föstudagur, febrúar 24, 2006

Gluggi

G'day mates. Þá fer lífið að komast í fastar skorður hér í Róshæðargötu enda hefst skólinn á mánudaginn. Við Gummi erum svo heppin að hafa gest hjá okkur núna en Erna Tönsberg vinkona úr Álftó er að flytja til Sydney og býr hjá okkur á meðan hún er að leita sér að íbúð. Ég er ekkert smá sátt við að hún sé að koma hingað enda langtum skemmtilegra að slúðra á íslensku en ensku og við getum endalaust blaðrað enda sannkallaðar blaðurskjóður:)

Ég var á heimasíðu Ingu Steinunnar og rakst þar á sniðugan glugga. Þetta er víst notað í sálfræði til að sjá hvernig aðrir sjá mann kannski öðru vísi en maður sjálfur (juminn, hræðilega illa orðað). Jæja, ég er alla vega búin að fara í þetta og merkja við 6 orð sem ég held að geti átt ágætlega við um sjálfa mig og nú þætti mér rosalega vænt um ef þið gerðuð þetta og merktuð við 5-6 orð sem ykkur finnst eiga við um mig. Kannski er ég alveg að misskilja sjálfa mig og held að ég sé eitthvað sem ykkur finnst ekki, skiljiði? OK, man aldrei hvernig maður gerir linka svo þetta er bara slóðin; http://kevan.org/johari?name=totla

bæjó

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Fyrsti strengurinn, ekki fyrir viðkvæma...


Við getum öll verið sammála um að tíminn líður hratt, og ekki fyrir svo löngu hafði ekkert okkar nokkurn tíma heyrt um, séð, hvað þá klæðst g-strengs nærbuxum. Ok, ég sagði að þetta væri ekki fyrir viðkvæma þannig að þið teprurnar getið bara farið aftur á leikur.is að spila tetris eða eitthvað. Mér varð hugsað til þess um daginn þegar maður sá þessar flíkur fyrst, og hvað það er í raun stutt síðan. Ég er ekki alveg með ártalið á hreinu en ég er að skjóta á '96 ?!?! hjálpið mér. Jæja, alla vega þá var maður nú ekkert að hlaupa út í búð að festa kaup á svona nærfatnaði enda var mamma sennilega enn að kaupa á mig bónusbrækur þegar þetta var, sem sagt í fyrsta bekk í menntaskóla. Þetta þótti náttúrulega ægilega patent þar sem nærbuxnafarið sást ekki á miðjum bossanum ef maður var í þröngum buxum (mér hefur alltaf þótt það ólekkert) nema hvað, að jólin '96 þá fékk ég dálítið óvænta jólagjöf ...frá Guðrúnu Jóns sem margir lesendur Tótlutjattsins ættu að kannast við. Ég man eftir að hafa setið í stofunni með settinu og gott ef amma í Fells var ekki þarna líka og ef til vill fleiri fjölskyldumeðlimir þegar pakkinn frá Guðrúnu rataði í fangið á mér og ég tók til við að taka utan af honum pappírinn. Í ljós komu þessi fínu brjóstahöld (sem ég hafði sennilega enn minna við að gera þá en nú, ...eða jú annars ...sennilega voru púðar í honum, sem veitti ekki af fyrir horaðan unglinginn) og g-strengur! Mér tókst sem betur fer að sjá hvurslags brók þetta var áður en ég lyfti henni upp til að sýna viðstöddum gjöfina. Held ég hafi falið strenginn undir bh-inum og þegar mamma spurði hvað ég hefði fengið frá Guðrúnu svaraði ég "nærföt"... örugglega farin að svitna þá. Milli jóla og nýárs þegar ég hitti prakkarann spurði hún hvort jólagjöfin hefði nokkuð skapað vandræðalegt fjölskyldumóment við jólatréð, og ég man það mjög vel ennþá að hún var svakalega prakkaraleg á svipinn og hló bara. Að sjálfsögðu var þetta ekkert vandræðalegt móment, svo það sé alveg á tæru. Þær stöllur, hún og Aldís unnu einmitt í Hagkaup á þessum tíma og hafa fengið góðan díl á þessu býst ég við og ég var himinlifandi yfir gjöfinni. En ekki hvað? Ég man reyndar nokkru síðar eftir mömmu þar sem hún var að hengja þvott á snúru og þar á meðal jólagjöfina frá Guðrúnu að hún átti í einhverjum vandræðum með strenginn. Ég heyrði hana tauta "efnisprufa" og "hvernig snýr þetta eiginlega?" enákvað að forða mér út áður en hún færi að pæla meira og ræða þetta frekar:)

miðvikudagur, febrúar 08, 2006

Silvía Nótt og evróvisjón.

Þá er ég komin aftur í samband við umheiminn héðan frá Sydneyju, en ég var í tæpar 3 vikur á roadtrippi um eyjuna (Ástralíu altso). Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég fór að vafra um bloggheima eftir 3 vikna fjarveru var að allir eru að keppast við að mæra Silvíu Nótt og lagið hennar. Hmmmm. Ég verð víst að skera mig úr hópnum. Mér fannst lagið alveg í lagi, en ég get ekki tekið undir með fólki að þetta sé geggjað lag, mér finnst þetta vera meira svona grínlag. Mér fannst reyndar gríska lagið sem vann í fyrra glatað þannig að það er ekkert að marka mig, og kannski rústar SN þessu, við skulum vona það:) Líka fínt að senda hana og hrista aðeins upp í þessu liði, get ímyndað mér að allir evrópsku júróaðdáendurnir (vinir Páls Óskars) eigi eftir að taka Silvíu í guðatölu. Svo er annað með hana SN. Ég sá einn þátt í fyrrahaust og fannst hún hrikalega fyndin. Svo sá ég annan þátt um jólin og fannst hún ganga alltof langt því ég giska á að aðaláhorfendahópurinn hennar sé á aldrinum 10-18 ára þó aðrir hópar fylgist líka með henni. Ég hafði það á tilfinningunni að hún fyndi sig knúna til að toppa sjálfa sig, verða enn grófari. Ég styð stelpuna áfram í keppninni, en vona að ungir krakkar séu ekki að taka útlit hennar og túllann á henni til fyrirmyndar.