þriðjudagur, maí 31, 2005

Póstkort til Ástralíu

Í dag fékk ég þrjú póstkort hingað til Ástralíu en móðir mín sér um að senda mér myndir svo ég gleymi nú ekki hvar ég á heima. Reyndar skrifuðu bróðurdætur mínar mér sitthvort kortið og nú ætla ég að gerast svo frökk og birta valda kafla úr þessum kortum. Ég hef hlegið svo mikið í dag, því mér þykir náttúrulega ólýsanlega vænt um þær Eddu og Þórhildi. Ég vona að þeim sé sama þó ég skrifi þetta hér.
Edda (sem var að fermast) kvaddi svona:
"Ég og allir aðrir sem búa á Íslandi sakna þín mjög mikið!"
Það munar ekki um það:) Er mín svona sárt saknað? Mér þótti alla vega vænt um þessi orð og hló mikið. Svo er það póstkort guðdóttur minnar, Þórhildar:) hér kemur smá bútur úr því:
"Ég er mjög svekkt yfir að Ísland komst ekki inn í evróvision keppnina. Ég held að það sé af því að þú varst ekki."
Ég veit ekki hvort hún meinar að það sé af því að ég var ekki á Íslandi (þess vegna hafi Selma ekki komist áfram) eða af því að ég keppti ekki fyrir Íslands hönd. Ég held hún meini það nefnilega:) jamm, hún hefur tröllatrú á stóru frænku greinilega...eða hefur erft stríðni og smá kaldhæðni frá föður sínum (Steina bróður) og er að stríða mér því hún hefur örugglega heyrt mig syngja og veit hversu hörmulega það hljómar. Þórhildur er 11 ára. Endilega ef þ.ið viljið senda mér póstkort þá er þetta addressan:
apt 54/32-42 Rosehill Street
Redfern 2016
Sydney, NSW
Australia
Hér er svo mynd af þeim systrum, Edda er sú dökkhærða og Þórhildur er ljóshærð, með á myndinni er heimiliskötturinn Skotta, hún er bröndótt.

föstudagur, maí 27, 2005

Föstudagskvöld...

Föstudagskvöld og við sitjum heima, ...uss það er skömm að þessu. Við vorum að horfa á kántrískvísuna Carrie vinna ameríska idol (við missum aldrei af þeim þætti) en þess má geta að allir hér á heimilinu héldu með Bo en var samt pínu sama hvort hlyti titilinn því þau voru bæði svo góð. Vá löng setning. Á morgun mun ég byrja daginn á bókasafninu en mig vantar heimildir fyrir latínuverkefni sem ég er að klára, og svo ætlum við að hitta hagfræðinemann, og Sydneybúann Frosta sem hefur verið hér jafnlengi og við, en við höfum ekki enn hist. Við þrjú ætlum að snæða eitthvað saman og svo ætlar Frosti að leiða okkur í sannleikann um rugby. Það er víst einhver mikilvægur leikur á morgun, og við ætlum að styðja okkar lið (Frosti segir okkur vonandi á morgun hvaða lið það er) á einhverjum bar. Ég verð meira svona bara á barnum. Að lokum vil ég tjá mig um Big Brother þættina. Þvílík endemis heiladrepandi súr vitleysa. Ég hef marglýst því yfir að ég mun ALDREI horfa á þennan þátt því líf mitt þurfi fyrst að ná mikilli niðursveiflu. Einungis leiðinlegt fólk sem eigi ekkert líf og hafi ekkert fyrir stafni horfi á þennan viðbjóð. Samt stend ég mig að því að gægjast á sjónvarpið þegar það er óvart kveikt á þessum fjanda. Mér finnst þetta alltaf jafnleiðinlegt og tilgangslaust. Ohhh bara að hafa það á hreinu að ég mun ekki kíkja aftur á sjónvarpið þegar Big Brother er í gangi. Frekar bora ég í nefið.

fimmtudagur, maí 26, 2005

Ég get svo svarið það...

...er nokkuð móðins lengur að halda úti svona bloggi? Mér finnst fólk orðið svo lélegt í að blogga, sumir til dæmis setja inn nýja færslu einu sinni í mánuði sem verður að teljast arfaslakt. Fréttirnar segja reyndar annað, að þetta sé greinilega alveg málið heima því allir blogga en mér finnst, þegar betur er að gáð, margir blogga ansi slitrótt, og hvað þá kommenta, össss. Ég ætla ekkert að heimta komment hjá mér og skil það vel að margir hafi gaman af því að kíkja á síðuna þó þeir skilji ekki eftir sig nein spor í kommentakerfinu né gestabókinni. En mér finnst samt voða gaman þegar fólk er duglegt að segja sínar skoðanir, hvort sem það er á mínum síðum eða bara á öðrum síðum sem ég les. Nöldur er þetta í mér, það var ekki meiningin, hehe, ok ...farin út í sjoppu.

mánudagur, maí 23, 2005

Iss

Við Gummi horfðum á Júró í gær hjá Michaelu sem er sænskur Sydneybúi og þar að auki vinkona okkar. Hún bauð upp á dýrindis lasagna og skitna Júróvisjón keppni. Það var reyndar mjög gaman að sjá þetta eins og alltaf en í hópnum voru líka tveir ástralir sem höfðu aldrei horft á þetta og skemmtu sér vel yfir vitleysunni. Hverjir kusu annars þetta leiðinlega gríska lag? ekki gáfum við þeim stig? lagið var leiðinlegt, sönkonan var fýld, með ekki nærri stór brjóst og í alltof síðum kjól! Iss, ekki skil ég út á hvað Grikkland vann. Það er af sem áður var.

Jamm, annars er bara sól og blíða í Sydney núna, en það er samt kominn vetur. Alveg skítkalt inni hjá okkur og á eftir að versna. Endilega sendið mér ullarsokka áður en ég frýs.

föstudagur, maí 20, 2005

Alveg lens...

Ég er alveg lens yfir júróvisjón fréttunum! Selma okkar komst ekki áfram. Nú sé ég þetta ekki fyrr en í kvöld og veit því ekki hversu frábær hin lögin voru (er ekki búin að kynna mér þetta jafnvel og sumir, nefnum engin nöfn Elsa) en ég efast einhver vegin stórlega um að hún hafi átt þetta skilið. Eftir að þessu var breytt í símakosningu hafa gæði Júró dalað mikið og þetta er orðin hálfgerð trúðasýning og vinsældakosning. Keppnin er vinsæl í Au-Evrópu og þar af leiðandi kýs fólk þar mjög mikið. Hvers eiga fámennar þjóðir eins og Ísland...hvað þá Andorra (50 þús) að gjalda? Reyndar er þetta með fólksfjölda landanna og fjölda atkvæða ekki algilt en það hlýtur þó að hafa mikil áhrif. Það mun ekkert "la det svinge" eða "Waterloo" snilldarlag vinna hér eftir, bara einhverjar Ruslur með læti á viðinu. Svei attan!

þriðjudagur, maí 17, 2005

deiglan.com

Jamm, smá svona fréttapistill eftir mig á Deiglunni í dag, endilega kíkið á það:) Annars er bara það að frétta frá Sydney að hér er grenjandi rigning (fínt svo sem þegar maður er bara inni að læra) en það er líka allt í lagi því ég er að fara að fá mér pizzu og bjór ásamt Gumma og öðru góðu fólki í höllinni hennar Önnu Dóru á Watsons Bay. Takk fyrir í bili.

sunnudagur, maí 15, 2005

Kveðjustund

Þrátt fyrir mikla törn í skólanum höfum við Gummi náð að kynnast slatta af liði hérna sem við munum vonandi hafa meiri tíma til að kynnast í vetur (það er haust hér muniði) en við höfum eignast eina vinkonu, og það er hún Anna Dóra sem hefur búið hér í þrjú ár. Anna Dóra þurfti því miður endilega að taka upp á því að klára námið sitt hérna núna og flytur því heim á miðvikudaginn. Hennar verður sárt saknað hér í Sydney og við Gummi erum eiginlega alveg í rusli yfir þessu því hún er alltaf að bjóða okkur í grill og fleira skemmtilegt. Það er alla vega alltaf fjör í kringum hana og alltaf hægt að finna afsökun fyrir smá skralli með Önnu Dóru. Á miðvikudagskvöldið verður því mínútuþögn á Róshæðargötu hjá okkur Gumma. Við eigum þó tvö kvöld eftir með henni því í kvöld er okkur boðið í mat til Simma og Sibbu en hann er formaður Íslendingafélagsins hér (og er frændi Önnu Dóru, við fáum að koma með henni) og svo ætlum við að borða pizzu og sötra bjór heima hjá henni á þriðjudagskvöldið, þannig að eftir það þurfum við víst að finna okkur fleiri vini:)

fimmtudagur, maí 12, 2005

Steingrímur



Það nær náttúrulega bara engri átt hvað Steingrímur systursonur minn er krúttlegur, og þar að auki mikill töffari. Ég sakna hans ógurlega mikið.

