mánudagur, janúar 31, 2005

Tannsi (part 2)

Var að koma frá tannsa. Er ekki sú hamingjusamasta núna enda var verið að gera við skemmd á milli framtannanna. Það er ekki þægilegt. Ég reyndi að hugsa um Steingrím, yngsta "barnabarnið" mitt þegar mestu lætin voru, en það linaði sársaukan lítið, dreifði þó huganum:)

laugardagur, janúar 29, 2005

Það styttist...

...í "útförina" eins og Ari Vökusnáði orðaði það svo skemmtilega þegar ég hitti hann í Vökupartíi á Hressó í gær. Við Gummi minn förum eftir rúma viku (7.febrúar) til Sydney, þannig að maður ætti kannski að fara að þvo og pakka og svona. Já, svo á ég eftir að fá visa alveg rétt. Hmmm, ætla að drífa í því asap. Gaman að þessu. Annars er bara allt gott að frétta...hmmm já já...

miðvikudagur, janúar 26, 2005

Hádegisfundur

Vaka er með hádegisfund á morgun, fimmtudag klukkan 12:20 í Odda stofu 101. Umræðuefnið er "þunglyndi" og framsögumenn er Elísabet Jökulsdóttir, Salbjörg Bjarnadóttir en hún er geðhjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri "Þjóð gegn Þunglyndi", og Eiríkur Örn Arnarson sálfræðingur. Mér finnst mjög áhugavert að fræðast meira um sjúkdóminn enda eru miklar ranghugmyndir, feimni og fordómar í þjóðfélaginu gagnvart þunglyndi. Ég vil því hvetja alla til að koma á fundinn:)


Ég fór til tannsa í morgun. Ég þarf að fara aftur til tannsa á eftir. Ég þarf sennilega að fara aftur til tannsa líka á morgun. Og hinn og ef dagurinn þar á eftir ("þar-hinn") væri ekki laugardagur færi ég sennilega á þá. Jebb, Tótla tannálfur og tannbursta-meiníak með meiru er með skemmdir í tönnslunum og fékk skömm í hattinn frá fröken tannsínu í morgun. Þar er frekar mikil sorg yfir þessu öllu saman enda hef ég alltaf hugsað nokkuð vel um tennurnar og er eiginlega enn að reyna að ná áttum. Ég kenni óreglulegum matartímum og Vífilfelli um. Tannsína sagði mjög skýrt við mig áðan, "EKKERT KÓK UNGA DAMA". Samt ekki alveg svona en næstum því. Þess vegna hef ég enn einu sinni tekið þá ákvörðun að hætta að drekka kók en mér er meiri alvara núna en oft áður.

laugardagur, janúar 22, 2005

Vaka

Gærkvöldið var með eindæmum skemmtilegt, var rétt að skríða fram úr bælinu núna á hádegi:) Ég byrjaði á að vera barþjónn í smástund í boði sem systir mín var í. Þið vitið hvað barþjónar gera... "einn fyrir gestinn...einn fyrir mig". Þannig á meðan ég hristi saman kokteil fyrir dömurnar hellti ég reglulega smá slurk í mitt glas og smakkaði þetta til. Reyndar var þetta alltaf sami kokteillinn en það er betra að vera viss. Mér fannst öll glösin jafngóð. Að barþjónastarfinu loknu hélt ég á listakynningu Vöku á Hressó, sem var hressandi. Mér leist vel á krakkana (við erum meira að segja með eina idol stjörnu!) þó ég eigi eftir að taka þau í persónulegt viðtal. Já, það er erfitt að vera að sleppa svona takinu á Vöku sinni þannig að það er eins gott að þessir nýju standi sig. Listakynningin var svo óhemjuskemmtileg og fjölmenn að ég held ég hafi verið til hálfþrjú á Hressó (mér finnst það mikið í ljósi þess að ég mætti þangað um 10). Svo fórum við á Vegas og Óðal en það var ekkert stuð. Nei djók, fljótlega eftir þetta fór ég sem sagt heim. Jamm. Fúlt annars að MR sé dottinn út í Gettu betur. Nenni ekki að tala meira um það.

mánudagur, janúar 17, 2005

How do you like Iceland?

Horfði á þessa skemmtilegu heimildarmynd eftir Kristínu Ólafsdóttur á Rúv í gærkvöldi. Hún var mjög athygisverð og gaman að heyra mismunandi reynslusögur útlendinga af Íslendingum og líka gott að þeir voru gagnrýnir, þeir nefndu bæði kosti og ókosti lands og þjóðar. Ég hló alla vega mjög mikið. Einn (ég held sá danski) nefndi nokkuð sem ég hef oft áður heyrt útlendinga segja, að ALLIR Íslendingar séu að gera eitthvað skapandi, sauma, hanna, yrkja, syngja, mála og þar fram eftir götunum. Ég fæ alltaf einhverja óþægilega tilfinningu þegar ég heyri þetta þar sem ég hef ekki gert neitt svona skapandi síðan í grunnskóla en þá var ég mjög dugleg að semja ljóð og sögur. Ég ætla að leyfa einu af mínum fyrstu ljóðum að fylgja þessu bloggi, ég samdi það þegar ég var um það bil átta ára og sat með mömmu úti á svölum í sólbaði.

Lítil stúlka sefur rótt,
getur ekki vaknað.
Úti hefur snjóað í nótt,
þess hefur hún saknað.


Jamm, æskuvinkonur mínar kannast kannski við þessar línur, ég fór með þetta litla ljóð við ýmis tækifæri. Maður ætti kannski að halda þessari ljóðasmíð áfram til að standa undir nafni sem sannur Íslendingur:) Ég get aðeins sett út á eitt við þessa fínu mynd, "How do you like Iceland?" og ég hef nefnt þetta áður í öðru samhengi. Hvar var íslenska tónlistin? Halló halló, af hverju þarf ég að hlusta á "Air", "Jamiriquai" og fleiri ágæta erlenda listamenn í íslenskri bíómynd sem fjallar um Ísland þar að auki þegar það eru til svo ótrúlega margt gott íslenskt tónlistarfólk. Ég fer að hallast að því að það sé satt sem einhver sagði þarna í þættinum í gær, við þjáumst af minnimáttarkennd. Þetta á ekki að hljóma eins og einhver þjóðernisremba í mér en mér finnst alveg sjálfsagt að gefa íslensku tónlistarfólki fleiri tækifæri og alger óþarfi að leita út fyrir landsteinanna þegar vantar fallega tónlist. Eru ekki allir að tala um að við séum svo skapandi? Hvernig væri að nota þessa sköpun betur?

sunnudagur, janúar 16, 2005

Oz (framhald)

Ætli það sé ekki rétt að ég útskýri þetta Ástralíudæmi nánar. Við Gummi minn erum að fara til Sydney því hann fékk skiptinemasamning þar. Þetta byrjaði sem smá flipphugmynd sem er orðin að veruleika og 7.febrúar nk. höldum við til London þar sem Al/Védís munu hýsa okkur í tvær nætur en svo heldur ferðalagið áfram þann 9.febrúar og að kvöldi 10.febrúar lendum við í Sydney, en þá verður reyndar fimmtudagsmorgun á Íslandi nota bene. Ég sótti um í skóla líka en hef ekki fengið svör en grunar að ég eigi ekki möguleika fyrr en ég hef útskrifast frá HÍ. Þannig að á meðan Gummi Hlír stúderar mun ég kengúrast í BA ritgerðinni og vonandi fæ ég líka vinnu. Jamm, svo verðum við komin heim fyrr en varir því þetta er bara eitt skólaár:) Hvernig líst ykkur á lömbin mín?

þriðjudagur, janúar 11, 2005

sunnudagur, janúar 09, 2005

Svei mér þá...

ég hef ekki látið sjá mig hér á síðunni síðan á síðasta ári (mikið af "síð" í þessu). Jamm, ég var agalega bissí milli jóla og nýárs, Clueless félagið hélt kallakvöld hjá Kristínu, Karen var með kjaftakvöld fyrir verkfræðisaumó, og Bryndís bauð Söndru, Al/Védísi, Katrínu og Guðrúnu (og mér). Úff, voða mikið að gera. Á nýju ári hef ég líka þurft að hitta fólk, Herdís var með brunch fyrir Clueless, það hófst klukkan 10:30 og þegar mér tókst að skríða á lappir upp úr 10 bölvaði ég mikið yfir að hún skyldi ekki bara halda lunch klukkan 12 (eða 13). Mér leið reyndar strax betur eftir fyrstu pönnukökuna og eftir það var mjög gaman:) Annars hef ég bara verið að vinna og útrétta, en mín bíður líka óskrifuð BA ritgerð, byrja á morgun. Bravó!