laugardagur, október 29, 2005

Annar gestapistill! bravvvvvo.

Jæja, þá er komið að öðrum gestapistli en það er dejlige Hildur Edda sem, rétt eins og Ari, rifjar upp hvernig hún kynntist mér:) sniðugt þema. Mér finnst alltaf gaman að rifja upp MR árin en við Hildur vorum saman í bekk þar og líka í spænskunni í HÍ. Vonandi eigum við eftir að vera oftar saman í bekk:) ok here it comes:
"Mér finnst svo skemmtilegt að fá að vera gestapenni á Tótlutjattinu. Þetta er svona eins og að vera genginn til liðs við skjallbandalag Tótlu. En mér finnst það vera mikill heiður fyrir mig að fá að vera í því bandalagi, og því langar mig að rifja upp fyrstu kynni mín af Tótlu. Við kynntumst þegar ég var í þriðja eff og hún var í þriðja joð í MR, en það var ....eh.. fyrir löngu síðan. Það var í strætóferðum okkar í þristinum sem við tókum tal saman, og við gátum strax talað saman um allt milli himins og jarðar. Ég fattaði hins vegar vorið 1997, rétt fyrir prófin, eftir að við höfðum talað saman á hverjum degi og hvíslast á um stráka, rætt mjög opinskátt um erfiða tíðaverki, hnakkrifist um hvort Sjálfstæðisflokkurinn væri “bestur” eða “ömurlegastur” og planað skemmtilegheit næsta vetrar, að ég hafði ekki hugmynd um hvað þessi manneskja héti. Og þá var aðeins of neyðarlegt að taka upp á því að spyrja hana til nafns svona í beinu framhaldi af því að hafa rætt um ofangreind mál. En svo heyrði ég nafnið hennar útundan mér frá einhverjum öðrum og lét strax eins og ég hefði alltaf verið með það á hreinu. Svo vorum við saman í bekk í fjórða, fimmta og sjötta, og það verður að segjast að hún Tótla var á sama tíma hið mesta tískuslys og tískuundur. Gjarnan mætti hún í skólann í Nokia stígvélum, typpagammósíum úr flísefni og nossaraúlpu, en þess á milli var hún svo óaðfinnanleg til fara að ég held að við stelpurnar höfum áreiðanlega allar einhvern tímann jaðrað við að hugsa það sama og Arna Vala sagði upphátt einhvern gráan og myglulegan þriðjudagsmorgun í enskustílstíma; “Djöfull hlakka ég til þegar þú verður gömul og ljót Tótla”. Stuttu skólastelpupilsin, hnésokkarnir, mokkasínurnar og Audrey Hepburn kápurnar pössuðu eiginlega allt of vel við vel greidda hárið hennar og óaðfinnanlegu nestistöskuna. En það var mjög gott að hafa hana í bekknum og í bekkjarpartíum, ekki síst fyrir agalausar eilífðargelgjur eins og mig. Hún hafði gjarnan meðferðis auka par af ullarsokkum eða trefil ef ske kynni að einhver í bekknum skyldi ekki hafa vit á að klæða sig eftir veðri (gilti ætíð um mig) og hún var sú eina sem hafði lag á að fá kennarana til að kenna í niðamyrkri á morgnanna af því að “það var svo vinalegt að hafa dimmt inni”. Svo taldi hún samviskusamlega sambúkkaglösin sem ég innbyrti í partíunum (gjarnan heima hjá henni á Háaleitisbraut) og minnti mig réttilega á að ég yrði veik ef þau yrðu mikið fleiri. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili, en mig grunar að eftir nokkur ár, þegar við erum farnar að starfa saman á alþjóðalegum og/eða pólitískum vettvangi, þá muni Skjallbandalag II vera stofnað á tjattinu aftur, og þá kem ég með fleiri dæmisögur beint í æð. Kveðja, Hildur hressa"

Gestablogg

Ari Tómasson reið á vaðið um daginn sem gestabloggAri á Tótlutjattinu og nú hef ég fengið sendan annan pistil, nema hvað mig vantar mynd af bloggínunni. Ef hún sér þetta er hún vinsamlegast beðin um að senda mynd til mín (ég leitaði á google og alles). Merci.

fimmtudagur, október 27, 2005

Hamingjuóskir og hrós!

Haldiði að það sé, mín er í góðu skapi og ætlar að hrósa og senda hamingjuóskir. Hamingjuóskirnar fá þeir sem útskrifuðust úr HÍ síðustu helgi og í augnablikinu man ég eftir Hildi Eddu (stjórnmálafræði), Heiði (viðskiptafræði), Sigrúnu Helgu (lögfræði), Kareni (verkfræði) og Cillu (verkfræði) ...hmmm er örugglega að gleyma mörgum. Hrósið fær Ólöf Inga (betur þekkt sem Lóa Löwe) fyrir að senda mér langt og skemmtilegt e-mail í gær en maður fær ekki oft svoleiðis. Hún fær líka hrós fyrir að færa foreldrum mínum gæs sem hún handfjatlaði (eða hvað það kallast) sjálf, sleit og sveið og svoleiðis. Ólöf eins og margir aðrir er haldin kommentafælni sem er allt í lagi því ég veit að hún les síðuna og því kemst hrósið til skila:)

miðvikudagur, október 26, 2005

Rjóminn...

Í dag ætlaði ég að bæta við Rjómanum á tenglalistann minn því Rjóminn er góður. En í dag er blogger á japönsku hjá mér svo ég finn ekki templeitið! Þarf að biðja takashi vin minn um aðstoð. Rjóminn.is er tónlistarvefrit sem Ari Tómasson, fyrrum gestabloggAri Tótlutjattsins stendur að, ásamt nokkrum öðrum. Ég mæli með Rjóma:) ps:Anne, ædolið mitt datt út á mánudaginn. Þórhildur og Ástralía ná varla andanum af vonbrigðum! Dómararnir grétu! Þvílíkt hneyksli.

sunnudagur, október 23, 2005

Australian Idol

Við erum alveg húkt á Ástralska Ædolinu núna svo ég hef eiginlega ekki tíma til að blogga þar sem það er að byrja, en alla vega þá held ég mest með Anne Robertson (sjá mynd) og svo með Daniel, og Dan England. En þið?

föstudagur, október 21, 2005

OMG, you're OLD!

Við kíktum í kreisí party til Frosta í gær. Hann hafði boðið 100 manns eða eitthvað álíka, en sem betur fer eiga samleigjendur hans líka vini því fæstir vinir Frosta sáu sér fært að mæta (nema við Gummi af því að við erum svo geggjaðslega frábærir krakkar...og nokkrir aðrir). Við vorum reyndar bara mjög róleg þar sem við þurftum að vakna fyrir 8 í morgun (á laugardegi!!!) og undur og stórmerki þurfa að gerast um helgina námslega séð. Í heimboðinu hittum við tvo náunga sem eiga einmitt íslenskar vinkonur sem þeir ætla að heimsækja um áramótin og þær eru víst líka á leiðinni hingað út... og kannski eru þær líka að lesa þessa síðu sem væri náttúrulega bara sniðugt. Aldrei að vita með litla Ísland og enn minni bloggheima. Jæja, alla vega, þeir Brendan og Tony voru alveg fáránlega vel að sér um Ísland enda miklir aðdáendur, þeir hafa séð íslenskar bíómyndir, og vita ótrúlegastu hluti...og nú kann Tony að segja "bévítans" en ég kenndi honum það í gær (steikt, ég veit:)) en alla vega, það sem mér fannst einna sniðugast var að ég spurði Brendan hvað hann væri gamall (Tony var búinn að segja okkur að hann sjálfur væri alveg að verða 21 árs, sem er HUGE fagnaðarlæti) ok, og þá var Brendan líka 21 (pelabörn). Svo spurði hann hvort við værum svona 23, sem er náttúrulega ekkert far out, það er ekki eins og við höfum breyst mikið síðan þá... og ég tjáði honum að við værum reyndar 25. Þá gapti hann smá og sagði þessa fleygu setningu, "wow, OMG, you guys are OLD". Mér finnst reyndar frekar langt síðan ég var tvítug:/

miðvikudagur, október 19, 2005

Heimalærdómurinn

Þessi mynd var tekin í hádeginu sl föstudag en þá var ég að læra með vinum mínum fyrir eitthvað hópverkefni, frá vinstri Julio, moi, Takashi og Alvaro er næst myndavélinni (eins og ykkur sé ekki sama). Þetta græna í glösunum er kampavín blandað saman við lemon/lime ís, (slurp) en eftir að hálftíma lærdóm færðum við okkur yfir í kampavín og stútuðum tveimur flöskum og einum ísdalli á einu bretti:) Rosalega gaman að læra. Það er ekkert slor á manni hérna, ha....

mánudagur, október 17, 2005

Gestapistill

Afsakið seinkunina á gestapistlinum. Það er enginn annar en Ari Tómasson sem ríður á vaðið sem gestapenni Tótlutjattsins og hér birtist pistillinn í heild sinni. Verði ykkur að góðu:

Ég man fyrst eftir Tótlu á busaballinu mínu í MR á Tunglinu. Í gegnum þokuna áfengisþokuna sá ég súkkulaðihjúpaðan draum líða fram hjá í pæjudressinu. Þegar ég ætlaði að vippa mér upp að henni rakst ég utan í sjöttabekking með minnimáttarkennd sem kýldi mig kaldan. Alvaran tók við og á næstu vikum varð hugurinn að hafa sig allan við til að skilja muninn á hvers vegna sævi gyrtur er með y-i (ps komið af gürtel úr þýsku) en girtur (í brók) væri með einföldu. Já, það má segja að loft hafi verið lævi blandið þessa fyrstu daga - janfnvel kynngi magnað, ó sei sei já.

Aftur lágu leiðir okkar saman þegar við ákváðum bæði, að hvorugu forspurðu, að skella okkur í arabískunámskeið í kennaraverkfallinu. Ég gerði það því mér þótti svo sniðugt að heita Ari og kunna arabísku - get it?? Tótla gerði það hins vegar af því henni þótti orðið bagalegt hversu oft Arabar á ferðalagi á Íslandi buðu foreldrum hennar kamelstóð fyrir hönd hennar og vildi getað svara þeim í sömu mynt. Ahhh - good times. Þar lærðum við undir dyggri leiðsögn sýrlensku Rainu Scheherasade Kemp sem talaði óvenjukjarnyrta íslensku því hún hafði lært nær alla sína íslensku af því að horfa á Alþingissjónvarpið. „Mér þóttji hann Stjengrrímurr forrkunnarrfagurr og vörrpulegurr í fasi. Mérr hugnast að hann Júlli minn mætti setja hann á stjall" sagði hún stundum og dæsti vært. Við vorum bæði orðin langþreytt á lærdómsleysi verkfallsins þannig við lögðum mikinn metnað í að læra tungumálið og náðum við þá lítið að tengja.

Loksins kynntumst vel og við þekkjumst í dag en það var á NESU - ráðstefnunni í Türkü í Finnlandi 2002 þar sem Tótla var í jafnréttisnefnd en ég í nefndinni „NESU og nútíminn: eðalblanda eða afsökun fyrir drykkju og óeðli?" Tótla hafði verið svo sniðug að koma með Eldur&Ís vodka sem mér fannst eins og að koma með tan-spray og rip-fuel til Hellu en annað kom á daginn. Finnarnir grétu 3cl tárum vegna hreinleika og gæða vodkans. Einn þaulkunnugur gutlinu hélt því fram að íslenska gullaugað væri ástæðan fyrir þessum gæðum, sérstaklega norrlenska afbrigðið. Eftir þetta vorum við Tótla borin um í gullstól í skiptum fyrir einstaka teskeið af vodka í nefið til að halda stólaberunum gangandi. Ég stend í eilífri þakkarskuld við Tótlu fyrir þetta þar sem unnusta mín, var ein af vodkahundunum. Tótla spottaði strax hvað var að gerast og eftirlét mér botnfylli í glas og atti okkur í átt að saununni.

Drottinn minn dýrir já, við værum fátækari ef þín nyti ekki við, Tótla mín. Ég bið að heilsa Camaronum og knúsaðu hann einu sinni fyrir mig. Fast.
Ari

föstudagur, október 14, 2005

Nýr dagskrárliður tjattsins.

Lengi hefur staðið til hér á Tótlutjattinu að setja nýjan dagskrárlið í loftið. Það mun loksins gerast á morgun þegar pistill FYRSTA GESTAPENNANS mun birtast hér á sjálfu Tótlutjattinu. Nú þegar hefur myndast gífurlegur spenningur yfir þessum breytingum, enda færri sem komast að en vilja sem gestapennar. Þess ber þó að geta að ég mun ekki birta persónulega tölvupósta hér á síðunni, sama hversu mikið þið suðið í mér. Ef þið finnið einhverja asnalega stafsetningavillu í þessari færslu er það af því að ég fékk kampavín með sítrónuís í hádegismat. Lifið heil.

miðvikudagur, október 12, 2005

Netið er mitt nikótín.

Ég var með fyrstu krökkunum (eða svona nokkurn veginn) sem byrjuðu að nota internetið að ráði á Íslandi þegar einhver kona á Kópaskeri (ef ég man rétt) stjórnaði netinu, æj hvað hét þetta aftur? ...já og alla vega, þá sýndi Þórunn Traustadóttir kennari í Álftamýrarskóla okkur krökkunum hvernig þetta allt saman virkaði og ég varð svo heilluð að ég fékk að fara í Kennaraháskólann og nota netið þar. Man ekki alveg hvernig þetta var en alla vega þá var netið almennt ekki komið í heimahús né skóla á þessum tíma ('93-'94) þó hlutirnir hafi farið að gerast hratt eftir það. Einhver leyfði mér að koma í Kennaraháskólann og nota netið og svo varð ég einhvern vegin bara fastagestur þar, fékk leyfi til að nota tölvuverið eins og mér sýndist og hékk þar mikið eftir skóla, oftar en ekki með Ingibjörgu vinkonu, jafnvel fram á kvöld! Við stunduðum ircið sem á var reyndar mjög skemmtilegt þarna á upphafsárum sínum og lærðum mest allan orðaforða okkar í ensku af því að spjalla við fólk um allan heim. Ég hafði fengið tölvu í fermingargjöf frá fjölskyldunni og fékk módem fyrir hana sennilega 15 eða 16 ára (sem sagt frekar snemma). Ircið fór fljótlega að vera hundleiðinlegt svo ég gleymdi mér þess í stað að ferðast netleiðis á alla þá staði sem mig langaði að heimsækja, Afríku, Brasilíu og víðar. Klám? Neibb, vissi varla hvað það var, hahaha:) Því miður get ég ekki sagt að ég kunni mikið meira á tölvur nú en þegar ég var 14 ára (sem eru 11 ár síðan, HJÁLP) en ég get þó haldið því fram að ég er enn háðari internetinu en þá. Ég veit ekki hvernig það er að reyna að hætta að reykja, mér finnst nógu erfitt að minnka kókþambið, og ég get ekki hugsað mér líf á internetsins. Pínu sorglegt.

sunnudagur, október 09, 2005

Slen og grannar

Má eiginlega ekkert vera að þessu bloggi sökum námsins en hér kemur smá öppdeit til að halda lesendum við efnið: Gummi hefur verið duglegur að mæta í leikfimi ásamt Frosta síðustu daga og verður orðin eins og tröllmaður eftir nokkrar vikur. Ég reyni að mæta annað slagið en við skulum vona að ég breytist ekki í tröllkonu (skessu) við spriklið. Þegar ég var yngri var ég oft(ast) frekar "sloj" því ég hafði svo lágan blóðþrýsting. Mér fannst ég stundum bara líða um eins og vofa og mamma dældi í mig vítamínum, grænmeti og lakkrís til að hækka blóðþrýstingin. Svana mágkona kenndi mér líka að drekka kaffi og ég fór reglulega út að skokka. Undanfarin 3-4 ár hefur blóðþrýstingurinn verið hærri, ég hætti að skokka jafnreglulega en minnkaði ekki nammiátið. Slæmt. Jæja, en alla vega, síðustu mánuði hefur mér liðið eins og þegar ég var yngri með lága blóðþrýstingin og þá gengur hægt og illa að læra. Öss... Ég er samt að taka mig á núna... allt að gerast.

Í gærkvöldi var bankað á dyrnar hjá okkur, það var nágrannakonan okkar, Tracey og vinur hennar að kynna sig því hún flutti inn í vikunni. Hún var sennilega búin að banka upp á hjá öllum á stigaganginum (við heyrðum alltaf hláturinn í henni, fyrst í íbúð 47, svo 55 o.s.frv.) og var búin að sötra vel af kampavíni og þar af leiðandi orðin frekar kennd. Hún var reyndar mjög fyndin. Gummi fór til dyra og ég hlustaði á samtalið fyrst úr fjarlægð. Hún kynnti sig (var greinilega aðallega að forvitnast um nágrannana og hvernig þeirra íbúðir væru) og svo heyrði ég hana bara ÆPA af hrifningu yfir gardínunum okkar og sagðist vilja eins í sína íbúð. Hún stóð sem sagt í gættinni og var eitthvað að gægjast yfir öxlina á Gumma inn í íbúðina til að skoða. Þá fór ég til dyra og kynnti mig og bauð henni bara að koma að skoða íbúðina (sem var alltaf aðaltilgangur heimsóknarinnar að ég held). Hún þóttist alveg bit yfir þessu boði en þáði það að sjálfsögðu. Áður en við vissum af var þessi elska komin inn í svefnherbergi, og svo þvottahús og bara út um allt að skoða og alveg svakalega hress. Hún bauð okkur í heimsókn í sína íbúð (við hliðiná okkur) en sem betur fer höfðum við afsökun. Við vorum á leið í bíó (ég sagði það reyndar ekki við hana). Við vitum alla vega hvert skal halda langi okkur í teiti en nennum ekki út úr blokkinni:) Skál fyrir áströlsku nágrönnununum.

fimmtudagur, október 06, 2005

Tíminn

Ég er alls ekkert bitur yfir því að eldast (ég er líka bara 25 ára...svo að...) en það er bara eitt í þessu sem mér finnst frekar fúlt, ég hefði til í að vera 22 ára...(eða 23 ára því oddatölur eru svalari, jafnvel bara 21) ööörlítið lengur. Þessi tími leið aðeins of hratt og nú finnst mér ég þurfa að vera svo skynsöm og fullorðin, er í mastersnámi og þarf bráðum að leita mér að alvöruvinnu. Ohhhh, tíminn er tussa!