miðvikudagur, október 12, 2005
Netið er mitt nikótín.
Ég var með fyrstu krökkunum (eða svona nokkurn veginn) sem byrjuðu að nota internetið að ráði á Íslandi þegar einhver kona á Kópaskeri (ef ég man rétt) stjórnaði netinu, æj hvað hét þetta aftur? ...já og alla vega, þá sýndi Þórunn Traustadóttir kennari í Álftamýrarskóla okkur krökkunum hvernig þetta allt saman virkaði og ég varð svo heilluð að ég fékk að fara í Kennaraháskólann og nota netið þar. Man ekki alveg hvernig þetta var en alla vega þá var netið almennt ekki komið í heimahús né skóla
á þessum tíma ('93-'94) þó hlutirnir hafi farið að gerast hratt eftir það. Einhver leyfði mér að koma í Kennaraháskólann og nota netið og svo varð ég einhvern vegin bara fastagestur þar, fékk leyfi til að nota tölvuverið eins og mér sýndist og hékk þar mikið eftir skóla, oftar en ekki með Ingibjörgu vinkonu, jafnvel fram á kvöld! Við stunduðum ircið sem á var reyndar mjög skemmtilegt þarna á upphafsárum sínum og lærðum mest allan orðaforða okkar í ensku af því að spjalla við fólk um allan heim. Ég hafði fengið tölvu í fermingargjöf frá fjölskyldunni og fékk módem fyrir hana sennilega 15 eða 16 ára (sem sagt frekar snemma). Ircið fór fljótlega að vera hundleiðinlegt svo ég gleymdi mér þess í stað að ferðast netleiðis á alla þá staði sem mig langaði að heimsækja, Afríku, Brasilíu og víðar. Klám? Neibb, vissi varla hvað það var, hahaha:) Því miður get ég ekki sagt að ég kunni mikið meira á tölvur nú en þegar ég var 14 ára (sem eru 11 ár síðan, HJÁLP) en ég get þó haldið því fram að ég er enn háðari internetinu en þá. Ég veit ekki hvernig það er að reyna að hætta að reykja, mér finnst nógu erfitt að minnka kókþambið, og ég get ekki hugsað mér líf á internetsins. Pínu sorglegt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli