laugardagur, desember 29, 2007

Molajól


Gleðileg jól tótlutjattarar! Við fjölskyldan höfum haft það notalegt yfir hátíðarnar. Litli Molinn er reyndar kominn með hormóna eða hitabólur en það slær ekki alvarlega á fegurð hans:)

sunnudagur, desember 23, 2007

enn fleiri myndir:)

Nýr skammtur af myndum hér:) Einhver spurði hvort sonurinn væri kominn með nafn. Svarið er nei. Við höfum varla gefið okkur tíma til að ræða nöfn en höfum samt hugmyndir. Þurfum bara að velja. Við fengum skemmtilega heimsókn í dag en Vala frænka og Þórey frænka komu hingað til að dást að syninum. Honum líkar öll athygli vel svo þetta var allt saman mjög huggulegt.


miðvikudagur, desember 19, 2007

"Gracias a la vida...

...que me ha dado Moli."

Loksins loksins, ný mynd af Molanum mínum. Allt að verða vitlaust í kommentum og Bryndís, klikkaða tían í Madrid farin að vitna í Joan Baez (svo ég gerði hið sama í fyrirsögn með ögn breyttu sniði) og ég veit ekki hvað og hvað. Takk elsku lesendur fyrir að láta vita af heimsókn ykkar hingað á síðuna mína. Það hefur komið mér mjög skemmtilega á óvart að sjá hverjir hafa ratað hingað inn og þið trúið ekki hversu mikið það gleður mig og hvetur mig að sjálfsögðu til að skrifa nokkur orð oftar. No worries, ég geri mér grein fyrir því að þið eruð hér fyrir Molamyndirnar en ekki bullið í mér svo við skulum vinda okkur beint í þær:

Ég kom að þeim feðgum svona í fyrradag, þeir voru að leggja sig. Það er ekki mikið jólastress á þessum bæ:)


Þessi mynd er ekkert spes af Mola en æðisleg af stóra frænda hans, Steingrími Degi sjóræningja. Moli er svo heppinn að vera ríkur af frábærum frænkum og frændum sem hann á eflaust eftir að líta upp til.


Þarna er sonur minn að lesa bók í rúminu svona eins og sannir nautnaseggir gera í jólafríinu. Músin Molly fylgist með en það sést reyndar bara í búkin á henni. Mér finnst skugginn af honum skemmtilegur á þessari mynd, minnir mig á Pétur Pan (takið eftir nefinu) en ég hef alla tíð verið mjög skotin í Pétri Pan:)

fimmtudagur, desember 13, 2007

Rauð jól?


Ég ætla ekki að skrifa um veðrið. En samt. HVAÐ ER Í GANGI??? Húsið nötraði í nótt og ég heyrði varla eigin hugsanir fyrir látunum í veðrinu. Mér finnst vont veður reyndar alltaf pínu spennandi (svo lengi sem ekkert hræðilegt gerist) og ýtti reglulega á "refresh" takkann á mbl í von um æsispennandi fyrirsagnir á borð við "fjúkandi ruslatunna sneiddi snjókarl í tvennt". Hef mikið pælt hvernig fór fyrir öllum upplýstu snjókörlunum, jólasveinunum, Maríunum og Jesúbörnunum sem prýða nú garða landsins.

Fyllti tvær stórar krukkur af engiferkökum í gær. Húsbóndinn aðstoðaði mig smá. Hann býðst ekki til að elda eða baka af fyrra bragði en á það til að leyfa sér að koma með athugasemdir eins og "ég myndi skera sveppina öðruvísi" (ég gerði Flúðasveppasúpu í gær) eða "af hverju hefðurðu piparkökurnar svona litlar". Hmmm, betra bara að sleppa svona kommentum þegar maður situr á bossanum og fylgist með húsfreyjunni elda og baka ofan í sig. Eða bara gera þetta sjálfur:) ...en ég tók þessu svo sem ekki illa.

Læt mynd af nýliðanum okkar fylgja með. Hann sefur á daginn, vakir á nóttunni. Það sést á mér:)

mánudagur, desember 10, 2007

grúppía


Aðdáun móðurinnar leynir sér ekki:) Drengnum virðist líka öll þess athygli og aðdáun foreldranna vel og líður best nálægt okkur.

Hef brallað eitt og annað síðustu daga, eins og kaupa jólagjafir, baka, lesa og svo komst ég að því að ég er ekki skarpari en skólakrakki. Þar hafið þið það!

föstudagur, desember 07, 2007

Jólajóla!


Desember kom á sínum tíma eins og við var að búast þrátt fyrir að ég teldi mig ekki klára í slaginn. Þá er mál að skreyta og punta og því komið smá babb í bátinn. Vér hér í Fífuhvammi eigum ekki svoleiðis fínerí. Ég er reyndar mikið jólabarn en það sem er stöðvar mig er valkvíðinn. Mér finnst erfitt að finna jólaskraut. Fór í leiðangur síðustu helgi með það eina markmið að sanka að mér skrauti en kom heim með nokkra köngla og lakkrís (ekki til skrauts heldur áts). Úff. Er þó búin að baka engiferkökur og Gummi er búinn með þær. Eftir bara svona tvö ár getur hann kennt syni sínum um það, en reyndar hugsa ég að ég muni notfæra mér þetta gamla góða trix meira en Gummi... það er bara aðeins of snemmt núna. Ég er hrædd um að Gummi myndi sjá í gegnum "en það var Moli sem kláraði allar kökurnar og súkkulaðið". Við pabbi erum bæði vön að nota þetta trix en nú eru þau mamma bara tvö eftir í kotinu svo hann verður víst að viðurkenna sekt sína þegar mamma skammar hann fyrir að klára smákökurnar. Jæja, ég vona að allir séu að njóta aðventunnar og hendi hér inn einum mola:)

laugardagur, desember 01, 2007

kysstur og knúsaður


Hann fær nokkur knús daglega frá foreldrum sínum þessi. Annað er ekki hægt og það er alltaf jafnnotalegt:) Eins og sést er hann ekkert að kippa sér upp við þetta kossaflens heldur sefur bara í gegnum það.