sunnudagur, júní 18, 2006

Hvalveiðar

Ian Campbell, umhverfisráðherra Ástralíu er iðinn við að rífa kjaft við hvalveiðiþjóðir. Japan og Ísland verða reglulega fyrir barðinu á honum, og nú síðast las ég í áströlskum fréttum að hann segir Japani ekki drepa hvali á mannúðlegan hátt (ég hefði kannski átt að orða þetta öðruvísi, frekar kaldhæðnisleg mótsögn í að tala um "að drepa á mannúðlegan hátt"). Ég nennti reyndar ekki að pæla mikið í þessari frétt, en að sjálfsögðu finnst mér, í öllum svona "dýraveiðum", að það eigi að gera það á snöggan og sársaukalítinn hátt. Fulltrúi Japana í alþjóðahvalveiðiráðinu svaraði þessum ásökunum og sagði að yfir 80 % dýranna væru veidd mannúðlega, og bætti svo "ætli Ian Campbell viti hvað kengúrurnar eru lengi að drepast í landinu hans?"
Nú veit ég ekki hvernig dauðdaga flestra kengúra er háttað, nema að ansi margar verða fyrir vörubílum en mér fannst þetta samt ágætur punktur. Hér eru kameldýr víst skotin úr þyrlum...las það einhvers staðar. Ekki finnst mér það mjög smekklegt. Já, hægara er að sjá flísina í augu náungans en ekki bjálkann í sínu eigin.

Engin ummæli: