ég veit nú ekki hvort það sé eitthvað að sjá í Auckland en alltaf gaman að skreppa til udlandet. Ætli maður lúlli ekki svo bara á YMCA til að halda niðri kostnaði ferðarinnar, hehehe:)

miðvikudagur, apríl 13, 2005

Britney er bomm...

...og bara allt að gerast. Það er lítið slúður að frétta héðan, Kylie er jú með eitthvað show sem maður ætti náttúrulega að fara á verandi í Kylielandi en mér finnst hún samt stundum svo kjánaleg eitthvað, þó þa væri náttúrulega gaman að sjá sýninguna. Nicole Kidman býr í Sydney en ég er ekki búin að lókeita hana nánar, veit bara að hún var á ströndinni sem við förum á um daginn (ég sá hana reyndar hvergi) og er bara voða happy. Kannski maður rekist á kerlu einhvern daginn. Man ekki eftir fleiri áströlskum stjörnum í bili. Ég sá líka á mbl að Mel Gibson er að pæla í að gera kvikmynd um ævi páfans. Er Mel með einhvern sérstakan samning við hann/hana þarna uppi? Hann er allur í þessu núna, sem er bara fínt, kannski er þetta svona þema hjá honum. Ok, fleira var það ekki í slúðurfréttum. Annars kom það í ljós í síðustu færslu að mig dreymdi að ég var í sundi og Íraksstríði lauk, Herdísi dreymdi að hún var í pottunum og hitti Saddam Hussein í hallærislegum karlasundbol og Hildur Edda rakst á Osama í laugunum í sínum draumi! Magnað, hefur einhver rekist á Bush? Munið bara að frussa smá vatni framan í hann þá. Epli og pera, vaxa á trjánum, þegar þau þroskast þá detta þau niiiiður!

laugardagur, apríl 09, 2005

Draumur í dós

Mig dreymdi um daginn að ég var í sundi og svo allt í einu fóru allir upp úr lauginni til að fylgjast með fréttum úr sjónvarpinu í sundlauginni. Það var greinilega eitthvað mjög mikilvægt þannig að ég ákvað að kíkja líka og í fréttum var það helst að stríðið í Írak var búið (!) Þegar ég vaknaði fannst mér þetta ansi merkilegur draumur því í raun lauk stríðinu fyrir u.þ.b. tveimur árum þó því hafi náttúrulega alls ekki verið lokið þannig séð en þá var Saddam steypt af stóli (kemur það af "staup" eða átti kannski að vera einfalt i þarna?). Jæja alla vega, þá var þetta mjög skýrt í draumnum að stríðinu var lokið, allir hentu frá sér vopnunum og voru dauðfegnir og það var bara eins og ekkert af þessu hefði gerst. Í draumnum hugsaði ég "þarf virkilega stríð til að koma á friði?" og í þessu tilviki tókst það. Það væri alger draumur ef þessi draumur rættist.

mánudagur, apríl 04, 2005

Reglur

Ástralir eru mjög hrifnir af lögum og reglum og fara ávalt eftir þeim. Hér er náttúrulega harðbannað að drekka áfengi á almannafæri og þeir virðast fylgja þeirri reglu mjög vel. Þannig að ef ég segist hafa setið á ströndinni og drukkið öl þá er ég að plata. Mikið var nú ljúft að vera á Spáni og Portúgal. Já, og svo er náttúrulega víðast hvar bannað að reykja, til dæmis á ströndinni, enda reykir enginn þar. Ég er náttúrulega ánægð með að það sé bannað að reykja en mér fannst þetta samt merkilegt fyrst...að jafnvel á börum og diskótekum eru reykfrí svæði. Til að komast inn á skemmtistað þarf maður alltaf að sýna skilríki, og það verður að vera vegabréf eða ökuskírteini. Ég er ekkert hrifin af því að djamma með vegabréfið en um daginn varð Gummi að fara heim að sækja ökuskírteinið því hann var bara með debetkort og stúdentakort og þeir taka slíkt ekki gilt. Einnig er bannað að vera ölvaður á barnum. Við sátum í rólegheitum og sötruðum öl með þremur íslenskum strákum sem eru hér á bakpokaferðalagi í fyrradag og urðum vitni að því hvernig verðirnir gengu um og bönkuðu í öxlina á mörgum gestum og báðu þá um að hypja sig. Fólk er greinilega vant þessu, flestir bara kinka kolli og arka út með samviskubit yfir að vera of fullir...hvort sem þeir eru það eða ekki. Sex lögreglumenn komu líka inn á staðinn og könnuðu þar allar hæðir og króka. Kannski er þetta svona víða en ég á erfitt með að venjast þessu. Bannað að vera prakkari í Ástralíu!

þriðjudagur, mars 29, 2005

Hógværð/hreinskilni

Skoðanir fólks eru mjög skiptar hvað dyggðir varðar. Hógværð held ég að teljist alltaf til dyggða en getur þó orðið þreytandi í of miklum skömmtum. Eftirfarandi samtal myndi til dæmis hljóma frekar hallærislega:

tótla: Rosalega ertu klár að syngja!
Pavarotti: nei nei...láttu ekki svona
tótla: jú í alvöru talað, þú ert svakalegur söngvari, þvílík rödd!
Pavarotti: tja...maður er svona eitthvað að gaula annað slagið, ég geri bara mitt besta.

Æ ég er ekkert frábær í dæmisögum em ég held að þetta útskýri mál mitt. Mér finnst hógværð mjög fín en oft mun skemmtilegra þegar fólk er bara hreinskilið. Bobby Fischer er ekki þessi hógværa týpa; "I object to being called a chess genius, because I consider myself to be an all-around genius who just happens to play chess".

hehehe:) Hvernig er það annars, þarf hann Bobby ekki að fá sér íslenskt millinafn núna? Ég hélt að það væri þannig með íslenska ríkisborgara. Nokkrar hugmyndir:
Bobby Örn Fiscer
Bobby Olgeir Fischer
Bobby Ívar Fischer
Bobby Freyr Fischer
Bobby Tumi Fischer

Svona mætti lengi halda áfram, möguleikarnir eru endalausir fyrir strákinn. Annars er ég með fyndið lag á heilanum, hvaða lag er þetta aftur? "country road, take me home, to the place, I belong...West Virgina..." og svo framvegis. Get ekki hætt að syngja þetta lag en man ekki fleiri línur né hvaða lag þetta er. Over and out

laugardagur, mars 26, 2005

"Fischer heim"

Muniði eftir "Börnin heim" baráttunni? Það er náttúrulega ekkert til að grínast með, en barátta Íslendinga fyrir "heimkomu" Fischers er farin að minna mig á Sophiu Hansen málið. Ég reyni náttúrulega að kíkja reglulega á mbl og vísi og fleiri svona síður og fyrsta orðið sem hefur komið upp í hugann á mér er GÚRKA! 50% fréttanna voru um landana Jackson og Fischer. Fischer má mín vegna koma til Íslands og líka gaman að senda BNA langa fingurinn einu sinni, en fyrr má nú aldeilis vera. Á ekki eitt yfir alla að ganga í þessum málum? Ég vona að íslensk stjórnvöld séu tilbúin til að berjast jafnhetjulega fyrir öðru fólki í samskonar vandræðum og þá dettur mér fyrst í hug hjónin sem fengu að vera lengur á landinu af því að þau eignuðust barn. Veit reyndar ekkert hver staðan er í því máli. Í gærkvöldi ákvað ég að horfa á "Fischer heim" útsendingu Stöðvar 2 á netinu og því verður ekki neitað að í gærkvöldi fékk ég mesta kjánahroll sem ég hef fengið lengi. Lendingu flugvélarinnar var lýst eins og knattspyrnuleik, "já við sjáum þarna smá díl, það eru ljós flugvélarinnar, sem er að koma yfir Akranes og ég giska á að hún lendi eftir eina tili tvær mínútur... þetta er æsispennandi" og svo seinna "Páll Magnússon, hvor megin siturðu í vélinni? geturðu vinkað okkur í glugganum?" ok, úff ég ætla ekki að rifja meira upp en þetta var eins pínlegt og hægt er, að gera langa sjónvarpsendingu, í beinni frá flugvellinum þegar Fischer lenti. Þarna voru líka sjúkrabílar og slökkviliðsbílar. Ætli flugbjörgunarsveitin, víkingasveitin og íþróttaálfurinn hafi ekki beðið þarna líka. Allir reiðubúnir ef eitthvað skyldi gerast. Mig grunar að meirihluti fólks hafi verið þarna í einhverju djóki að taka á móti blessuðum Bobby sem var varla kominn út úr flugvélinni þegar fréttamaður stöðvar 2 hálfpartinn réðst á hann með spurningum, það vantaði bara "how do you like Iceland?" Stöð 2 afrekaði þarna að ná botninum í hallærislegri æsifréttamennsku og mér er alveg sama þó þeir hafi borgað fyrir þessa rellu. Þeir fengu nægan tíma með Bobby inni í vélinni og sviku auk þess loforð við Bobby Fischer nefndina. hahaha, "Bobby Fischer nefndin"...ég bara varð að skrifa þetta orð aftur. Bobby er kominn heim á Frón, Páll Magnússon drullaði upp á bak og ég er farin að læra. Góðar stundir.

fimmtudagur, mars 24, 2005

Hani, krummi, hundur, svín...

...geit, lamadýr og páskaungi... eru meðal þeirra dýra sem ég sá í dag. Við Gvendólína fórum á Easter Show, eða páskasýningu eins og það myndi kallast á okkar ástkæra. Páskasýningin fer fram á Ólympíuleikvanginum og þangað flykkjast innfæddir sem útfæddir um páskana til að sjá kusur (örugglega fullt af borgarbörnum sem hafa aldrei séð belju nema í sjónkanum) og ketti og ýmis önnur dýr, fara í tívolítæki (ekki dýrin samt), borða mat, borða nammi, borða snarl og eitthvað fleira. Mér finnst fólk borða mikið hérna. Meira að segja ég borða meira en venjulega, það er reyndar ekkert "meira að segja", ég var bara að pæla hvaðan öll þessi matarlyst kæmi. Jæja, alla vega, páskasýningin var skemmtileg þó ég hafi ekki farið í nein tæki. Kannski ég segi bara aðeins betur frá þessu á sameiginlega blogginu okkar Gumma, þið getið lesið þetta þar, ég þarf að reyna að vera á undan stráknum að blogga því annars segir hann eitthvað asnalega frá deginum eins og "Tótla heimtaði candy floss og hætti ekki að suða fyrr en hún var búin að kaupa það". Héðan er annars fátt annað að frétta, ég er bara að reyna að gera ritgerð og því fátt í gangi, eða þannig sko. Veðrið hefur verið frekar glatað, haustlegt, en í dag var það reyndar mjööög fínt. Síðustu páska lá ég á ströndinni í Portúgal í góðum fíling. Nú er ég í Ástralíu í góðum fíling. Á maður þetta skilið? svo er ég alltaf að svekkja mig á því að vera ekki á skíðum um páskana eins og alltaf þegar ég var yngri. Nei, ég á þetta deffinittlí ekki skilið. Liggjandi á ströndinni eða sleikjandi sólina á ástralskri fjölskylduhátíð, hugsandi, "af hverju er ég ekki á skíðum núna?" Mikið er maður ruglaður.

mánudagur, mars 21, 2005

Que raro!

Ég var nýbúin að tala um það hér að bloggið væri alltaf á japönsku. Hvað haldiði? Það er allt í einu á ensku! Skrýtið, kannski Herra Bloggmundur hafi lesið síðustu færslu mína og ákveðið að gera eitthvað í þessu. Í dag var góður dagur. Ég fór, ásamt ástmanninum í klippingu en það höfðum við dregið lengi lengi. Ég kveið þessu eins og ég væri að fara til tannlæknis. Hélt þetta yrði kannski sárt. Klippingin, tjah... hún er bara svona í lagi. Kellan þurfti að stytta hárið mitt ansi mikið því það var orðið svo þurrt og slitið, ég var eins og hamflett hæna. Mér var skellt í djúpnæringu og spesjal trítment, þær áttu bara ekki til orð yfir hvað lubbinn var þurr. Ég fór að sakna Svavars míns, huhuhu maður er svo vanafastur. Nú, eftir að við losnuðum frá hárgreiðslustofunni fengum við okkur McDonalds nagga og ostborgara sem er nú engin stórfrétt, en þar á eftir fórum við í sportbúð og tótla fékk langþráða hlaupaskó frá Gumma sínum því hún er svo góð stelpa. Seinnipartinn ákvað ég að vígja töfraskóna, hélst á sæmilegu skokki í svona korter. Þá bara sprakk ég. Held ég fái strengi á morgun. Mér varð óglatt eftir skokkið og leið ekki betur fyrr en eftir hálfan snakkpoka, einn súkkulaðiíspinna, hlaupkalla og tvö sprætglös... og líður bara enn nokkuð vel. Ekki segja tannsa samt frá þessu, þetta var náttúrulega sérstakt tilfelli. Dagurinn á morgun mun samt hefjast með skokki, húrra fyrir mér:)

sunnudagur, mars 20, 2005

jamm...

Af hverju er "blogger sign in-ið" á japönsku (eða einhverju svoleiðis)? getur einhver svarað því. Maður er alla vega búin að læra táknin fyrir "login" og "password" á þessu tungumáli. Sniðugt. Það sem er ekki sniðugt hins vegar er að hér er að byrja að hausta, á meðan allir aðrir eru að monta sig af því að það sé að byrja að vora. Fúlt. Ég hef reyndar ekkert tíma til að njóta sólar né rigningar þar sem ég húki mest inni og reyni að læra. Hef þar af leiðandi voðalega lítið til að blogga um og er hrædd um að það verði bara lítið um blogg á næstunni. Ekki nema þið hafið gaman að "í morgun borðaði ég kornfleggs en ég gær morgun kókópoffs" Ok...ég er allavega farin að fá mér morgunmat, hef það kornfleggs.

miðvikudagur, mars 16, 2005

Vond timasetning

Ég veit ekki hvort einhver annar tími hefði hentað betur til að dvelja í Ástralíu í 1 og 1/2 ár... en ég var að spá, ég hlýt að missa af mörgum 25 ára afmælisveislum:( er pínu svekkt sko. Svo er Erlan mín bestasta að fara að giftast Jónasi í sumar og mér finnst hundfúlt að missa af því. Eiginlega alveg hund -grautfúlt. Þar að auki eru nokkrar óléttur hér og þar, næst á dagskrá held ég að sé örugglega Arndís Vilhjálms MR -vinkona en hún er einmitt meðal annars fræg fyrir að hafa komið okkur Gumma saman:) Guðrún mín gengur með tvillinger en hún býr nú í Köben þannig að maður þarf sennilega að fara þangað í heimsókn til að taka tvíbbana út eftir að við ljúkum ástralíuruglinu okkar. Jamm, c'est la vie.

fimmtudagur, mars 10, 2005

Konungskross

Í gær fór Kiddi bekkjarbróðir til Bangkok þannig að við erum aftur tvö í kotinu. Kiddi slapp sæmilega frá hörðum sófanum sem hann svaf á í 4 nætur. Held að Victoria Bitter bjórinn hafi aðstoðað hann svolítið að svíf á vit draumanna á kvöldin. Ég væri alveg til í að vera í Bangkok núna. Sydney er svo sem ekkert slæm, hehe:) VIð Gummi litli ákváðum að kíkja í áður ókannað hverfi af okkar hálfu. Það er hið margrómaða Kings Cross hverfi. Í Kings Cross sáum við pönkara, strípibúllur, fullorðinsbúðir og portkonur. Við stoppuðum ekki lengi reyndar en keyptum í matinn þarna. Í gærkvöldi skunduðum við svo í bíó (aftan á Coco Pops pökkunum er tveir fyrir einn í bíó-afsláttarmiði svo hér er Coco Pops í öll mál út marsmánuð þegar tilboðinu lýkur). Hotel Rwanda varð fyrir valinu en það er sirkabát 5 vasaklúta mynd. Mjög góð, en ég vissi lítið um stríðið nema að það var á milli Hutu og Tutsi ættbálkana og eitthvað smá svona, svo er maður svo fljótur að gleyma... þetta er svo fjarri manni. Ojbarasta hvað heimurinn er ógeðslegur og hvað maður hefur það skammarlega gott. Ég hágrenjaði yfir myndinni, sat svo í lestinni á leiðinni heim, alveg grátbólgin og enn að hugsa um stríðið í Rwanda, fitlaði við hárlokk og sagði við Gumma, "er hárið á mér ekki búið að lýsast?" Svo dauðskammaðist ég mín. Hvernig get ég grátið yfir þessum grimmdarlegu atburðunum og fundist lífið svo ósanngjarnt og flókið en á sama tíma furðað mig á því (og það upphátt) að hárið á mér sé að lýsast. Svona er maður ófullkomin.

miðvikudagur, mars 09, 2005

Túristi

Ég hef verið að túristast hérna síðustu daga. Kiddi bekkjarbróðir er sem sagt hjá okkur í Sydney og þá er um að gera að nota tækifærið og skoða sig um. Fórum á safn í dag, gengum um grasagarðinn sem nota bene er mjög fallegur og á einu svæði er krökkt af leðurblökum sem eru ekkert smá skondnar. Núehhh svo höfum við þrjú tekið urmul af týpískum ferðamannamyndum, styllt okkur upp fyrir framan Óperuhúsið og svona. Já já, voða gaman. Hér er náttúrulega sumar, mjög þægilegt hitastig alltaf en mér finnst ég verða meira vör við rækallans moskítókvikindin með hverjum deginum. Ekki skemmtilegt. ókei, annars bara alles gut...

sunnudagur, mars 06, 2005

þriðji i afmæli

Takk fyrir allar afmæliskveðjurnar:) ég stóð við súkkulaðiátið, fór í Bon Bon og valdi mér fimm guðdómlega konfektmola. Svo sá ég lögguna bösta þrjá unglingspilta af asísku bergi brotnu (ekki að það skipti máli...mér finnst þau bara alltaf svo sakleysisleg) við búðarhnupl. Ég stillti mér upp og leit á klukkuna eins og ég væri að bíða eftir einhverjum og fylgdist með. Voða gaman. Svo sá ég stelpu, einhvern fimleikabrjálæðing, troða sér í glerkassa á miðju torgi og fólk borgaði henni svo fyrir skemmtiatriðið. Mig langaði frekar að borga henni fyrir að hætta þessari vitleysu. Troða sér í kassa?!?! Jæja, svo ætlaði ég að kaupa mér augnkrem (maður á víst að gera það þegar maður verður 25) en hugsaði málið betur og ákvað þar sem yfirleitt flestir halda að ég sé tveimur árum yngri en ég er, að bíða með augnkremið í tvö ár. Svona var sem sagt afmælisdagurinn, en við Gummi fórum á út að borða um kvöldið sem var aldeilis eftirminnilegt þar sem hann fékk heiftarlegt ofnæmiskast eftir nokkra bita af matnum, við þutum heim og hann var veikur alla nóttina. Það má alla vega segja að ég gleymi 25 ára afmælinu mínu seint:) Já, og eitt enn, við fórum á Hitch í gær...hmmm ekki búast við að Will Smith sé að gera nýja hluti. Það var vel hægt að hlægja að þessu en shit hvað hún var oft væmin og langdregin. Mér fannst gaurinn úr "King of the Queens" bjarga myndinni, og hann var reyndar mjög skondinn. Aðrir voru bara þarna.

miðvikudagur, mars 02, 2005

25

Þetta með að verða 25 ára í dag... ég veit ekki alveg hvað mér finnst um það. Það eru allir að spyrja hvað ég ætli að gera í tilefni dagsins... hmmm ég bara veit það varla en ég hef haft augastað á konfektbúð sem heitir "Bon Bon" í Queen Victoria Building um skeið og þangað liggur leið mín til að byrja með. Ég hef þegar í huganum ákveðið þrjá handgerða súkkulaðikonfektmola sem ég ætla að velja mér:)

þriðjudagur, mars 01, 2005

Hagsyn húsmoðir

Nú er Gummi að arka heim á leið eftir fyrsta tímann í skólanum. Ég vona að honum hafi litist vel á. Ég stend mig náttúrulega vel í hlutverki hagsýnu húsmóðurinnar. Hef beðið með hárþurrkukaup hingað til en freistaðist til að fjárfesta í einni slíkri þar sem hún kostaði einungis 800 krónur! Þar að auki fylgdi bursti með. Vona að ég hafi gert góð kaup. Svo erum við búin að baka smá og erum bara voða myndó í þessu. Þetta byrjar alla vega vel en nú þarf ég að baka afmælistertu, spurning hvernig það gengur... hmmm jamm og jæja, sem sagt allt gott að frétta frá Róshæðargötu 32 í Sydneyborg. Bless og takk, ekkert snakk.

sunnudagur, febrúar 27, 2005

Stormur

Í vikunni lauk ég lestur ákaflega skemmtilegrar bókar sem Hildur Edda gaf mér áður en ég hélt hingað út. Ég mæli með að þið farið bara öll og náið ykkur í Storm eftir Einar Kárason sem fyrst og njótið þess að lesa hana því eins og mig dauðlangar til að segja ykkur frá fullt af fyndum köflum úr henni og pælingum sem spruttu upp í kollinum á mér við lesturinn þá ætla ég ekki að gera það til þess að eyðileggja ekki fyrir ykkur:) Alla vega erum við Gummi bæði búin að lesa hana og hún er allt öðruvísi en allar bækur sem ég hef lesið og bara alveg frábær. Yndislega íslensk:) maður er svo mikil þjóðernisremba í útlöndum.

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Vandræði

Já, ég væri löngubúin að skrifa eitthvað hérna hefði ég ekki endalaust verið í einhverju stappi við bloggerinn...bölv... puff. Hvað segja Frónverjar annars? alltaf kalt? ehehhe, mér er bara frekar hlýtt sko, bara voða fínt, sól og ...hmmm hvað á ég að segja, svona 25 gráður í forsælu, já já brakandi blíða bara. Þetta er bara eins og í hitabylgjunni heima í fyrrasumar, múahahaha, aðeins betra myndi ég segja. Gummi og íslensk stelpa sem heitir Erla voru eitthvað að monta sig af þessari hitabylgju, við vorum í partýi, og sátum þar fjögur, ég, þau og ein sænsk stelpa og Gummi og erla tóku alveg Thule auglýsinguna á þetta. Ég átti bágt með mig:) In Iceland...last summer, we had like over 20 degrees for more than 3 weeks!!! og þið hefðuð átt að sjá svipinn á þeim. Ég ætla ekki að halda öðru fram en að veðrið var virkilega gott þarna í júlí/ágúst, en ef ég man rétt þá var hitametið í Reykjavík slegið...alveg 24 gráður, eða voru það 22? Man það ekki, reyndar virðast 22 gráður á Íslandi heitari en 22 á Spáni, hefur eitthvað með loftslagið að gera, en eitthvað held ég að fjarlægðin hafi gert fjöllin blá þarna. Sú sænska hló með mér. Veðrið var að vísu bjútífúl, en ég held að hitabylgjan sjálf hafi verið í um eina viku (af þremur mánuðum sem sumarið er) og ég minnist þess ekki að hafa oft klæðst stuttbuxum eða einhverju svoleiðis. Kannski svona vika sem mig rámar í að hafa verið að striplast í garðinum hjá systu þegar við vorum að mála húsið. Ísland, best í heimi!

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Australia

well, ta er eg komin til Sydney...hef ekki tima akkurat nuna til ad segja meira fra tvi...later...

mánudagur, febrúar 07, 2005

Kosningar

Bara minna ykkur á að kjósa Vöku í vikunni, og mér hafa borist kvartanir frá Guðjóni Ármannssyni vökugosa en hann hefur ekki fengið mynd af sér á tótlutjattið í tvö ár held ég. Ég vona að þessi bjargi málinu:)

sunnudagur, febrúar 06, 2005

TAKK

Ég er nú soddan flökkukind í mér og frekar vön því að kveðja Frón. Ætlaði nú ekkert að vera mikið að gera úr þessu, en bauð nokkrum myndarlegum dömum í kökuboð á fimmtudaginn, aðallega af því að mér finnst svo gaman að halda boð, og hafði í raun planað að gera svo á afmælinu mínu, þannig að þetta átti ekki að vera dramatísk kveðjuveisla. Ég tók það líka fram og var með yfirlýsingar um það að ég væri ekki mikið fyrir svona kveðjustundir, enda verð ég komin heim aftur eftir bara 1 1/2 ár. Uppáhalds systir mín skipulagði hins vegar óvænta kveðjuveislu fyrir okkur Gumma, sem var náttúrulega toppurinn, því þar náði ég að hitta svo marga vini mína í kveðjupartýi og það er ekkert drama í því. Nánari lýsing er hér.

föstudagur, febrúar 04, 2005

Spéhræðsla

Ég fór í sund eitt kvöldið í vikunni, og þar sem ég stóð í sturtunni og togaði sundbolinn til í allar áttir svo hann sæti rétt og hyldi það sem ber að hylja varð mér hugsað til Allyar vinkonu minnar. Hún er amerísk og kom að heimsækja mig til Íslands fyrir þremur árum. Við Vala tókum Ally að sjálfsögðu í Bláa Lónið sem henni fannst mjög spennandi....þar til kom að sturtunni. Þá varð hún pínu stressuð þegar hún stóð í búningsklefanum og horfði á eftir okkur Völu sem skokkuðum berrassaðar með sundbolinn í hendinni, inn í sturtu og þrifum okkur hátt og lágt með sápu, og náttúrulega á öllum stöðum svona eins og er bent á plakatinu með mannslíkamanum í almenningssturtuklefum. Ally afklæddist þegar við vorum komnar inn í sturtu, kom svo inn í sturtuna til okkar með handklæði utan um sig og smeygði sér inn í sturtu sem hafði sturtuhengi fyrir. Þar gat hún þvegið sér og klætt sig í sundfötin ein í friði en samt talað við okkur skvetturnar. Þeir eru svo séðir þarna í Bláa Lóninu, útlenska fólkið er ekki vant þessu. Við erum vön að hópast allsnakin í almenningsturtum þar sem við tepruskapur viðgengst ekki:) Fyndin tilhugsun hvað okkur finnst eðlilegt að standa svona berrassaður í sturtu með mörgum öðrum og skiptast á uppskriftum og ráðleggingum um sjampótegundir á meðan við þvoum "þið vitið hvað" og lögum sundbolinn og hlaupum út í laug. Bravó fyrir okkur:)

Þegar ég var ellefu ára fór ég til Mallorca með mömmu og systu. Ég fór ekki öðru vísi út í sundlaug en í ömmulegum og efnismiklum sundbol og víðum stuttermabol yfir. Spéhræðslan var rosaleg. Ég hef reyndar alltaf verið pínu spéhrædd, en það virðist skán með hverju árinu. Koma svo Tótla!

þriðjudagur, febrúar 01, 2005

Nýtt blogg

Við Gvendur minn erum komin með nýtt blog þó þetta verði áfram í fullu fjöri. Við ætlum að reyna að hafa svona sameiginlegt útlandablogg frá Ástralalíunni, það er svo móðins hjá pörum í dag. Endilega kíkið á þetta hjá okkur:)

mánudagur, janúar 31, 2005

Tannsi (part 2)

Var að koma frá tannsa. Er ekki sú hamingjusamasta núna enda var verið að gera við skemmd á milli framtannanna. Það er ekki þægilegt. Ég reyndi að hugsa um Steingrím, yngsta "barnabarnið" mitt þegar mestu lætin voru, en það linaði sársaukan lítið, dreifði þó huganum:)

laugardagur, janúar 29, 2005

Það styttist...

...í "útförina" eins og Ari Vökusnáði orðaði það svo skemmtilega þegar ég hitti hann í Vökupartíi á Hressó í gær. Við Gummi minn förum eftir rúma viku (7.febrúar) til Sydney, þannig að maður ætti kannski að fara að þvo og pakka og svona. Já, svo á ég eftir að fá visa alveg rétt. Hmmm, ætla að drífa í því asap. Gaman að þessu. Annars er bara allt gott að frétta...hmmm já já...

miðvikudagur, janúar 26, 2005

Hádegisfundur

Vaka er með hádegisfund á morgun, fimmtudag klukkan 12:20 í Odda stofu 101. Umræðuefnið er "þunglyndi" og framsögumenn er Elísabet Jökulsdóttir, Salbjörg Bjarnadóttir en hún er geðhjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri "Þjóð gegn Þunglyndi", og Eiríkur Örn Arnarson sálfræðingur. Mér finnst mjög áhugavert að fræðast meira um sjúkdóminn enda eru miklar ranghugmyndir, feimni og fordómar í þjóðfélaginu gagnvart þunglyndi. Ég vil því hvetja alla til að koma á fundinn:)


Ég fór til tannsa í morgun. Ég þarf að fara aftur til tannsa á eftir. Ég þarf sennilega að fara aftur til tannsa líka á morgun. Og hinn og ef dagurinn þar á eftir ("þar-hinn") væri ekki laugardagur færi ég sennilega á þá. Jebb, Tótla tannálfur og tannbursta-meiníak með meiru er með skemmdir í tönnslunum og fékk skömm í hattinn frá fröken tannsínu í morgun. Þar er frekar mikil sorg yfir þessu öllu saman enda hef ég alltaf hugsað nokkuð vel um tennurnar og er eiginlega enn að reyna að ná áttum. Ég kenni óreglulegum matartímum og Vífilfelli um. Tannsína sagði mjög skýrt við mig áðan, "EKKERT KÓK UNGA DAMA". Samt ekki alveg svona en næstum því. Þess vegna hef ég enn einu sinni tekið þá ákvörðun að hætta að drekka kók en mér er meiri alvara núna en oft áður.

laugardagur, janúar 22, 2005

Vaka

Gærkvöldið var með eindæmum skemmtilegt, var rétt að skríða fram úr bælinu núna á hádegi:) Ég byrjaði á að vera barþjónn í smástund í boði sem systir mín var í. Þið vitið hvað barþjónar gera... "einn fyrir gestinn...einn fyrir mig". Þannig á meðan ég hristi saman kokteil fyrir dömurnar hellti ég reglulega smá slurk í mitt glas og smakkaði þetta til. Reyndar var þetta alltaf sami kokteillinn en það er betra að vera viss. Mér fannst öll glösin jafngóð. Að barþjónastarfinu loknu hélt ég á listakynningu Vöku á Hressó, sem var hressandi. Mér leist vel á krakkana (við erum meira að segja með eina idol stjörnu!) þó ég eigi eftir að taka þau í persónulegt viðtal. Já, það er erfitt að vera að sleppa svona takinu á Vöku sinni þannig að það er eins gott að þessir nýju standi sig. Listakynningin var svo óhemjuskemmtileg og fjölmenn að ég held ég hafi verið til hálfþrjú á Hressó (mér finnst það mikið í ljósi þess að ég mætti þangað um 10). Svo fórum við á Vegas og Óðal en það var ekkert stuð. Nei djók, fljótlega eftir þetta fór ég sem sagt heim. Jamm. Fúlt annars að MR sé dottinn út í Gettu betur. Nenni ekki að tala meira um það.

mánudagur, janúar 17, 2005

How do you like Iceland?

Horfði á þessa skemmtilegu heimildarmynd eftir Kristínu Ólafsdóttur á Rúv í gærkvöldi. Hún var mjög athygisverð og gaman að heyra mismunandi reynslusögur útlendinga af Íslendingum og líka gott að þeir voru gagnrýnir, þeir nefndu bæði kosti og ókosti lands og þjóðar. Ég hló alla vega mjög mikið. Einn (ég held sá danski) nefndi nokkuð sem ég hef oft áður heyrt útlendinga segja, að ALLIR Íslendingar séu að gera eitthvað skapandi, sauma, hanna, yrkja, syngja, mála og þar fram eftir götunum. Ég fæ alltaf einhverja óþægilega tilfinningu þegar ég heyri þetta þar sem ég hef ekki gert neitt svona skapandi síðan í grunnskóla en þá var ég mjög dugleg að semja ljóð og sögur. Ég ætla að leyfa einu af mínum fyrstu ljóðum að fylgja þessu bloggi, ég samdi það þegar ég var um það bil átta ára og sat með mömmu úti á svölum í sólbaði.

Lítil stúlka sefur rótt,
getur ekki vaknað.
Úti hefur snjóað í nótt,
þess hefur hún saknað.


Jamm, æskuvinkonur mínar kannast kannski við þessar línur, ég fór með þetta litla ljóð við ýmis tækifæri. Maður ætti kannski að halda þessari ljóðasmíð áfram til að standa undir nafni sem sannur Íslendingur:) Ég get aðeins sett út á eitt við þessa fínu mynd, "How do you like Iceland?" og ég hef nefnt þetta áður í öðru samhengi. Hvar var íslenska tónlistin? Halló halló, af hverju þarf ég að hlusta á "Air", "Jamiriquai" og fleiri ágæta erlenda listamenn í íslenskri bíómynd sem fjallar um Ísland þar að auki þegar það eru til svo ótrúlega margt gott íslenskt tónlistarfólk. Ég fer að hallast að því að það sé satt sem einhver sagði þarna í þættinum í gær, við þjáumst af minnimáttarkennd. Þetta á ekki að hljóma eins og einhver þjóðernisremba í mér en mér finnst alveg sjálfsagt að gefa íslensku tónlistarfólki fleiri tækifæri og alger óþarfi að leita út fyrir landsteinanna þegar vantar fallega tónlist. Eru ekki allir að tala um að við séum svo skapandi? Hvernig væri að nota þessa sköpun betur?

sunnudagur, janúar 16, 2005

Oz (framhald)

Ætli það sé ekki rétt að ég útskýri þetta Ástralíudæmi nánar. Við Gummi minn erum að fara til Sydney því hann fékk skiptinemasamning þar. Þetta byrjaði sem smá flipphugmynd sem er orðin að veruleika og 7.febrúar nk. höldum við til London þar sem Al/Védís munu hýsa okkur í tvær nætur en svo heldur ferðalagið áfram þann 9.febrúar og að kvöldi 10.febrúar lendum við í Sydney, en þá verður reyndar fimmtudagsmorgun á Íslandi nota bene. Ég sótti um í skóla líka en hef ekki fengið svör en grunar að ég eigi ekki möguleika fyrr en ég hef útskrifast frá HÍ. Þannig að á meðan Gummi Hlír stúderar mun ég kengúrast í BA ritgerðinni og vonandi fæ ég líka vinnu. Jamm, svo verðum við komin heim fyrr en varir því þetta er bara eitt skólaár:) Hvernig líst ykkur á lömbin mín?

þriðjudagur, janúar 11, 2005

Oz

Var ég búin að segja ykkur að við Gummi Hlír erum að fara til Ástralíu?

sunnudagur, janúar 09, 2005

Svei mér þá...

ég hef ekki látið sjá mig hér á síðunni síðan á síðasta ári (mikið af "síð" í þessu). Jamm, ég var agalega bissí milli jóla og nýárs, Clueless félagið hélt kallakvöld hjá Kristínu, Karen var með kjaftakvöld fyrir verkfræðisaumó, og Bryndís bauð Söndru, Al/Védísi, Katrínu og Guðrúnu (og mér). Úff, voða mikið að gera. Á nýju ári hef ég líka þurft að hitta fólk, Herdís var með brunch fyrir Clueless, það hófst klukkan 10:30 og þegar mér tókst að skríða á lappir upp úr 10 bölvaði ég mikið yfir að hún skyldi ekki bara halda lunch klukkan 12 (eða 13). Mér leið reyndar strax betur eftir fyrstu pönnukökuna og eftir það var mjög gaman:) Annars hef ég bara verið að vinna og útrétta, en mín bíður líka óskrifuð BA ritgerð, byrja á morgun. Bravó!

sunnudagur, desember 26, 2004

Gleðileg jól!

Jamm, kominn annar í jólum og tíminn vel nýttur í át, gláp og almenna leti þessa dagana. Ég borðaði skoska rjúpu á aðfangadag, og ég segi nú bara eitt, þeir kunna þetta líka skotarnir! Það var ekkert að þessari rjúpu, Anna Björk tróð nokkrum krækiberjum upp í rassinn á henni og þá var þetta alveg eins og sú íslenska. Systa bjó einnig til himneskan forrétt, humar í villisveppasósu og ég gæti alveg hugsað mér slíkan forrétt á hverjum degi:) Mágsi sér yfirleitt um eftirréttinn þann 24.des og heitir sá réttur Úrsúla, en hún Úrsúla fékk´frí í ár svo við fengum ís, jordbær og syndsamlega góða súkkulaðisósu. ohhhh, namm. Við vorum enn að japla á humrinum (forréttinum) þegar Birgir Steinn frændi hóf að þrusa í okkur pökkum til að opna. Það veitti kannski svo sem ekkert af að byrja þar sem pakkaflóðið var ótrúlegt í ár. Jedúdda mía. Ég fékk ýmislegt fallegt sem ég ætla ekkert að vera að gorta mig af hérna. Ætla að athuga hvort ég finni ekki eitthvað óhollt í pottunum og ´skápunum í eldhúsinu, fleygja mér með það sem ég finn ætt í sófann og vera þar, þangað til ég þarf að mæta í næsta jólaboð. Góðar stundir.

mánudagur, desember 20, 2004

Búúúúúiiiin.....

...í prófunum:) gerði meira að segja heiðarlega tilraun til djamms á laugardag (nota bene, kláraði á föstudag) en var bara í svo rólegu skapi og hálflúin að það gekk brösulega. Það var reyndar mjög gaman en ég er oft bara of þreytt eftir svona lestörn til að djamma. Helgin fór því í að jafna sig, nú já og vinna. ok best að fara að huga að jólahreingerningu... ekki tjúllast í jólastressi gott fólk!

miðvikudagur, desember 15, 2004

Snerpa



Jólastrákarnir í ár

Það er ekki mikil snerpa í stelpunni þessa dagana. Mér finnst tíminn bara svona fljóta áfram, stundum svo hratt, samt svo hægt, ég vakna, læri, borða, fer á salernið, kíki á netið. Hmmm tilbreytingaleysi prófanna vofir yfir, sem er gott. Ég er jú að fara í próf. Ég er álíka vel til höfð og Osama á slæmum degi, mér vex reyndar ekki grön, alla vega ekki mikil. Þetta hljómar illa, en vitiði hvað, þetta er allt í lagi því allt í kringum mig er fólk í sömu sporum, við hámum í okkur nammi og erum klístruð af bráðnuðu súkkulaðikexi og sveitt af æsingi að lesa. Þegar ég fæ annað slagið nóg af tíberuðum bókum og útkrotuðum og krumpuðum glósum, svo ekki sé minnst á súkkulaði og svitafýlu fæ ég mér bíltúr í Kópavog þar sem er að finna fallegasta og skemmtilegasta Steingríminn (að bróður mínum ólöstuðum) sem horfir á mig aðdáunaraugum og finnst ég yfirleitt sniðug. Hann meira að segja hlær að fíflaganginum í mér. Ég hressist af þessum heimsóknum og get alltaf brunað beint á safnið aftur, full af eldmóði að troða inn fróðleik.

mánudagur, desember 13, 2004

MSN

Ég ætla að leyfa mér að vera með smá leiðindi núna. Þannig er mál með vexti að ég nota MSN talsvert, sérstaklega til að tala við vini mína (og kærastana mína) í útlöndum. Mér finnst þetta bara mjög sniðug leið til að ná smá spjalli við vini sína sem maður myndi annars ekkert endilega hringja í né hitta á förnum vegi. Það er þó eitt sem ég skil ekki við þróun MSN, og það er hneigð fólks til að "heita" eitthvað annað en þeir heita. Skilst þetta? Ég til dæmis heiti alltaf bara "tótla" á MSN en ekki, "ein að læra", "ógeðslega þunn", "Alabama", "hress í sturtu"..."mygluð" eða ég bara veit ekki hvað. Mér finnst hálfgerður óþarfi að flækja málin og fólk þarf ekki að hafa fyrir því að sjá hvort ég sé "signuð inn" eða ekki. Ég hef ekkert á móti þessu, en mér finnst þetta óþarfi. Er ég tuðari? Kannski ég ætti að heita það á MSN, "tuðari"...

sunnudagur, desember 12, 2004

Hugmynd

Fékk smá hugmynd við lestur síðunnar hennar Ásdísar (er enn í vandræðum með að linka á fólk). Ef ég eignast annan kött þá mun ég skíra hann Miltis Brand, eða bara Miltisbrand. En Gríma verður að duga í bili...og Myrra ....og Milla, nú og Frosti minn, en hann er heimilisköttur á öðru heimili mínu. Já og ekki gleyma fuglinum sem Gríma veiddi handa mér og fór með undir rúmið mitt, já og hinn fuglinn sem endaði daga sína í eldhúsinu og svo þessi sem hún faldi á bakvið sjónvarpið í síðustu viku, plús mýsnar sem hún kemur með heim til að fara í löggu og bófa. Held það sé ekki pláss fyrir fleiri dýr í bili, Miltis Brandur verður að bíða betri tíma.

föstudagur, desember 10, 2004

Flores

Nú hef ég gróðursett eina tótlu á safninu. Þessi tótla ætlar að vaxa og dafna hér á safninu í eina viku og nærist á suðuramerískum bókmenntum. Það þarf líka að vökva hana reglulega með magic og jólaöli svo hún taki dálítinn vaxtarkipp enda þarf þessi tótla að vera orðin að mannvitsbrekku þann 17.des næstkomandi þegar hún verður rifin upp (afskorin) af safninu og þá vonandi blómstrandi af suðuramerískum bókmenntum. Ég hef reyndar aldrei verið lagin við að halda lífinu í blómum.

fimmtudagur, desember 09, 2004

miðvikudagur, desember 08, 2004

Aumingi

Ég er svoddan aumingi. Þegar ég keyrði frá Keflavíkurflugvelli í lok sumars eftir að hafa skutlað ástmanninum þangað fannst mér ár og öld þangað til ég myndi endurheimta hann. Nú fer þessu grasekkjutímabili mínu að ljúka (þremur vikum síðar að mér finnst) en Gummi kemur heim eftir 15 daga. Ég verð að viðurkenna að þó þetta sé kannski ekkert hrikalegt þá hefur mér eiginlega fundist þetta hálfglatað. Ekki gleyma að ég dvaldi á Spáni í 3 mánuði í vor (Gummi er reyndar nokkuð lengur í DK en ég var á Spáni) en þá var allt annað hljóð í tótlunni. Það var bara eiginlega ekkert mál, voða skrýtið. Þannig að ef þú lesandi góður ert að velta fyrir þér kostum og göllum fjarbúðar hafðu þá í huga orðatiltækið "betra er að vera skutlað upp á flugvöll en að skutla upp á flugvöll". Góðar stundir.

sunnudagur, desember 05, 2004

"Fannstu allt sem þig vantaði?"

Ef þið hafið farið í verslanir 10-11 nýlega hafið þið kannski orðið vör við þessa nýjung hjá kassafólkinu þeirra. Þeir spyrja "fannstu allt sem þig vantaði?" Greinilega nýtt policy hjá þeim, tekið fyrir á starfsmananfundi og svona. Þeir fá hrós dagsins fyrir góða þjónustu:) Næst þegar ég fæ þessa spurningu langar mig þó að prófa að svara; "neiiii, eigið þið nokkuð Nýmjólk"

múahahaha

Ég er að hugsa um að skrifa pirringsblogg á fimmtudögum í framtíðinni því þá verður allt svo skemmtilega vitlaust á síðunni, allir trylltir, mér finnst það gaman. Annars hefi ég lítið að segja í dag, ég sé um hund tengdó þessa dagana og það er fínt nema að stundum nenni ég ekki með hana í göngutúr (geri það nú samt). Hef mikið pælt í hvort það sé ekki hægt að þjálfa hunda í að fara sjálfir í göngutúr að gera númer eitt og tvö.

fimmtudagur, desember 02, 2004

Skammir

jæja, ég bloggaði í gær en það mistókst þannig að ég ætla að endurtaka mál mitt. Ég finn mig nefnilega knúna til að ausa úr skálum reiði minnar. Fyrir barðinu á mér verða fjölmiðlar. Því miður get ég ekki "drullað" yfir þá (afsakið orðbragðið) eins og mig langar þar sem ég veit ekki nóg um málið en pabbi setti mig aðeins inn í það og ég horfði á Kastljósið í gær. Kastljósið er yfirleitt fínn þáttur en þau mega skammast sín fyrir þáttinn í gær. Málið snýst um tónleika til styrktar krabbameinssjúkum börnum og hversu mikið listamenn fá borgað fyrir sinn hlut. Mér finnst fréttamenn hafa rétt á að spyrja um kostnaðinn en þeir hafa enga afsökun fyrir dónaskap né beint rétt á að yfirheyra tónleikahaldarann um hversu mikið hver listamaður fékk borgað. Tónleikahaldarinn (sem ég man ekki hvað heitir) hefur sent félaginu skýrlsu býst ég við þar sem allur kostnaður og ágóði er útlistaður. KB banki gaf 2.5 milljón en kostnaður var 5 milljónir minnir mig. Kristján segist hafa fengið 700 þús fyrir kostnað og aðrir þrír listamenn fengu afganginn. Ef Krabbameinsfélagið sér eitthvað athugavert við kostnaðinn láta þeir eflaust í sér heyra en fjölmiðlar hafa á aðdáunarverðan hátt reynt af alefli að draga eitthvað mögulega misjafnt upp á yfirborðið. Ég þoli ekki svona æsifréttamennsku, fulla af upphrópunum eins og í Kastljósinu í gær þar sem Sigmar og Eyrún (þá sérstaklega hún) voru árásargjörn og dónaleg og hún byrjaði þrisvar að tuða um það sama ..."bíddu, nú borgaðir þú Kristjáni 700 þús, og hinum þremur restina, það er einfalt reikningsdæmi, bíddu hvað fengu þeir mikið" bla bla. Er ekki alltaf gott ef einhver peningur safnast? Þetta er atvinna tónlistarmanna og mér finnst sjálfsagt að þeir fái einhver laun þó um styrktartónleika sé að ræða. Þetta voru þrennir tónleikar og ég efast um að Inga Lind, Eyrún og fleiri væru til í að gefa vinnu sína þrjú kvöld (+æfingar). Nú er ég í pirringi mínum orðin ómálefnaleg, en til að draga saman aðalatriðin í þessu þá var Kristján kannski fulldónalegur (samt líka fyndinn) í Kastljósinu en ekkert í líkingu við fréttamennina sem í gúrkutíð tóku fegins hendi þetta tækifæri til að hvíla viðtöl við hrakfallabálka á slysó sem flugu á hausinn í hálkunni og hófu stórskotahríð á fólk sem reynir að styrkja þetta ágæta málefni. Spurning hvort þeir nenni því aftur?

mánudagur, nóvember 29, 2004

Gloss

Það er að pirra mig þessa dagana að ég finn ekki nýja glossinn minn. Ég geri mér þó grein fyrir að það er ekki mjög gáfulegt að blogga um það. Ég er bara svo pirruð yfir þessu glossi. Reyndar er annað sem fer meira í taugarnar á mér, það er hann Janúkóvits (hmmm rétt skrifað?) "sigurvegari" kosninganna í Úkraínu. Svindl og svínarí. Veit ekki af hverju þetta fékk mig til að hugsa til Bush og Flórída...og líka til atkvæða sem gufa upp í Ameríku. Það er svo margt undarlegt. Hef engann tíma til að tjá mig í dag, er að læra undir próf og sinna hundi, hvolpinum hennar, ketti og fuglinum sem kötturinn kom með inn. Takk í dag.

mánudagur, nóvember 22, 2004

Ég er ósátt...

...við að flestar íslenskar auglýsingar innihalda erlend lög. Hvað er málið? Þetta hefur farið fyrir brjóstið á mér lengi (ekki svo að skilja að brjóstið á mér sé svona stórt) og nú bara verð ég að fá skoðun ykkar á þessu. Því í ósköpunum að nota erlenda listamenn þegar landið er sneisafullt af hæfileikaríku tónlistarfólk?

Cinema

Mjá, skellti mér á Bridget Jones með Söndru beyglu í gær. Það vill svo til að tveir aðrir fyrrverandi kærastar fara þar með lykilhlutverk, þeir Hugh og Colin og stóðu sig að vanda mjög vel. Um myndina hef ég fátt að segja, hún er ekki jafngóð og hin en svoleiðis er það nú bara alltaf. Mér fannst hún samt mjög fyndin, skemmtileg myndataka og svona... skemmtileg fyrir augað. London er svo sæt:) Missti af Gísla Marteini, frétti að þátturinn hefði verið áhugaverður, missti líka af NBA slagsmálum, getur maður ekki nálgast það á netinu? hehehe, mjá...hmmm, æji, ég hef ekkert merkilegt að segja...

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Hey Jude

Einhver vandamál með linka hjá mér, en var sem sagt að lesa að fyrrverandi kærastinn minn, Jude Law hefði verið tilnefndur kynþokkafyllsti karlmaður á jarðríki. Strákgreyið hann getur ekkert að þessu gert, hann fæddist bara svona, slurp!

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Gleymska

Ég horfði á fréttir í gær. Þar lýstu börn yfir áhyggjum sínum á þessu kennaraverkafalli, einn sagðist bara vera búinn að gleyma öllu sem hann hefði lært. Mér finnst ég eiga svo margt sameiginlegt með þeim unga dreng. Var samt að velta fyrir mér hvort nú yrði til ný kynslóð sem vantar í nokkra kafla úr mannkynssögunni og stafsetningu. Munu þau ekki lesa Gísla sögu Súrssonar? Munu þau ekki vita muninn á veikri og sterkri beygingu sagna? Munu þau ekki komast lengra í tölunum en upp í "tyve" í dönsku? Þetta verkfall bara hlýtur að hafa varanleg áhrif. Að sjálfsögðu eiga kennarar að fá góð laun en þeir fá ekki mína samúð lengur! Ekki eftir að hafa heyrt að börn eru rekin upp úr sundlaugum landsins ef þau voga sér oní á sama tíma og skólasund fór áður fram. Og ekki heldur eftir að kennarar tilkynna veikindi, fara í messu og biðja um áfallahjálp vegna andlegs áfalls eftir lagasetninguna. Að sjálfsögðu er þeim brugðið en ef einhver er í slæmum málum andlega þá eru það skólabörnin. Í skóla Bibba frænda fóru sum yngstu barnanna að gráta í gærmorgun þegar þau voru send aftur heim. Öryggi og regla á lífinu er það mikilvægasta fyrir þau og því fá grunnskólanemendur alla mína samúð. Amen.

laugardagur, nóvember 13, 2004

Jamm

Já, það heyrist ekki mikið í mér þessa dagana því ég held til á söfnum skólans þar sem ég grúfi mig yfir suður amerískar bókmenntir (sem er reyndar mjög gaman þar til maður þarf að skila ritgerð um þær). Þangað til segi ég bara...skál!

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Týróli


Stærri mynd hér.

Ok, hef ákveðið að birta mynd hér á tótlutjattinu af mér á Hrekkjavöku, því miður sést búningurinn illa, ég var til dæmis í hnébuxum, hnésokkum og með kúabjöllu um hálsinn. Myndin hefði getað verið tekin af mér hvenær sem er, er svo oft með svona týrólahatt. Eða ekki.

laugardagur, nóvember 06, 2004

Hello...

Það er Þórhildur Birgisdóttir sem skrifar frá Macheimum. Kom í gærkvöldi frá Lundúnum þar sem ég rústaði ekki Toefl prófinu. Tók það alla vega og fannst þetta bara vera leiðinlegt próf og ganga illa og var svo fúl í því að ég fór næstum því að grenja (eftir að hafa klúðrað spurningu). Ég er kannski enginn enskusnillingur en ég er ekki svona léleg. Fyrir utan prófið voru dagar mínir í London yndislegir og er það aðallega gestrisni Aldísar og Védísar að þakka. Systurnar hafa verið í miklu uppáhaldi hjá mér í mörg ár og var löngukominn tími á okkur Aldísi að kjafta, slúðra og fara á trúnó. Takk fyrir mig! Mér fannst frekar margt gerast á þessum þremur dögum sem ég var í burtu, eldgos í Vatnajökli, Arafat eitthvað sloj, kosningar í USA, og borgarstjórinn að prakkarast. Skil ekki þennan heim stundum, þess vegna ætla ég bara að fara að horfa á sjónvarpið og reyna að ignora þetta skilningsleysi mitt örlítið lengur.

laugardagur, október 30, 2004

Vér fögnum...

...hér á tótlutjattinu þar sem tótlan hefur nú eignast sína fyrstu kjöltutölvu, (eða mun eignast örlítið í henni mánaðarlega í tvö ár eða svo, ehhh). Jamms, stúlkan er komin með eitt stykki powerbook í kjöltuna sem mun ylja henni í fjarveru Gumma:) Mágurinn á þakkir skilið fyrir ráðleggingar sínar og mikla aðstoð en maðurinn hefur endalausa þolinmæði til að sýna mér og kenna mér á gripinn. Ég er sem sagt orðin makkari. Aðrar fréttir eru þær að ég fór á HrekkjaVÖKU í gær og lýsi hér með yfir frati á afsakanir fólks sem mætir ekki í búning á svona samkomur. Til að gera langa sögu styttri þá hafði ég þónokkuð fyrir því að finna búning í gær og það tókst á endanum með aðstoð Óla bróður. Mér finnst ástæðulaust til að vera eitthvað að draga úr sannleikanum og vera með hógværð...ég var óóógeððslega flott (finnst mér). Ég var Týróli, með kúabjöllu um hálsinn og alles en þegar ég mætti í partí til Heiðdísar var ENGINN í galla! Hversu frábært getur það verið? Jú, Boggi snillingur var reyndar með frábæra "Bush" grímu (very scary). Það var mjög gaman á Pravda og ég drakk frían Vökubjór og dansaði fullt. Reyndi að halda mig nálægt Bryndísi sem var líka í búning, var samt spurð einu sinni hvort ég hefði á Októberfesti:)

fimmtudagur, október 28, 2004

pæling:

er of snemmt að fara að gera óskalista fyrir jólin núna?

gaman...

ég mæli með blaðsíðu 44 og 45 í mogganum í dag, þar sjáið þið hvað það er gaman að vera í nylon. platan kemur út í dag...og bókin fyrir jólin. gefið mér heldur nylonsokka en þessa bók! þessi hljónst er hálfsárs og það er að koma út bók! Ég myndi nú ekki líkja þeirra vinsældum við Bítlaæðið...en það má alltaf reyna að græða:)

miðvikudagur, október 27, 2004

það er svo leiðinlegt að...

setja lokið á hraðsuðuketilinn! fyndið hvað svona ómerkileg atriði geta farið í taugarnar á manni. Svo er líka leiðinlegt að ganga frá eftir matinn, en gaman að elda. Frekar oft sem eitthvað leiðinlegt fylgir einhverju skemmtilegu, til dæmis, gaman að ferðast en leiðinlegt að pakka og sitja í flugvél! æææ, þetta er frekar skrýtnar pælingar. Mér finnst samt allir svo duglegir að ferðast núna, til dæmis hefur mín nánasta fjölskylda bara núna í október náð að fara til USA, Stokkhólms, Spánar, Portúgal, Kýpur og London núna í október (ekki öll á alla staði og fjölskyldan er stór). Því miður er það ekki af því að við unnum öll í lottói, þetta meira hittist bara svona á. Dögg vinkona er víst að fara til Kraká í Póllandi á morgun, það er kúl! Það er nefnilega ekkert kúl lengur við að fara til Kaupmannahafnar eða London. Mitt næsta ferðalag verður til London einmitt, í næstu viku en ég reyndar neyðist til að fara í þetta skiptið því ég er að fara í próf þar. Aldís mín ætlar að hýsa mig þar og er löngukominn tími á þá endurfundi. Spurning um að gera súkkulaðibúning, hlusta á Blur, og gera símaat í Damon Albarn, þá er þetta bara alveg eins og i den, hehehe:)

mánudagur, október 25, 2004

tack tack

...fyrir ábendingar um betra tótlutjatt. Ég mun fara í þessar breytingar um leið og tími gefst. En var ég ekki eitthvað að tala um tómstundir hérna um daginn? Ég ákvað að gera eitthvað í hlutunum, ekki gera ekki neitt! Í kvöld mun ég ásamt Eddu bróðurdóttur minni byrja á flamenco námskeiði í Kramhúsinu, vííí:)

mánudagur, október 18, 2004

blogglúkk

ok, nokkrar pælingar í sambandi við lúkkið á blogginu mínu. Ég hef reyndar engann tíma (né kunnáttu) til að standa í svona andlitslyftingu á síðunni minni enda er ég með mann í því djobbi. Sá hefur reyndar í nógu að snúast sjálfur en hann getur kannski lappað örlítið upp á hana þegar honum gefst tóm til þess. Mig langar samt að fá smá álit frá ykkur, til dæmis um litaval og hvort ég eigi að skipta út myndinni (eða hafa mynd yfir höfuð). Ég er meira að segja ekkert mikið fyrir það að troða myndum af sjálfri mér á síðuna mína en kannski allt í lagi að hafa eina mynd. Ég til dæmis skoða oft síður hjá fólki sem ég þekki ekki neitt en myndi kannski átta mig á ef það væri mynd af þeim á forsíðunni, hvað þá nafnið þeirra! jæja, en hvað segja lesendur, ég veit að það kíkja nokkrir á tótlutjattið, látið heyra í ykkur, og skrifið nafnið undir kommentin ef þið eruð ekki sjálf með blogger:)

sunnudagur, október 17, 2004

Prinsinn floginn

Þá er maður laus við kærastann aftur, skutlaði honum á flugvöllinn í dag og er þegar farin að sakna hans. Þetta er reyndar í góðu lagi því ég er að passa Birgi frænda þessa vikuna og hef nóg að gera í skólanum og öllu þessu. Þarf reyndar að setja í fluggírinn í skólanum núna. Ég virðist eiga erfitt með að einbeita mér að honum þessa dagana. Mér finnst bara svo erfitt þegar dagarnir eru svona slitnir, þ.e. að setjast við lesturinn þegar ég þarf að mæta hér og þar klukkan hitt og þetta. Efst á óskalistanum mínum er heil vika með engin plön, nema þá helst fyrst á morgnanna eða seinnipartinn svo ég geti bara gleymt mér inná safni lengi í einu. Nei nú lýg ég, efst á óskalistanum er að vinna í lottó en svo væri hitt fínt....bara ekki jafnfínt og að vinna í lottó.

föstudagur, október 15, 2004

öppdeit

Úff, það var löngukominn tími til að taka aðeins til í linkalistanum. Það er sem sagt eitthvað aðeins meira að marka þessa linka mína núna, en ég er alls ekki búin. Þarf að lappa eitthvað upp á lúkkið á síðunni líka. Bleikur er engann veginn "ég" og hefur aldrei verið, þannig að litnum verður breitt. Þeir sem höfðu ekki bloggað síðan 2003 (til dæmis) fengu að fjúka... líka einhver sem ég þekkti ekkert. Mig vantar samt fleira fólk undir "MR"... látið vita af ykkur! Sumir eru samt í MR, og líka í Freyjum (bekkjarsystur úr MR) og þá jafnvel líka Clueless (löng saga) og aðrar eru Freyjur og Vaka (og ef þeir eru í Freyjunum eru þær líka úr MR). Heiðdís Halla hávaðabjalla er nú komin með lönguverðskuldaðan link á sig undir "vinir" en hún er að sjálfsögðu Vökusnót einnig. Annars er ég bara að passa núna (svona eins og stundum áður) en annað kvöld langar mig að fá mér sjúss með Gumma, þarf að díla smá við nokkra aðila áður. Auf Wiedersehen.

miðvikudagur, október 13, 2004

Tennisromantik

Bonjour, í gær fór ég í bíó með Bibba frænda og viðhenginu á "Wimbledon". Ég hef bara aldrei á ævinni horft jafnmikið á tennis, samanlagt. Þessi mynd er alltílæ. Á sín móment og sæti aðalleikarinn, Paul Bettany er svona mesti plúsinn (enda frekar krúttlegur karakter). Kirsten Dunst hef ég aldrei fílað og ætla ekki að byrja á því núna, ótrúlega tilgerðarleg og leiðinleg leikkona með leiðinlegan talanda. Ég myndi lýsa Juliu Stiles nákvæmlega eins, skil alls ekki hvað þessar tvær leikkonur eru að gera í hópi frægustu leikara, jeminn eini. Kirsten Dunst var jafnleiðinleg og í Spiderman, leikur reyndar voða svipað. Bara fá J Lo í þetta, hehe:) eða bara einhverja óþekkta, hvernig væri það. Já myndin, ég gleymdi mér, hún var sem sagt svona ágætis afþreying, aðeins of langdregnar tennissenur (nei ég meina alltof langar) og þunnur söguþráður. Ekki búast við einhverju Love actually, Notting Hill dæmi. ok, má ekki vera að þessu, ciao.

sunnudagur, október 10, 2004

Dömubindi

Fyrir helgi fékk ég skemmtilegt bréf frá "Always-umboðinu" eða hvað það heitir. Þeir sendu mér eitthvað svona kynningarbréf um frelsi og dömubindi og að ég gæti unnið ferð til útlanda eitthvað bla bla, leikur man ekki og alalvega þá var eitt stykki af nýjasta dömubindinu frá þeim (alway ultra super plus +++freedom, ...?) í umslaginu. Við hliðiná því stóð eitthvað á þessa leið: "ekki til notkunar. Sýniseintak." Þannig að ég skoðaði það og klappaði því aðeins. Mér fannst þetta bara svo fyndið. Annars þakka ég allar þessar hugmyndir um tómstundarfag. Inga stakk upp á boccia, held ég geymi það til elliáranna. Hildur stakk upp á jóga og skák, nenni ekki að tefla en líst betur á jóga. Anna Björk stakk upp á brids. Nei takk, það er nóg að þurfa að spila annað slagið við þig. Heiðdís Halla stakk upp á hamborgaraáti. Mér líst ágætlega á það enda stunduðum við Heiðdís það áhugamál á föstudaginn. Reyndar langaði mig alltaf að læra stepp þegar ég ar lítil en það var hvergi kennt. Og þess má geta að ég hef endurheimt litla prinsinn minn frá Danaveldi og hef þegar dregið hann í eina heimsókn, á flamenco sýningu í Salnum (ÆÐI) og út að borða og erum á leiðinni á Kattasýninguna. KOMA SVO TÓTLA!

miðvikudagur, október 06, 2004

Tómstundir

Mig vantar eitthvað svona tómstundarfag (fyrir utan að læra spænsku í háskólanum sem sumir kalla tómstundir...hrmhppp, nei og ég er ekki bitur). Ég hef reyndar meira en nóg að gera en þegar ég var yngri var ég alltaf í allskonar einhverju; skíði, skák, leiklist, píanó... Þannig að ég var að spá hvort maður ætti að byrja aftur. Ég trúi enn að ég búi yfir einhverjum einstökum hæfileikum á einhverju sviði en ég á bara enn eftir að komast að því hvað það er. Ætti ég að skrá mig í ballet?

mánudagur, október 04, 2004

Haustið

Nú er komið haust og það fer ekkert á milli mála. Veðrið er ömurlegt, allir komnir á skrilljón í skólanum, Alþingi var sett fyrir helgi (með tilheyrandi kvabbi) og svo er veðrið alveg öööömurlegt ef ég hef ekki nefnt það áður. Þetta er samt allt í besta lagi þar sem haustinu fylgja líka svo margir góðir hlutir... til dæmis var Októberfest á föstudaginn sem vakti mikla lukku (ég hélt þó til í húsakynnum Palla verðandi flugþjóns í miðausturlöndum...) og svo er svo mikið um að vera í félagslífinu, og svo fer mútta eða systa vonandi að taka slátur og svo á ég svo óóógeðslega flottar og þægilegar buxur sem ég keypti í Lissabon. Ég er nefnilega mjög háð því að vera í afar þægilegum fötum sem ég finn helst ekki fyrir og kýs þá helst bara bikiní í heitu landi, maður finnur nú ekki mikið fyrir bikiníinu. En það er víst ekki hægt á Íslandi þannig að ég freistast ansi oft til að fara í gömlum joggingfötum í skólann, helst bara málningargallanum. En eftir að ég fékk mér flottu buxurnar er ég bæði frjáls og flott. Dóhhh, þetta er ömurlegt blogg, ég ætla að halda áfram að gera eitthvað gáfulegra.

þriðjudagur, september 28, 2004

Heim aftur

Dvölin í Lissabon var eins og best verður á kosið. Ég var reyndar rétt fyrir utan borgina hjá áðurnefndri portúgalskri vinkonu, Marilúciu. Hana hafði ég ekki séð í fjögur ár og hún notar ekki tölvupóst þannig að samskiptin hafa ekki verið mikil. Við unnum saman á Caves do Vinho do Porto í einungis einn mánuð haustið 2000 og sendum hvor annarri nokkur handskrifuð bréf eftir það. Þegar við hittumst svo á lestarstöðinni fyrir viku síðan var eins og við hefðum hist í gær (passar ekki alveg...). Hún býr með systur sinni og systkinabörnum og er mest með systrum sínum og litlu krökkunum og eiginlega allir í fjölskyldunni heita Marilúcía eða Marisol, eða eitthvað annað sem byrjar á Mar og fjölskyldan er stór. Ég heimsótti til dæmis "aldingarð Evrópu", Sintra með Marilúcíu, Fernandinho (kærasta hennar) og Marisol (systurdóttur) en Marisol (systir Marilúcíu) og Marilúcia yngri (dóttir Marisol systur Marilúciu) ákváðu að vera eftir hjá Marieitthvað sem ég man ekki (eldri systur Marilúcíu og Marisol). Mikið stuð, mikið gaman. Síðastliðinn föstudag átti ég svo flug tilbaka til Köben sem ég missti næstum því af því Marilúcía og Fernandinho (sem skutluðu mér á völlinn) voru svo utan við sig og með músíkina í botni og þar fram eftir götunum að þau gleymdu að beygja út af hraðbrautinni á flugvöllinn. Ég hef aldrei áður tjekkað mig inn mínútu áður en það er lokað fyrir tjekk inn og ætla helst ekki að gera það aftur! Að öðru leiti var flugið ánægjulegt og náttúrulega fínt að hitta lilla litla í Kaupmannahöfn. Við Gummi Hlír fórum meira að segja með Björk og Ingimundi til Svíþjóðar á laugardaginn (sorry Elsa og Sigga) að heimsækja Ingu Rut og Einar í Lundi. Þau hafa komið sér vel fyrir þar og það var voða kósí að hittast öll svona þarna. Og (þó það megi aldrei byrja setningar á "og") á sunnudaginn varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að hafa Bryndísi mína sem flugfreyju og þjónaði hún mér ákaflega vel:) og ekki nóg með það heldur hafði ég einnig góðan félagsskap því Sæunn vinkona Bjarkar var í sama flugi og við gátum kjaftað ótrúlega mikið. Steingrímur Dagur hafði breyst ótrúlega á þessum tveimur vikum enda orðinn sköllóttur af því að bíða eftir uppáhaldsfrænskunni. Soss soss soss. Eitthvað slúður annars?

mánudagur, september 20, 2004

Lisboa, here I come

Aetli stelpan se ekki ad verda buin ad fa nóg af Albufeira i bili. Her hafa snillar eins og Riikka og Pedro (her portuguese hubby) og Lara og Tórdís verid yndislegur félagsskapur sídan á fimmtudag og e´g hef haft tad svooo gott, en á morgun verdur stefnan tekin á Lissabon en ég hef ekki enn nád í Marilúciu sem býr tar, vona ád tad takist i kvold. Stelpan er ordin smá útitekin, vard eldraud á nebbanum sem er farinn ad flagna! Í gaer aetludum vid Riikka og Pedro á eina strond hérna adeins frá. Tókum taxa tangad klukkan eitt um nóttina og hofdum nesti (ólífur, osta og frutas) en planid var ad fara á lítinn bar tar og sofa svo i svefnpoka á strondinni, tannig ad vid klaeddum okkur bara svaka vel. Tegar tangad var komid var barinn lokadur og gedveikt dimmt alls stadar. Vid vofrudum tarna um i sma tima i leit ad aevintyrum en Riikka meiddi sig i tanum tegar vid turftum ad príla í hálfbyggdum húsagrunnum (eda eitthvad svoleidis) og eg var hraedd um ad varúlfar myndu éta okkur tarna in middle of nowhere. Svo vid játudum okkur sigrud um klukkan 2 og tókum taxa heim, hehehe. Tetta vard bara pínu fyndid. ok, skrifa kannski frá Lisboa, xau!

laugardagur, september 18, 2004

Olà

Já var ég ekki eitthvad ad tala um ferdalog? stutt rapport hérna; vann flugmida í hálfgerdu happdraetti, flaug til Kaupmannahafnar i heimsókn til loverboysins míns, svo fór ég áfram til Sevilla (ºi gegnum Faro reyndar) ºi stutt stopp til Elínar og Ángels og er nú í helgarstoppi í Albufeira ad rannsaka bjór og strandmenningu hér og aetla svo til Lisboa i svona 3 daga til Marilúciu sem er portúgolsk pía. Veit samt ekki hvort eg verdi tar á hosteli. Tadan fer eg svo til Koben og nae ad hitta hitta Gumma Hlíinn minn aftur og svo til Islandia. Muito bem! Nenni ekki ad eyda timanum a netkaffi....xau!

föstudagur, september 03, 2004

Vagabunda

Hversu lengi tollir maður á landinu í einu? Ef maður SÉ svo heppin að hafa unnið flugmiða til Evrópu í gegnum Kaupmannahöfn þá náttúrulega drífur maður sig í smá ferðalag um leið og kennsla hefst. Eða þannig sko. Sum sé, ég er full tilhlökkunar að byrja í skólanum en verð víst að nota þennan frímiða minn nú í haust og ætla að skella mér næstu helgi til Kaupmannahafnar. Þar verður stefnan tekin á tívolí (víííí) með Gumma Hlí en svo ætla ég að fara eitthvað lengra í smá ferðalag, hef ekki alveg ákveðið hvert enn, er að athuga með flug og slíkt. Suður Spánn og Portúgal freista þó alltaf enda er stelpan með fría gistingu á nokkrum sófum á þeim slóðum. Nú ehhh, þetta verður áreiðanlega hin huggulegasta ferð enda ætla ég að stoppa yfir helgi í Kaupmannahöfn á bakaleiðinni og knúsa kærastann enda verður tívolíið komið í haustfrí (frá og með 19.sept). Tívolípílagríminn hún systir mín verður að bíta í það súra epli að komast ekki oftar í rússíbanann þetta árið, sorry Anna Björk mín, ég skal taka nokkrar bunur fyrir þig, hehehe:) Hvað er annars að frétta? Allir búnir að fá sér lán (svona eins og að fá sér pylsu nú á dögum) og kaupa íbúð...bíl...hest...?

sunnudagur, ágúst 29, 2004

Grasekkjan

Gummi Hlír er floginn til Kaupmannahafnar en þar ætlar drengurinn að sötra bjór og dúlla sér í masterskúrsum í verkfræði fram á áramótum. Flökkukindinni Tótlu líst að sjálfsögðu alltaf vel á svona ævintýraferðir fólks þrátt fyrir að vera örlítið súr yfir að verða grasekkja næstu mánuði. Reyndar finnst mér þetta allt í góðu lagi enda hef ég nú afsökun til að fara til Kaupmannahafnar og svo herðir þetta bara strákinn:) talandi um stráka, hinn ungi systursonur minn sem ég hef farið svo fögrum orðum um hér á síðunni var skírður síðustu helgi og heitir nú Steingrímur Dagur. Hann er jafnfallegur og síðast þegar ég skrifaði um hann hérna:)


Steingrímur Dagur Stefánsson

föstudagur, ágúst 13, 2004

I love Rvk

Þetta veður er alveg ótrúlegt, en þó ekki jafnótrúlegt og fólkið sem hér býr. Við erum dásamleg! Hef skemmt mér vel í vinnunni síðustu daga við að fylgjast með mannlífinu í bænum sem verður mun líflegra þegar veðrið leikur svona við það. Það held ég að margur hafi hringt sig inn veikan í gær og fyrradag og notið blíðunnar, hehehe. Kæruleysislegt yfirbragð hefur líka einkennt borgarbúa sem hópast saman á öllum grasblettum bæjarins og sötra bjór í blíðunni en skilja svo allt ruslið eftir sig. Aðkoman á Austurvelli var víst til skammar eftir að stærstu hóparnir höfðu fært sig inn á barina í fyrrakvöld en það er þó ekki einungis við grasgestina að sakast því ruslatunnurnar voru allar orðnar troðfullar um miðjan dag. Egils eða einhverjir komu að gefa gosflöskur(sem ekki var svo pláss fyrir í fröken Ruslafötu) og allir hvort eð er orðnir svo slompaðir af bjórdrykkju og dasaðir af sólsting að þeir höfðu ekki rænu á að leita að ruslafötu. Túristarnir og aðrir gestir bæjarins sem vildu skoða ljósmyndasýninguna áttu fullt í fangi með að sviga fram hjá bjórdollum og öðru drasli. Ég skil ekki alveg af hverju Borgin bregst ekki við á svona degi og sendir eins og einn flokk úr Vinnuskólanum með svarta ruslapoka í miðbæinn. Fussumsvei. Ég vildi samt óska að það kæmu fleiri svona dagar á sumrin. Reykjavíkurmeyjar virðast allar hafa náð að finna Benidorm dressin sín (föt sem þær nota í útlöndum, helst á útlenskum ströndum) upp á háalofti og er einkennisbúningur kvenkyns borgarbúa (sem og kvenkyns "dreifara" býst ég við) minipils, toppur og sandalar og er þetta allt saman í pæjulegra mótinu. Ég er í fríi í dag og ætla að reyna að finna eitthvað sæmilega pæjó til að vera í stíl við hinar skvísurnar:) Góða helgi.

mánudagur, ágúst 02, 2004

Mamma og pabbi...

...áttu 40 ára brúðkaupsafmæli í gær, 1.ágúst.

Mamma og pabbi – 1. ágúst 2004
Þau verða krúttlegra par með hverju árinu og í gær komum við systkinin, makar og barnabörnin "gömlu" hjónunum á óvart þegar við héldum veislu þeim til heiðurs heima hjá Steina bróður. Við vorum að sjálfsögðu öll stödd á Akureyri yfir versló og var bara alveg svakalega gaman. Hápunktur helgarinnar var þó áðurnefnt grillteiti en gaman er að geta þess að þar borðaði ég besta lambakjöt sem ég hef smakkað og drekkti mér loks (tvisvar) í besta desert ever a lá Stebbi mágur og co. Einhvern tíma þegar ég verð rík ætla ég að fylla sundlaug af volgri marssúkkulaðisósu (jafnvel smá appelsínusúkkulaði með) og stökkva nakin út í hana. Á bakkanum verða ótal ístegundir sem ég get svo borðað með sósunni. Grrrrr.....

mánudagur, júlí 26, 2004

Beibís...

Freyr og Freyja hafa verið eitthvað á ferðinni því ákaflega mikil frjósemi virðist liggja í loftinu.  Ég nenni þó ekki að telja upp allar þær óléttur og fæðingar sem ég hef frétt af hér á síðunni en vil óska öllu þessu lánsama fólki til hamingju.  Nýjasti fjölskyldumeðlimurinn, Stubbur Stefánsson, sonur Önnu Bjarkar sætu systur er óneitanlega allra vinsælasta ungbarnið hjá mér og fer ég reglulega til hans til að dást að honum.  Hann er fullkominn í alla staði, enda ekki aðeins óvenju fagur heldur líka mjög hæfileikaríkur og duglegur.  Er ég orðin hátíðleg og væmin?  Æ mér er alveg sama því hann er fullkominn, en það finnst mér reyndar líka um hin systkinabörnin mín:)  Erla og Jónas eru líka að gera góða hluti því þau eignuðust litla snúllu 15.júlí sem ég hef ekki séð enn (ætla reyndar að kíkja á hana við fyrsta tækifæri) en orðið á götunni er að hún sé algjör krútta, löng og grönn.  Hún þarf að venjast ágengni, forvitni og áhuga vinkvenna móður sinnar enda er hún fyrsta barnið í hópinn, tíhíhí:)  held ég skutli einum pakka í mömmu hennar á morgun:) ciao....

miðvikudagur, júlí 21, 2004

aftur um Nylon

já, nú rataði ein nælonstúlkan á forsíðu DV í dag af því að "hún féll í öngvit á tónleikum á Akureryi þegar þær höfðu sungið tvö lög"...eða eitthvað svoleiðis.  Nú vil ég alls ekki gera lítið úr veikindum telpunnar og óska henni alls hins besta en ég gat ekki á mér setið og spurði kassastrákinn í 10/11 (þar sem ég fékk að fletta blaðinu) hvor þær kynnu nokkuð meira en tvö lög hvort eð er...  fliss fliss.  Ég veit ekki hvað þær gera á "tónleikum" eftir að hafa raulað við trommuheilaúgáfuna af lög únga fólsins og hitt lagið.  En þær hljóta að redda þessu alveg eins og Atomic Kitten getur líka reddað sér með ótal trommuheilaendurútgáfum á lögum sem voru góð áður, eins og þarna Blondie laginu.  Djííí ég er ennþá sár út í Atmoic Kitten fyrir illa meðferð á tónlist.  En þrátt fyrir allt þetta er ég bara nokkuð hress, Sandran mín er mætt í stutt stopp á Frón og við þurfum að vinna upp margra mánaða gossipleysi....múahahahaha....

þriðjudagur, júlí 20, 2004

Sumarið er komið...

...sungu Stuðmenn og ég held ég taki bara undir.  Mér finnst allir svo fallega freknóttir og rauðnefja eftir þessa dásamlegu helgi, svei mér þá.  Mér tókst að sofa eina nótt í tjaldi (á Klaustri) og svaf bara alveg sæmilega illa.  Það verður seint sagt að ég elski að sofa í tjaldi en mér finnst samet alveg gaman að fara í útilegur og kósí að vera í tjaldi.  Það er bara þetta með svefninn.  Ég og viðhengið mitt keyrðum svo einhverja Fjallabaksleið og hann fékk þar með ágæta útrás fyrir karlmennskuna.  "Réttu mér kortið kona",  "Ertu nokkuð hrædd Tótla mín?"  "Já þetta er er nú bara "soft" vegur", "ja maður hefur nú séð þá enn verri vegina", "ohhh ég hefði átt að láta þig taka mynd af mér keyra niður þessa brekku, hún var sko "hardcore"".  Já já, á meðan fékk ég útrás fyrir dömuna í mér með landakortið á lærunum og nesti á gólfinu;  "Gummi minn viltu súkkulaðikex?"  Nei ég segi svona.  Ég væri alveg til í að vera meira við stýrið næst sem verður vonandi bara eftir hálfan mánuð:)  Annars er bara fátt að frétta.  Í dag var hálfgerður mánudagslunti í mér sem lak þó smá saman af mér.  María samstarfskona gerði heiðarlega tilraun til að létta í mér lundina (og öfugt) með því að færa mér ísraleskt nammi (geri aðrir betur) sem hún hafði reyndar ekki lyst á sjálf.  Vinur hennar sendi henni fullt af svona nammi því henni finnst það svo gott og þegar hún hafði borðað sig sadda ákvað hún að gefa mér tvær tegundir sem hún borðar reyndar hvort eð er ekki sjálf.  Ég hef bitið í hornið á öðru stykkinu og minnti það mig á bragðsterkt frauðplast.  Ég veit ekki hvort það var ég eða nammistykkið sem var að klikka en ég hef lofað Maríu að smakka það aftur með opnum huga.  Hef reyndar ekki ákveðið hvenær það verður, kannski bara næst þegar ég er full.

föstudagur, júlí 09, 2004

þankagangur þórhildar

Loksins getur maður sagst hafa farið "Hálsinn". Þetta var gaman, en því miður var skyggni í mesta lagi 20 metrar eða ég veit ekki hvað þannig að ég hefði alveg eins getað verið á göngubretti og stigvél í rúma 7 tíma. Þetta var nú samt voða fínt, sérstaklega svona eftirá:) Held að mér veiti ekkert af að fara að hreyfa mig aðeins. Eftir gönguna tjölduðum við í Þórsmörk og var kvöldið hið huggulegasta en sjálf skreið ég inn í tjald í fyrra fallinu ásamt svona helmingi hópsins (bekkur Gumma). Fór samt ekki með þeim öllum í tjald. Hef svo bara verið að vinna á fullu þessa viku. María samstarfkona mín er mikill viskubrunnur og úr henni renna gullmolarnir. Til dæmis vorum við eitthvað svona að "stelputala" um daginn á rólegri vakt þegar hún sagði eitthvað á þessa leið, "nei Þórhildur mín, karlmenn eru ekkert flóknir, vinur minn sagði líka við mig um daginn að það væri ekkert erfitt að skilja hvernig karlmenn hugsa...þeir bara hugsa ekki!!!" Hef reyndar heyrt þennan áður en var samt alveg "jááááá, nú skil ég svo margt" og þá á þetta alls ekki við áðurnefndan Guðmund minn heldur bara svo marga karlmenn og hann er nú bara einn af þeim. Mér finnst ég heyra vinkonur mínar, mömmu, mágkonur, systur og bara alla nefna svipuð dæmi af svona "aulasögum" af sínum mönnum/bræðrum/sonum og þá á þetta frekar oft við, það er að þeir bara hugsa ekki en meina það samt ekki illa. ohhhh, karlmenn eru krútt:)

föstudagur, júlí 02, 2004

5vörðuháls

Þá er stelpan komin í helgarfrí og stefnan tekin á Fimmvörðuháls ásamt bekkjarfélögum Gumma, held reyndar að þetta sé meira svona bara saumakl´´ubburinn, þ.e. stelpurnar í bekknum, hehehe. ok, bis spater....

mánudagur, júní 28, 2004

Hressleiki

Fín helgi búin. Var reyndar að vinna mjög mikið en afrekaði að fara á eitt afskaplega skemmtilegt djamm og horfa á frábæra bíómynd. Djammið hófst á laugardagskvöldið hjá Haffa Vökusnáða og þar spiluðum við á spil, eða þannig sko. Þið skiljið, ekki fatapóker samt. Eftir að Bryndís fluffa mætti í fluffumúnderingunni héldum við á Hressó sem er held ég bara að taka við gamla Sportkaffi, sami fílingur (Jesus Bobby eins og Heiðdís Halla segir) en ég var svo hress að mér var alveg sama. Ég var meira að segja í svo góðu skapi að ég bauð fólki heim til mín í grill á sunnudagskvöldinu, ætlaði bara að grilla eftir vinnu (22:30). Þau voru til í það en guggnuðu svo í einhverri þynnku og afboðu sig. Jahérna, það eru ekki allir jafnduglegir ha? Ég harkaði bara af mér og var sæmileg í vinnunni frá 12 til 22. Þá grilluðum við Gúndi (eða hann réttara sagt) og horfðum á Mystic River. Ef þið hafið ekki séð þá mynd megiði skammast ykkar, eða bara taka hana næst. Engar tæknibrellur, ekki einu sinni brjóst og bossar, bara flott saga og ótrúlegur leikur. takk í bili

fimmtudagur, júní 24, 2004

Vei

Vér fögnum sigri Portúgala þó ég reyndar vorkenni tjöllunum því þeir voru duglegir strákarnir. Ég mun aldrei leggja fyrir mig heimasíðugerð þar sem ég næ ekki þessu Audrey Hepburn gríni hérna til hliðar ekki út en tókst hins vegar rétt í þessu að henda út myndinni af mér. Þetta var fín mynd. Of pirruð til að skrifa meira.

England vs. Portúgal

Ég ætla bara rétt að vona að lesendur þessarar síðu styðji rétt lið í kvöld. PORTÚGAL!!!

miðvikudagur, júní 23, 2004

Grill

Týpískt, besta veður í Reykjvík í háa herrans tíð og þá er ég að vinna frá morgni til kvölds...svo er ég í fríi í tvo daga og þá byrjar að rigna! Reyndar finnst mér bara frekar huggulegt veður. Svo huggulegt að ég á von á gestum í grill. Ég held ég geti fullyrt hér með að ég elska grill, það er svo íslenskt að grilla á sumrin. Verði mér að góðu.

sunnudagur, júní 20, 2004

Ekki örvænta

Er aðeins svona að fikta í lúkkinu á síðunni þannig að eins og er eru linkarnir horfnir. Þeir fóru þó ekki langt en ég þarf smá aðstoð við að laga þetta og mun það gerast "skömmu seinna". Eru ekki annars bara allir í stuði? Æ nei, commentin eru líka horfin þannig að ég ætla bara að ganga út frá því að þið séuð í feyknarstuði. Var það kannski feiknarstuð? Í gær útskrifaðist litli prinsinn minn með bé ess í verkfræði:) Ég óska honum sem og öðrum kandídötum til hamingju með þetta allt saman. Við héldum upp á daginn þangað til langt var liðið á næsta dag. Eins finnst mér ástæða til að fagna því að Portúgal komst áfram í EM í kvöld en ég er samt pínu svekkt að Spánverjarnir séu dottnir út....joder! Það verður víst ekki á allt kosið. ókei...

fimmtudagur, júní 17, 2004

Kennslu lokið

Jæja, haldiði að stelpan sé ekki bara komin heim á Klakann. Get ekki annað sagt en að ég sé mjög ánægð með dvölina þarna úti og held ég hafi verið helvíti góður kennari. Hvað á ég að gera næst? Hversu lengi hangi ég nú hér á Fróni? heheh, vantar kannski stundakennara í Angóla? Ég get þetta alla vega, hmmm, svona nokkurn veginn. En sem sagt, ég er komin heim og bara mjög ánæð með það. Búin að knúsa mannskapinn, þar fara fremstir í flokki litli nýi frændinn minn sem er sá snúðslegi í bænum og svo hann Gumma minn sem er líka fínn:)

mánudagur, júní 14, 2004

Frú Stella...

Halló. Veit ekki alveg hvar ég á ad byrja núna, tíminn lídur svo hratt og svo margt búid ad gerast. Sídasta midvikudag ákvad ég ad fara enn einu sinni til Albufeira. Í rútunni tangad voru med mér saenskar fótboltabullur. Ég sat rétt fyrir framan tá (aftarlega í rútunni) og hlustadi á vasadiskó til ad forda mér frá kjánahrollnum sem ég fékk vid ad hlusta á tá. Teir toludu mjog hátt og vid alla tarna aftast í rútunni. "Yes I think Sweden has a very good team this year and actually some people say we might do veeery well you know"..."yes it´s very nice to come from Sweden because when you are travelling nobody understands you..." já já tú heldur tad karlinn minn, prófadu ad tala íslensku tá! teir voru ógedslega hallaerislegir med víkingahjálma og sotrudu vodka, og hljómudu eins og Thule auglýsing, "Ísland best í heimi" nema bara um Svítjód. Af hverju turfa Svíar stundum ad vera svona hrikalega montnir og leidinlegir. eftir tveggja tíma keyrslu fengu teir ad "leigja" gettóblaster af spaenskum krokkum í rútunni. Teir fengu smá hjálp frá mér vid ad tjá sig og voru mjog hissa yfir ad ég vaeri ekki spaensk. Mér rétt svo tókst ad stoppa tá af tega r teir voru farnir ad spyrja Spánverjana "so how do you say in spanish "I want to fuck you"". Teir spiludu fótboltalog, Football is coming home og Vi er rode, og tá haetti ég nú bara ad láta mig sokkva í saetid og hló eins og adrir fartegar ad tessum fuglum. Sá olvadasti turfti náttúrulega ad fara á trúnó vid mig (og vid toludum saensku/norsku, geri adrir betur eftir 3 ´mánudi talandi ensku og spaensku). Madurinn var nákvaemlega eins og Salómon í Stellu í orlofi, herre gud!. Hann romsadi einhverju óskiljandi út úr sér í byrjun vid mig og sagdi svo; "that was "I want to fuck you" in arabic, german, finish, croatian...." WOW, charming. Honum fannst hann vera gasalega kúltiveradur og altjódlegur. Grey drengurinn, leggur mikid á sig vid ad laera tetta. Jaeja, nóg í bili, update um Portúgal kemur fljótlega ef tad kemur. Eda aejjj...segjum bara tad var gaman, fór í afmaeli, bordadi heimalagadan portúgalskan mat í fyrsta sinn og hafdi tad voda notarlegt tó baerinn hafi reyndar verid `frekar skrýtinn svona fullur af enskum húllígans sem brjóta allt og bramla...andsk... XAU (ciao á portúgolsku)

miðvikudagur, júní 02, 2004

Ó nei

Mér hafa borist taer fregnir frá Fróni ad tad sé búid ad stofna stúlknasveit á Skerinu og tad sé verid ad gera eitthvad fjolmidlabrjálaedi úr tví, sjónvarpstaettir og laeti. Úff...mér finnst ég vera nýfarin frá Íslandi. Og tegar ég paeli í tví ad á Íslandi búa jafnmargir og í litlu borginni minni og naersveitum er tetta fáránlegt. Ekki hef ég heyrt í stúlkunum sem kalla sig víst Nylon. Ég rakst tó á skemmtilega frétt á mbl um taer. Tetta fannst mér skemmtilegast:

"Þetta er skemmtilegur vinkill á þessu starfi okkar," segir hún. "Það er skrýtið að hafa myndavél stöðugt á bakinu, þar sem maður er með hárið í teygju og í joggingbuxum að æfa einhver dansspor en það venst."

HA? Med hárid Í TEYGJU og í JOGGINGBUXUM!!! Taktu tér tak stelpa, ekki láta íslensku tjódina sjá tig med teygju í hárinu og hvad tá í joggingbuxum! Tá ertu ljót eda eitthvad, ég veit ekki. Well, ég hef ekki heyrt í teim tannig ad ég er ekki ad gagnrýna tónlistina og ekki heldur taer sjálfar...mér finnst bara vera svona tilgerdalegur blaer yfir tessu ollu saman tar sem ég fylgist med tessu úr fjarska. Common taer eru svo mikid máladar á myndinni ad taer líta út eins og pandabirnir. Mér sýnist taer reyndar vera mjog saetar undir..skemmtileg samsetning líka, tvaer dokkhaerdar, tvaer ljóshaerdar. Hefdi samt turft ad vera ein af odrum kynthaetti, svort kannski til ad hafa tetta sanngjarnt og hofda til staerri hóps (selja meira). jamms, annars er bara 36 stiga hiti´og sól tridja daginn í rod, sem tydir ad enn tarf ég ad dúsa inni allan daginn med blaevaeng, tad er eiginlega of heitt til ad vera úti, enda enginn á gotunum, hér sofa allir eda taka siestu milli 14 og 18 amk. Over and out.

þriðjudagur, júní 01, 2004

Afsakið hlé

Elskulegur unnusti (sjá undir linkar "boyfriends") benti mér á ad ég hefdi ekki bloggad lengi. Tad gladdi Tótluna tví hún hélt ad bojfrendid kíkti aldrei á blessad bloggid. Jaeja, tad er alla vega nóg búid ad gerast sídan ég tjádi mig hér sídast. Sigrún litla Eyjólfs er komin hingad í alla vega 2 mánada sóarlandaferd. Hún er í skóla í Malaga en kom upp til Dos Hermanas tann 20.maí í húsmaedraorlof. Vid drukkum bjór (lifi Cruzcampo, húrra húrra húrra) og toludum um allt milli himins og jardar fram á nótt. Tad verdur ekki farid nánar út í umraeduefnid hér. Svo brugdum vid okkur í helgarferd til Granada (tar sem ég sá EKKI Alhambra, tíminn leid adeins of hratt). Í Granada hittum vid Heidi og tad var svakalega fínt. Heidur var stodd í Granada til ad rifja upp salsasporin og vid Sigrún solsudumst tarna med henni alla helgina tangad til ég óverdósadi á salsa um klukkan 6 á sunnudagsmorgni og vid pilludum okkur á hótelid. Tvi senjóríturnar turftum ad vinna upp margra mánada slúdurleysi og tad tók einn laugardaag og hefdum alveg getad slúdrad lengur. Seinnipart laugardags fórum vid nefnilega í smá útsýnistúr med vin Heidar sem er salsakennari eda eitthvad svoleidis og hann var í hvítum buxum og g-streng. Tad veit ég af tví ad hann sýndi mér tad...út á midri gotu...tvisvar. Saetur rass samt. Tennan sama laugardagseftirmiddag eignadist systan mín fallegasta ungbarnid á Íslandi og ég get eiginelga ekki skrifad svo mikid um tad tví tá fae ég heimtrá. Mig langar nefnilega svo mikid heim ad knúsa hann. Úff tad e fullt meira búid ad gerast en ég nenni ekki ad skrifa meira um tad í bili, segi frá Malagaferd minni í naestu faerslu. Tarf ad taka siestu. Sól, 35 stiga hiti, hofudverkur...

miðvikudagur, maí 19, 2004

Heimsókn

Gummi Hlír kom í heimsókn í sídustu viku. Tíminn leid gasalega hratt (eins og alltaf tegar atad er gaman) en vid nádum ad fara í siglingu, skemmtigard, og á nautaat (sem var mikid skemmtilegra en ég átti von á). Einnig kíktum vid á La Feria í Dos Hermanas og ad sjálfsogdu horfdum vid á Júróvisjón. Vid gáfum stig tilad byrja med en komumst svo ad tví ad stigagjofin okkar var mjog einsleit og gáfumst upp. ("shit tetta er hrikalegt lag, falleinkunn! Greyid...gefum honum samt svona 4 stig...fínn jakki til daemis") Svo fór Gummi aftur heim til Íslands á mánudag, ég skellti mér til Cádiz, tad var alltílae. Svo vard ég frekar súr tegar ég áttadi mig á tví ad hann vaeri kominn og farinn. Mér tókst samt ad bjarga skapinu í gaer, settist bara med bjór á svalirnar og setti Smashing Pumpkins á fóninn (var búin ad gleyma tví hvad Adore er frábaer diskur tannig ad tad var svona extra skemmtilegt) og las bók. Sólin skein glatt og tegar ég sit alveg í gaettinni sjá nágrannarnir mig ekki tannig ad ég gat setid á naerbrókinni sem er náttúrulega alveg frábaert. Held ég hafi samt ekki tekid neinn lit á teim stodum sem ég er venjulega í fotum til daemis brjóstahaldara. Kannski kann sá stadur bara vel vid ad vera hvítur. ok, vil í lokin nota taekifaerid og óska Tóreyju minni til hamingju med daginn! Góda skemmtun í kvold og góda skemmtun líka Vokulid í grillpartí!

mánudagur, maí 10, 2004

Nú skil ég...

Einu sinni átti ég Nivea krem í spreyformi. Fattadi ekki alveg tilganginn en kremid var gott. Nú fatta ég samt tetta med spreyid. Tad er fyrir fólk sem er thurrt á bakinu (jafnvel ad flagna) en hittir aldrei neinn tegar tad kemur úr sturtu og er ad fara ad sofa! Assgotans vesen!

laugardagur, maí 01, 2004

Malaga

Halló, ég er í Malaga, rigning og leidindi á sjálfan 1.maí hér. Ég fór ekki í 1.maí gongu en ég hef samt gengid frekar mikid í dag. Fór á Picasso safn hérna ádan. Mér finnst Picasso alveg ágaetur en samt hofdar hann einhvern vegin ekki alveg til mín en hann er svo fraegur ad ég veit ekki hvort madur megi segja svona. Ég fíla Dalí betur, en hann er ekki hér tannig ad ég er nú ekkert ad kvarta yfir félagsskap Picassos. Anyways, einhverjir spyrja nú kannski hvad ég sé ad gera í Malaga... og svarid myndi vera á tá leid ad vinkona módur minnar, hún Begga Gústafs býr í Torremolinos og ég er í heimsókn hjá henni (rétt hjá Malaga). Ég er náttúrulega eins og prinsessan á bauninni hérna, alltaf gaman ad fara´í svona heimsóknir. Sídustu helgi fór ég til Cádiz (tar skeit fuglinn á mig) og kynntist tveimur amerískum stelpum á hostelinu mínu. Var svo bara med teim. Taer voru eins amerískar og haegt er, og tegar taer toludu spaensku (med sterkum hreim) bakkadi ég yfirleitt adeins svo fólk héldi mig ekki vera eina af teim. Hehehe, ég átti sjálf erfitt med ad skilja spaenskuna teirra. Annars er bara stud í Andalúsíu, Ferían í fullum gangi, segi kannski bara betur frá tví seinna. Mig dreymir stóru systur mína naestum tví á hverri nóttu tví hún (Anna Bjork) er ólétt og ég hugsa svo mikid til hennar og sakna hennar náttúrulega mikid. Tad eina sem flaekist fyrir mér ad mig dreymir hana ýmist med litla stelpu eda lítinn strák, sem er skrýtid tar sem vid vitum kynid. Hmmm, ég aetla ad bída med ad kaupa barnafot. ok, gott í bili, best ad fá sér churros:)