Má eiginlega ekkert vera að þessu bloggi sökum námsins en hér kemur smá öppdeit til að halda lesendum við efnið: Gummi hefur verið duglegur að mæta í leikfimi ásamt Frosta síðustu daga og verður orðin eins og tröllmaður eftir nokkrar vikur. Ég reyni að mæta annað slagið en við skulum vona að ég breytist ekki í tröllkonu (skessu) við spriklið. Þegar ég var yngri var ég oft(ast) frekar "sloj" því ég hafði svo lágan blóðþrýsting. Mér fannst ég stundum bara líða um eins og vofa og mamma dældi í mig vítamínum, grænmeti og lakkrís til að hækka blóðþrýstingin. Svana mágkona kenndi mér líka að drekka kaffi og ég fór reglulega út að skokka. Undanfarin 3-4 ár hefur blóðþrýstingurinn verið hærri, ég hætti að skokka jafnreglulega en minnkaði ekki nammiátið. Slæmt. Jæja, en alla vega, síðustu mánuði hefur mér liðið eins og þegar ég var yngri með lága blóðþrýstingin og þá gengur hægt og illa að læra. Öss... Ég er samt að taka mig á núna... allt að gerast.
Í gærkvöldi var bankað á dyrnar hjá okkur, það var nágrannakonan okkar, Tracey og vinur hennar að kynna sig því hún flutti inn í vikunni. Hún var sennilega búin að banka upp á hjá öllum á stigaganginum (við heyrðum alltaf hláturinn í henni, fyrst í íbúð 47, svo 55 o.s.frv.) og var búin að sötra vel af kampavíni og þar af leiðandi orðin frekar kennd. Hún var reyndar mjög fyndin. Gummi fór til dyra og ég hlustaði á samtalið fyrst úr fjarlægð. Hún kynnti sig (var greinilega aðallega að forvitnast um nágrannana og hvernig þeirra íbúðir væru) og svo heyrði ég hana bara ÆPA af hrifningu yfir gardínunum okkar og sagðist vilja eins í sína íbúð. Hún stóð sem sagt í gættinni og var eitthvað að gægjast yfir öxlina á Gumma inn í íbúðina til að skoða. Þá fór ég til dyra og kynnti mig og bauð henni bara að koma að skoða íbúðina (sem var alltaf aðaltilgangur heimsóknarinnar að ég held). Hún þóttist alveg bit yfir þessu boði en þáði það að sjálfsögðu. Áður en við vissum af var þessi elska komin inn í svefnherbergi, og svo þvottahús og bara út um allt að skoða og alveg svakalega hress. Hún bauð okkur í heimsókn í sína íbúð (við hliðiná okkur) en sem betur fer höfðum við afsökun. Við vorum á leið í bíó (ég sagði það reyndar ekki við hana). Við vitum alla vega hvert skal halda langi okkur í teiti en nennum ekki út úr blokkinni:) Skál fyrir áströlsku nágrönnununum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli