fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Eyes-land

Það kom að því, ég hef troðið í mig "einum" með öllu, Álfheimaís, skyri, lambakjöti og íslensku sælgæti svo um munar. Remúlaðið er farið að sprautast út um eyrun á mér, svo loksins get ég tekið mér hlé frá áti og skrifað nokkrar línur. Það er bara asskoti fínt að koma heim. Ég viðurkenni það fúslega að tilhlökkunin yfir heimför var hulin örlítilli kvíðadulu líka. Blendnar tilfinningar...já já, mjög blendnar tilfinningar. Mér fannst yfirþyrmandi að vera að "klára" skólann og þurfa að verða fullorðin á einu bretti. Orð eins og verðbólga, framtíðarstarf, íbúðarkaup, íbúðarlán, Glitnir og barneignir kölluðu fram skrýtnar hugsanir í tótlukolli. Var að pæla að beila á öllu saman og opna bar í Tælandi. Gumma fannst það ekki tælandi hugmynd, svo heim fórum við. Og er það vel. Við stöldruðum við í Kuala Lumpur í 4 daga þar sem við komumst í kast við lögin er við keyptum ólöglega eftirlíkingu af Luis Vuitton tösku í Chinatown. Eða við höldum það, alla vega var þetta agalega spennandi og taskan flottari fyrir vikið. Við stoppuðum líka í London í hitabylgju í byrjun júlí. Svo komum við heim. Hér er dýrt, kalt, blautt, maður þekkir alltof marga, og fólk aðeins of þyrst þegar það fær sér í glas. Heima er samt best:)