þriðjudagur, janúar 24, 2012

sumar/veturEins mikið og ég fagna snjónum þegar hann lætur loksins almennilega á sér kræla þá get ég ekki annað en staldrað við sumarmyndir eins og þessa hér sem ég tók af Sveini Gauta síðastliðið sumar þegar hann aðstoðaði mig við að mála útidyrahurðina. Ekki sjéns samt að ég vilji skipta.

þriðjudagur, maí 26, 2009

mánudagur, maí 04, 2009

Örfréttir

Bonjour! Nokkrar línur fyrir Völu múmínálf og aðra "útlendinga" sem maður hittir aðeins um jólin. Sveinn Gauti vex og dafnar með hverjum deginum og er fullmikill stuðbolti stundum fyrir "gömlu". Ég hleyp hér sveitt á eftir honum flesta daga en sem betur fer er hann orðinn duglegri en leika sér og dunda. Það er fátt sem dregur úr kátínu kappans ....en stundum hleypur þó skapið með hann í gönur. Litli ljúflingurinn umturnast þá á hálfri sekúndu í skapofsamann sem getur sprengt hljóðhimnurnar í saklausum eyrum þeirra sem á vegi hans verða. Við foreldrarnir ætlum með þolinmæði og elju að verja næstu 20 árum eða svo í að kenna honum að beina þessum miklu tilfinningum í réttan farveg og þá er Sveinn Gauti bara í frábærum málum. Hann er líka með eindæmum duglegur og iðinn og getur puðað endalaust, hvort sem er úti á róló eða í garðinum eða hér inni við að færa potta og pönnur, sleifar og könnur, nærbuxur og sokka og þar fram eftir götunum úr skápum og skúffum. Mikil upptalning þarna en þetta var samt bara lítið brot. Gummi vex og dafnar líka, hann ætlar að sigra hæsta tind Íslands eftir hálfan mánuð en það er víst vinsælasta sport Frónverja í dag þegar enginn hefur efni á lúxusferðum lengur. Hann plataði mig í Esjugöngu 1.maí og ég fékk þar með staðfest að ég er í hræðilegu formi þrátt fyrir að láta sjá mig í World Class annað slagið. Þetta hefði svo sem ekki átt að koma mér á óvart, -en gerði það samt. Átti ekki von á að ég myndi hoppa upp Esjuhlíðar eins og þrælvön geit eins og ég gerði hér áður en fyrr má nú aldeilis vera. Þess má líka geta að Gummi rómantíski leiddi mig smá hluta leiðarinnar en ég veit ekki hvort hann var bara svona mikið sjéntilmenni eða að reyna að draga mig áfram.

Nokkrar myndir af okkur, teknar á Akureyri í lok febrúar.
sunnudagur, mars 29, 2009

Bangsímon

Þættinum hafa borist kvartanir yfir myndaleysi, hér kemur ein af óánægðum Bangsímon (plús föður hans) á leið til dagmömmu að morgni öskudags.

föstudagur, janúar 09, 2009

Ég er svakalega löt að blogga þessa dagana en lofa að halda áfram að setja eina og eina mynd af krónprinsinum af Fífuhvammi hér á síðuna. Sveinn Gauti -þótt ungur sé- er búinn að átta sig a því að hann getur treyst á persónutöfra sína í flestum tilfellum. Hann nær stundum að gera móður sína mjög ergilega (tekur upp klósettsetuna og buslar í klósettvatninu með puttunun, stendur upp á borðstofuborði, tætir í sig tísku og uppskriftablöð heimasætunnar, rífur klósettrúllu í ótal ræmur (eins og kettir gera) og dreifir yfir íbúðina og þar fram eftir götunum) en hefur næstum alltaf vit á að brosa breitt svo skín í allar tennur og spékopparnir njóta sín og faðma mömmuna með viðeigandi "aaaa" hljóðum þegar hún hefur skammað hann. fjúff.

Ég fór á saumanámskeið í haust og náði að sauma eina flík. Ekki beint mikil afköst en stendur til bóta. Mér fannst svakalega gaman og líður vel þegar ég er að dunda mér við saumavélina. Hef hins vegar aldrei haft mikinn áhuga á að prjóna þó móðurleg ég hafi reynt að prjóna teppi þegar Sveinn Gauti var á leiðinni. Teppið er enn á prjónunum og mamma blessunin gat ekki annað en hlegið þegar ég var að fá hana til að hjálpa mér stundum. Bæði mamma og Anna Björk systir eru hrikalega myndalegar, geta saumað og prjónað og skrifa fallega ...en ég fékk einhverja aðra leynda hæfileika í vöggugjöf. Þeir eru svo gasalega leyndir að þeir eru enn óuppgötvaðir svei mér þá. Frá því ég var krakki hef ég oft velt því fyrir mér hvort ég ætti að prófa hinar og þessar (íþrótta)greinar til að kanna hæfieikana nánar. Komst að því snemma að þó ég viti ekkert skemmtilegra en að vera á skíðum þá get ég alveg eins rennt mér aftur á bak eins og áfram... hefði ekki breytt miklu varðandi úrslitin. Væri ég kannski margfaldur Íslandsmeistari í borðtennis ef eg hefði ekki alltaf verið að dandalast í Hamragili? Afródansari? frægur sjónvarpskokkur? gervinaglameistari? Hmmm, hér koma myndir af syni móður með leynda hæfileika: