miðvikudagur, september 03, 2008

Nýr tónlistarklukkutími?

Man ekki hvort ég hef bloggað um þetta áður. Málfar útvarpsmanna er misgott rétt eins og málfar bloggara og bara fólks almennt. Sumir tala mjög gott og skýrt mál, sumir sletta og aðrir slá um sig með einhverjum svaka krúsídúllum, háfleygum setningum og heimatilbúnum orðum. Sum þessara orða virðast samt hafa náð að skjóta rótum í íslenskt útvarpsmálfar og það er orðið "tónlistarklukkutími". Ég held þetta sé aðallega á FM 957 en held ég hafi þó heyrt þetta líka á öðrum rásum. Á FM 957 tala menn hratt og þeir kunna að nota alls konar orð líka. Þar hefja þeir splunkunýjan tónlistarklukkutíma með gömlum klassíker með stelpunum í Atomic Kitten í bland við brakandi nýja smelli með meistara DJ Tiesto (eða eitthvað.... hvað veit ég svo sem?). Ég samdi þessa setningu samt alveg sjálf:) Ég stilli reyndar oft á þessa ágætu stöð en mér finnst alltaf gaman þegar þeir kynna eldgamla smelli sem hafa fyrir löngu náð vinsældum hjá landanum. Þá bíð ég spennt og held að ágætur útvarpsmaðurinn ætli að spila fyrir mig eitthvað með 2Unlimited eða What's up! með 4 Non blondes. En nei nei... spilum bara eitthvað af þarsíðustu plötu Justin Timberlake. Ég geri mér grein fyrir að þeir ætla ekki að spila Lúdó og Stefán en myndi sætta mig við að 10 ára gamalt lag með Jennifer Lopez væri kynnt sem gamalt, þó mér finnist það ekki svo gamalt:)

Að lokum vil ég biðja einlæga Molaaðdáendur afsökunnar á bloggleti minni. Hér koma nokkrar nýlegar myndir. Drengurinn kann að vera fyndinn á svipinn og er með stór blá augu eins og sjá má...voilá!