Fara Bloggheimar ekki að verða útúrklukkaðir? Þetta er örugglega að klárast, en ég hef verið klukkuð af Elsu minni í Skaufabæ í Svíaríki (Skövde) og Ásdísi í Kristskirkju á Nýja Sjálandi (Christchurch). Ég segi ykkur frá þessu af því mér finnst svo sniðugt hvað allir búa alls staðar, þið skiljið. Hefst þá lesturinn:
1.
Ég horfði alltaf á Dallas með mömmu þegar ég var lítil og hélt mest upp á J.R. (af öllum mönnum) því mér fannst hann svo líkur pabba í útliti. Ég sagði mömmu meira að segja frá því og henni fannst þetta ekkert svo galin hugmynd. Ég held reyndar að pabbi hafi aldrei sett á sig kúrekahatt. Kannski ég kaupi einn handa honum hérí Oz:)
2.
Ég hef frekar lélegt jafnvægi, og ég hef örugglega sagt hér söguna af því þegar ég leigði vespu á Portúgal en flaug (tvisvar) á hausinn bara á leiðinni frá vespuleigunni, og það beint fyrir framan útiveitingastað til að tryggja mér fullt af áhorfendum. Ég fékk mold á buxurnar mínar, nokkra marbletti og sært stolt, sérstaklega þegar karlinn á leigunni kom hlaupandi niður götuna og öskraði, "YOU CAN´T DRIVE THIS, YOU WILL KILL YOURSELF" og reif af mér vespuna. Ég fékk að halda á hjálminum tilbaka, en hann tók af mér tryllitækið.
3.
Ég er undarleg blanda; dreymin og ævintýragjörn en á sama tíma óþolandi varkár og raunsæ. Dæmi: á tímabili þegar ég var lítil (5-6 ára) geymdi ég lítinn bakpoka inni í fataskáp og í honum var sokkapar og nærföt til skiptana, og eitt epli sem ég skipti út reglulega (þannig að það var alltaf ferskt en ekki úldið epli í pokanum). Þetta gerði ég bara svona til öryggis ef upp kæmi sú staða að ég þyrfti að flýja að heiman með hraði, þá gæti ég kippt þessum poka með mér og hafði tryggt það að ég yrði í hreinum sokkum, nærfötum og södd á flóttanum. Það merkilegasta við þetta er að ég átti ekki í neinum útistöðum við foreldra mína, og ekki heldur þau við hvort annað. Foreldrar mínir eru þeir mestu ljúflingar sem um getur og mér leið alltaf vel heima, þannig að ekki skil ég hvaðan hugmynd mín um að fara að heiman kom. Ævintýraþrá?
4.
Þegar ég var 11 ára (as in ELLEFU ára) prófaði ég að reykja. Mér fannst það vont. Ég hafði mikið nöldrað í settinu um að hætta að reykja, en varð eitthvað forvitin og ákvað bara að prófa, ein inni í herbergi...nokkrum sinnum. Á meðan allir voru að reyna að hætta að reykja, reyndi ég að byrja:) Þetta var meira svona forvitni samt og mér fannst þetta alveg óóógeðslegt. Mamma kom svo einn daginn inn í herbergi og fattaði hvað ég hafði verið að gera. Hún átti erfitt með að fara ekki að hlæja, þegar litli engillinn játaði sekt sína, og lofaði að segja pabba ekki frá þessu (ég skammaðist mín svo mikið og bað hana um að þegja yfir þessu). Það er skemmst frá því að segja að móðir mín stóð ekki við loforðið. Hún stóðst ekki mátið og kjaftaði í pabba (ég heyrði það). Þau sátu í stofunni og voru að horfa á Derrick og svona var samtalið:
Elva: heyrðu, heldurðu að ég hafi ekki komið að Tótlu að reykja í dag!
Birgir: ha? (mjög hissa) nú er það? hahaha
Elva:já hahaha.
Svo héldu þau áfram að horfa á Derrick og ræddu þetta ekki frekar enda höfðu þau litlar áhyggjur af því að ég reyndi þetta oftar.
5.
Hins vegar finnst mér pínu gott að taka í vörina, þó ég hafi ekki gert það oft, en það er svona spari hjá okkur Söndru. Ekki segja samt mömmu og pabba:)
Þá er það komið. Nú ætla ég að klukka Palla, Gumma Hlí (á Sydney síðunni okkar), Steingrím Dag (hann er reyndar 1 1/2 árs), Védísi og Ingibjörgu Ýr:) Þið ráðið hvort þið afgreiðið þetta í kommentum hér eða á síðunum ykkar. Sem sagt að segja frá einhverjum 5 tilgangslausum staðreyndum um ykkur sjálf:)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli