Jæja, þá er komið að öðrum gestapistli en það er dejlige Hildur Edda sem, rétt eins og Ari, rifjar upp hvernig hún kynntist mér:) sniðugt þema. Mér finnst alltaf gaman að rifja upp MR árin en við Hildur vorum saman í bekk þar og líka í spænskunni í HÍ. Vonandi eigum við eftir að vera oftar saman í bekk:) ok here it comes:
"Mér finnst svo skemmtilegt að fá að vera gestapenni á Tótlutjattinu. Þetta er svona eins og að vera genginn til liðs við skjallbandalag Tótlu. En mér finnst það vera mikill heiður fyrir mig að fá að vera í því bandalagi, og því langar mig að rifja upp fyrstu kynni mín af Tótlu.
Við kynntumst þegar ég var í þriðja eff og hún var í þriðja joð í MR, en það var ....eh.. fyrir löngu síðan. Það var í strætóferðum okkar í þristinum sem við tókum tal saman, og við gátum strax talað saman um allt milli himins og jarðar. Ég fattaði hins vegar vorið 1997, rétt fyrir prófin, eftir að við höfðum talað saman á hverjum degi og hvíslast á um stráka, rætt mjög opinskátt um erfiða tíðaverki, hnakkrifist um hvort Sjálfstæðisflokkurinn væri “bestur” eða “ömurlegastur” og planað skemmtilegheit næsta vetrar, að ég hafði ekki hugmynd um hvað þessi manneskja héti. Og þá var aðeins of neyðarlegt að taka upp á því að spyrja hana til nafns svona í beinu framhaldi af því að hafa rætt um ofangreind mál. En svo heyrði ég nafnið hennar útundan mér frá einhverjum öðrum og lét strax eins og ég hefði alltaf verið með það á hreinu. Svo vorum við saman í bekk í fjórða, fimmta og sjötta, og það verður að segjast að hún Tótla var á sama tíma hið mesta tískuslys og tískuundur. Gjarnan mætti hún í skólann í Nokia stígvélum, typpagammósíum úr flísefni og nossaraúlpu, en þess á milli var hún svo óaðfinnanleg til fara að ég held að við stelpurnar höfum áreiðanlega allar einhvern tímann jaðrað við að hugsa það sama og Arna Vala sagði upphátt einhvern gráan og myglulegan þriðjudagsmorgun í enskustílstíma; “Djöfull hlakka ég til þegar þú verður gömul og ljót Tótla”. Stuttu skólastelpupilsin, hnésokkarnir, mokkasínurnar og Audrey Hepburn kápurnar pössuðu eiginlega allt of vel við vel greidda hárið hennar og óaðfinnanlegu nestistöskuna. En það var mjög gott að hafa hana í bekknum og í bekkjarpartíum, ekki síst fyrir agalausar eilífðargelgjur eins og mig. Hún hafði gjarnan meðferðis auka par af ullarsokkum eða trefil ef ske kynni að einhver í bekknum skyldi ekki hafa vit á að klæða sig eftir veðri (gilti ætíð um mig) og hún var sú eina sem hafði lag á að fá kennarana til að kenna í niðamyrkri á morgnanna af því að “það var svo vinalegt að hafa dimmt inni”. Svo taldi hún samviskusamlega sambúkkaglösin sem ég innbyrti í partíunum (gjarnan heima hjá henni á Háaleitisbraut) og minnti mig réttilega á að ég yrði veik ef þau yrðu mikið fleiri.
Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili, en mig grunar að eftir nokkur ár, þegar við erum farnar að starfa saman á alþjóðalegum og/eða pólitískum vettvangi, þá muni Skjallbandalag II vera stofnað á tjattinu aftur, og þá kem ég með fleiri dæmisögur beint í æð.
Kveðja, Hildur hressa"
Engin ummæli:
Skrifa ummæli