laugardagur, júní 17, 2006

Til sýnis

Íbúðin "okkar" var til sýnis áðan fyrir mögulega framtíðarleigjendur. Í tilefni dagsins skúruðum við gólfið, skiptum um sokka og Gummi burstaði tennurnar. Ég var pínu stressuð og langaði að skríða undir rúm þegar fólkið fór að streyma inn. Mér fannst ég vera stödd á myndlistasýningu þar sem íbúðin var málverkið (sem fólkið skoðar) en ég var bara naglinn sem málverkið hangir á. Þurfti að vera til staðar en skipti samt litlu máli. Fjandinn, þetta var versta myndlíking sem ég hef fundið upp. Æ mér fannst bara eitthvað óþægilegt að fá fullt af ókunnugu fólki stormandi hérna inn um íbúðina að skoða mitt svæði (myspace). Nóg um það. Á myndinni hér fyrir ofan erum við Erna að leika okkur með kengúruna og koalabjörnin sem hún gaf okkur. Planið var að henda þeim upp í loftið og taka svo mynd. Erna hélt á gúrunni sem svífur þarna fallega í áttina að linsunni en ég held hins vegar enn á koalanum, sennilega "alveg að fara að" henda honum upp. Já ég er sein að öllu, get ekki einu sinni sleppt koalabirni á þremur. Ef "einn, tveir og þrír" á að virka í mínu tilfelli (þ.e.a.s. gera eitthvað eins og sleppa koala á þremur) þá er betra að segja mér að sleppa á tveimur. Erna var hins vegar með þetta á hreinu, hún reyndar trompaðist við Gumma fyrir að kunna ekki að taka myndir en það er önnur saga.

Engin ummæli: