þriðjudagur, júní 28, 2005

Fleiri myndir

Forvitnum lesendum vil ég benda á myndaalbúmið mitt en ég hef sett þar nokkrar myndir úr Portúgalsferðinni minni. Á "Sydney síðunni" okkar Gumma eru líka myndir en við höfum verið löt við að taka myndir undanfarið en á því verður vonandi breyting í júlí þegar við ætlum að reyna að skoða okkur um nágrenni borgarinnar. Og eitt að lokum, það á að taka Tom úr sambandi áður en hann barnar Katie og elur upp fleiri svona vísindakirkjuvitleysinga. Alla vega á maður sem segir þunglyndu fólki að taka bara vítamín að halda sínum trúarbrögðum fyrir sig. Og hana nú.

sunnudagur, júní 26, 2005

Sætir...

Eins og gengur og gerist fylgjumst við Gummi mikið með hinu fjölskrúðuga mannlífi í kringum okkur hér í Sydney og urðum fljótlega sammála að mennirnir eru huggulegri en konurnar hér. Þetta er náttúrulega ekki illa meint, maður hefur bara gaman af því að skoða fólk í kringum sig...en alla vega þá fannst okkur stelpurnar svolítið svona "breskar" oft á tíðum en að sjálfsögðu eru margar bráðhuggulegar dömur hér. Sei sei. Ég tók þó fljótlega eftir því að strákarnir hérna eru ekki sætir á þann hátt að ég myndi laðast að þeim. Þeir eru sykursætir, sennilega með rakaða fótleggi og plokkaðar augabrúnir og verja eflaust mun lengri tíma en ég við að snyrta sig. Sydney er sem sagt "San Fransisco" ástralskra homma og má nefna sem dæmi að við Gummi erum sennilega í minnihluta sem gagnkynhneigt par á okkar stigagangi. Nei nú er ég kannski að ýkja en það búa alla vega tvö hommapör á okkar gangi. Því hvet ég nú alla mína samkynhneigðu vini sem vilja njóta útsýnisins, eða leita að lífsförunaut að koma í heimsókn til Sydney:) Ekki það að ég haldi að þið séuð eitthvað desperate, en ég veit að úrvalið er stundum af skornum skammti (kommon, ekki hlæja, þetta er bara staðreynd). Ég hefði alla vega ekki viljað vera hommi eða lesbía á Íslandi fyrir 20-30 árum. Þið sem eruð gagnkynhneigð eruð að sjálfsögðu líka velkomin í heimsókn, Sydney höfðar til allra.

sunnudagur, júní 19, 2005

Fratman

Við Gvendólína Ræs fórum í bíó í gær. Hann náði að lokka mig með sér á Batman með fögrum orðum eins og "það eru heilar 14 mínútur í myndinni teknar á Íslandi." Þar með var björninn unninn. Ég get ekki sagt að ég hafi skemmt mér vel í bíó. Fylltist reyndar stolti og þjóðerniskennd þessar 14 mínútur sem yfirþyrmandi jökullinn og napurlegir íslenskir móar og hraun voru á skjánum. Frú Kata Cruise sem ég minntist á í síðustu færslu fer þarna með stórt hlutverk. Fín stelpa. Annars á ég ekkert að vera að dæma þessa mynd þar sem mér leiðast yfirleitt þessar amerísku stórslysamyndir. Ég vil forðast að vera fórnarlamb skólabókardæmis um markaðssetningu söluvænna mynda sem eru gerðar til að græða sem mest á. Auðvitað myndi ég reyna að græða á kvikmyndum ef ég væri sjálf í bransanum, ég tek mig ekki svo hátíðlega að halda öðru fram, en mér finnst þeir þarna í Hollywood bara framleiða sama skítinn aftur og aftur. Því eru þessar myndir klisjukenndar og fyrirsjáanlegar. Mér leiddist svo sem ekki allan tímann yfir myndinni, en þessar myndir eru ekki minn tebolli. Margar svona Hollywood klisjumyndir eru enn frábær afþreying, ég er bara ekki mikið fyrir akkúrat þennan flokk kvikmynda (stórslysakjaftæði og framtíðar-geim-bla bla). Ég sá til dæmis ekki Day after tomorrow og ætla mér ekki að sjá War of the worlds og The island (sá auglýsingu úr þeirri seinni í gær...jeremías, ég spurði Gvend, "hver gerir svona myndir?" sá svo að það er sami framleiðandi og að Armageddon og Pearl Harbour...kom á óvart, eða þannig). Ég lofa að tala ekki meira um svona myndir í framtíðinni þar sem þær heilla mig augljóslega ekki. Ég veit samt að ég mun halda áfram að sjá einhverjar þeirra þar sem mér leiðist aldrei í bíó og þær hafa yfirleitt sína ljósu punkta, (og ég vil síður senda litla kútinn tótlulausan í bíó).

föstudagur, júní 17, 2005

Tom og Kata

Tom Cruise er genginn af göflunum, fegin er ég að vera ekki Kata. Heppilegt að halda líka blaðamannafund samdægurs bónorðinu, allt svo heppilegt, en að sjálfsögðu samgleðst maður öllum sem eru hamingjusamir. Fyndið bara hvað sumir þurfa að vera opinberlega hamingjusamir, og líka hvað sumir þurfa að flýta sér mikið. Kannski er aldurinn farinn að segja til sín hjá Tom. Kannski.