sunnudagur, ágúst 29, 2004

Grasekkjan

Gummi Hlír er floginn til Kaupmannahafnar en þar ætlar drengurinn að sötra bjór og dúlla sér í masterskúrsum í verkfræði fram á áramótum. Flökkukindinni Tótlu líst að sjálfsögðu alltaf vel á svona ævintýraferðir fólks þrátt fyrir að vera örlítið súr yfir að verða grasekkja næstu mánuði. Reyndar finnst mér þetta allt í góðu lagi enda hef ég nú afsökun til að fara til Kaupmannahafnar og svo herðir þetta bara strákinn:) talandi um stráka, hinn ungi systursonur minn sem ég hef farið svo fögrum orðum um hér á síðunni var skírður síðustu helgi og heitir nú Steingrímur Dagur. Hann er jafnfallegur og síðast þegar ég skrifaði um hann hérna:)


Steingrímur Dagur Stefánsson

föstudagur, ágúst 13, 2004

I love Rvk

Þetta veður er alveg ótrúlegt, en þó ekki jafnótrúlegt og fólkið sem hér býr. Við erum dásamleg! Hef skemmt mér vel í vinnunni síðustu daga við að fylgjast með mannlífinu í bænum sem verður mun líflegra þegar veðrið leikur svona við það. Það held ég að margur hafi hringt sig inn veikan í gær og fyrradag og notið blíðunnar, hehehe. Kæruleysislegt yfirbragð hefur líka einkennt borgarbúa sem hópast saman á öllum grasblettum bæjarins og sötra bjór í blíðunni en skilja svo allt ruslið eftir sig. Aðkoman á Austurvelli var víst til skammar eftir að stærstu hóparnir höfðu fært sig inn á barina í fyrrakvöld en það er þó ekki einungis við grasgestina að sakast því ruslatunnurnar voru allar orðnar troðfullar um miðjan dag. Egils eða einhverjir komu að gefa gosflöskur(sem ekki var svo pláss fyrir í fröken Ruslafötu) og allir hvort eð er orðnir svo slompaðir af bjórdrykkju og dasaðir af sólsting að þeir höfðu ekki rænu á að leita að ruslafötu. Túristarnir og aðrir gestir bæjarins sem vildu skoða ljósmyndasýninguna áttu fullt í fangi með að sviga fram hjá bjórdollum og öðru drasli. Ég skil ekki alveg af hverju Borgin bregst ekki við á svona degi og sendir eins og einn flokk úr Vinnuskólanum með svarta ruslapoka í miðbæinn. Fussumsvei. Ég vildi samt óska að það kæmu fleiri svona dagar á sumrin. Reykjavíkurmeyjar virðast allar hafa náð að finna Benidorm dressin sín (föt sem þær nota í útlöndum, helst á útlenskum ströndum) upp á háalofti og er einkennisbúningur kvenkyns borgarbúa (sem og kvenkyns "dreifara" býst ég við) minipils, toppur og sandalar og er þetta allt saman í pæjulegra mótinu. Ég er í fríi í dag og ætla að reyna að finna eitthvað sæmilega pæjó til að vera í stíl við hinar skvísurnar:) Góða helgi.

mánudagur, ágúst 02, 2004

Mamma og pabbi...

...áttu 40 ára brúðkaupsafmæli í gær, 1.ágúst.

Mamma og pabbi – 1. ágúst 2004
Þau verða krúttlegra par með hverju árinu og í gær komum við systkinin, makar og barnabörnin "gömlu" hjónunum á óvart þegar við héldum veislu þeim til heiðurs heima hjá Steina bróður. Við vorum að sjálfsögðu öll stödd á Akureyri yfir versló og var bara alveg svakalega gaman. Hápunktur helgarinnar var þó áðurnefnt grillteiti en gaman er að geta þess að þar borðaði ég besta lambakjöt sem ég hef smakkað og drekkti mér loks (tvisvar) í besta desert ever a lá Stebbi mágur og co. Einhvern tíma þegar ég verð rík ætla ég að fylla sundlaug af volgri marssúkkulaðisósu (jafnvel smá appelsínusúkkulaði með) og stökkva nakin út í hana. Á bakkanum verða ótal ístegundir sem ég get svo borðað með sósunni. Grrrrr.....