miðvikudagur, maí 11, 2005

Skyldublogg

Ég er að hugsa um að sækja kínverskunámskeið til að skilja upphafssíðuna á blogger.com. Ok, annars er Gvendur minn bara alltaf að læra núna og gengur vel, ég er reyndar líka alltaf að læra, (BA ritgerð) en þegar því líkur verð ég frekar verkefnalítil. Skólinn byrjar um mánaðarmótin júlí/ágúst og það er vorönn hérna vitlausumegin á hnettinum. Það er að segja ef allt gengur upp þá byrja ég þá. Ég þarf að fara að tala við fröken Nemendaskrá til að tryggja að ég hafi fengið skólavist, held þetta eigi að vera alveg pottþétt. Vonandi getum við skoðað okkur eitthvað um hérna á eyjunni í júlí en þá er frí, í júní eru sem sagt haustpróf. Ætli ég reyni ekki bara að læra að hekla eða eitthvað á meðan, hahaha, finn út úr því. Jebbs, og þeir sem fylgjast með hinni síðunni vita að ég var á Nýja Sjálandi en ég nenni ekki að endurtaka mig svo kíkið bara á heimasíðuna okkar Gumma, linkur hér til hægri. Hvernig er það, er fólk hætt að tala um Opruh þáttinn? Lauslátu íslensku karlarnir hafa þaggað umræðuna niður áður en athyglin næði þeim. Gúrka.

fimmtudagur, maí 05, 2005

pakki

Í fyrradag fengum við Gummi frábæran pakka, foreldrar hans sendu okkur bækur sem við höfðum gleymt og vantaði hingað út, en inn á milli bókanna leyndist sveittur og kraminn lakkrís sem gladdi okkur mikið. Einnig sendu þau okkur íslensk tímarit og eitt stykki DV þannig að ég las DV með morgunkaffinu:) sniðugt maður. Pakkinn fór reyndar frekar langa leið hingað þannig að blaðið var frá 13.apríl sem skipti náttúrulega engu máli. Án þess þá myndi ég ekki vita í dag að stuðningsmenn Keflavíkur höguðu sér eins og barbarar eftir sigurinn á Snæfelli (körfubolti fyrir þá sem ekki vita), að Brad elskaði Jennifer ekki nóg, að nýja stelpan sem stýrir Djúpu Lauginni er á lausu og síðast en ekki síst að Milli Vanilli gætu komið til Íslands í sumar. Þessi síðasta frétt vakti athygli mína því a) ég er með hið ekki svo frábæra lag "girl I´m gonn miss you" með strákunum á heilanum (eða það er þeim sem sungu fyrir Milli Vanilli sem voru náttúrulega ekki þeir sjálfir, aftur fyrir þá sem ekki vita) og b) annar þeirra er dáinn. Eftir að allt svindlið kom í ljós, Grammy verðlaunin tekin af þeim og ég veit ekki hvað og hvað flippaði hann svolítið enda búinn að drulla upp á hnakka. Hann hafði líkt sjálfum sér við söngvara á borð við Paul McCartney, sagðist vera betri en Bítlarnir og Elvis og allir þeir í viðtölum vestan hafs. Magnaður gaur. Hann endaði held ég ævi sína á hostelherbergi, of stór skammtur eða eitthvað álíka. Jeminn eini, það kemur illa út fyrir mig hvað ég veit mikið um Milli Vanilli. Hmmm, viljiði meira, gaurinn sem "fann þá upp" var þýskur og fannst þeir lúkka svo vel, fékk bara aðra til að syngja. Strákarnir gátu hins vegar breikdansað og þóttu fríðir:) ok ég er hætt. Girl I´m gonna miss you....

miðvikudagur, maí 04, 2005

ekkert blogg

Talandi um Opruh, þá fór ég á Vísi.is áðan og sá að íslenskar konur eru reiðar við Svanhildi. Þannig að eitthvað er sem sagt til í þessu sem Inga Steinunn, heimildarkona mín í þessu máli á Íslandi, sagði altsaa að Svanhildur hafi gefið í skyn að íslenskar konur væru lausgyrtar. Öss, ég segi ekki meir. jæja, hef reyndar ekkert að segja.

mánudagur, maí 02, 2005

Oprah?

Hulda spurði í kommenti við síðustu færslu hvort ég fengi svefnfrið (út af draumunum). Svarið er nei. Þess vegna sef ég svona lengi, því fyrst þegar ég vakna á morgnana er ég alveg uppgefin og neyðist til að kúra lengur. Eins og Inga segir, við fiskarnir höfum bara aðeins fjörugra ímyndunarafl. En hvernig er það, var Svanhildur Hólm hjá Opruh? WHY? aldrei segir enginn mér neitt!