föstudagur, febrúar 04, 2005

Spéhræðsla

Ég fór í sund eitt kvöldið í vikunni, og þar sem ég stóð í sturtunni og togaði sundbolinn til í allar áttir svo hann sæti rétt og hyldi það sem ber að hylja varð mér hugsað til Allyar vinkonu minnar. Hún er amerísk og kom að heimsækja mig til Íslands fyrir þremur árum. Við Vala tókum Ally að sjálfsögðu í Bláa Lónið sem henni fannst mjög spennandi....þar til kom að sturtunni. Þá varð hún pínu stressuð þegar hún stóð í búningsklefanum og horfði á eftir okkur Völu sem skokkuðum berrassaðar með sundbolinn í hendinni, inn í sturtu og þrifum okkur hátt og lágt með sápu, og náttúrulega á öllum stöðum svona eins og er bent á plakatinu með mannslíkamanum í almenningssturtuklefum. Ally afklæddist þegar við vorum komnar inn í sturtu, kom svo inn í sturtuna til okkar með handklæði utan um sig og smeygði sér inn í sturtu sem hafði sturtuhengi fyrir. Þar gat hún þvegið sér og klætt sig í sundfötin ein í friði en samt talað við okkur skvetturnar. Þeir eru svo séðir þarna í Bláa Lóninu, útlenska fólkið er ekki vant þessu. Við erum vön að hópast allsnakin í almenningsturtum þar sem við tepruskapur viðgengst ekki:) Fyndin tilhugsun hvað okkur finnst eðlilegt að standa svona berrassaður í sturtu með mörgum öðrum og skiptast á uppskriftum og ráðleggingum um sjampótegundir á meðan við þvoum "þið vitið hvað" og lögum sundbolinn og hlaupum út í laug. Bravó fyrir okkur:)

Þegar ég var ellefu ára fór ég til Mallorca með mömmu og systu. Ég fór ekki öðru vísi út í sundlaug en í ömmulegum og efnismiklum sundbol og víðum stuttermabol yfir. Spéhræðslan var rosaleg. Ég hef reyndar alltaf verið pínu spéhrædd, en það virðist skán með hverju árinu. Koma svo Tótla!

4 ummæli:

Hulda Björg sagði...

hihi.. já það er ferlega fyndin þessi sperhræðsla í þessum könum!!..

Fór einu sinni með hóp af fólki í frá Kanada í Árbæjarlaugina og þegar þær voru ,,búnar" að afklæða sig voru þær ennþá í sundbolunum.. höfðu farið í hann innanundir heima!! ..við létum þær nú vita að þetta væri ekki hægt, þær yrðu að þvo sér undir sundbolnum. Þær voru ferlega vandræðalegar þar til að þær tóku eftir því að það er einmitt ein sturta með hengi fyrir. Þar biðu þær í beinni röð og fóru ein og ein til að þvo sér.. tek fram að þær voru um 20 þannig að þetta tók dágóðann tíma!!

early sagði...

Hahahaha...já þetta er frekað skondið. Ekki nóg með að sturtast saman. Manni finnst alveg sjálfsagt að vappa um búningsklefann (í sundi og ræktinni) hálf nakinn eða jafnvel alls nakinn og bera á sig krem, greiða sér og ýmislegt áður en maður klæðir sig loksins í fötin. Ég held að við séum bara svo fegin að geta verið léttklædd, af því að veðrið hér á landi býður ekki beint upp á léttan klæðnað nema fáa daga á ári. Sjáið bara ungabörn...líður best berössuðum og bleijulaus. Ha det.

Tótla sagði...

já, þetta eru teprur upp til hópa þessi útlendingar, hehehe. ég held samt að ég hafi sofið í föðurlandi, hosum og náttserk fyrstu mánuðina með Gvendi, eða svona næstum því:) en mér finnst ógeðslegt þegar túristarnir ætla bara beint út í laug, án þess að fara í góða sturtu fyrst. ojjjj

elisabet sagði...

Leiðinlegt að hafa ekki komist í kvöld í óvænta kveðjupartýið, hefur pottþétt verið mjög gaman!
Góða ferð út og gangi ykkur rosalega vel :)
Beta