mánudagur, september 05, 2005
Drullað upp á bak...
Það er nokkuð ljóst hver drullaði upp á hnakka í síðustu viku. Hann heitir George og er forseti eina stórveldis heimsins, Bandaríkjanna. Allir vita hvað gerðist þar í síðustu viku, og það sem meira er... að þeir höfðu átt von á þessu í langan tíma. Þið vitið kannski líka að að það birtist grein í New Orleans Times árið 2002 þar sem var útskýrt hvað myndi gerast ef/þegar fellibylur kæmi. Til að gera langa sögu stutta þá hljómaði sú grein meira eins og tveggja daga gömul frétt en þriggja ára blaðagrein. Þeir vissu að varnargarðarnir myndu lílega bresta, og að borgin myndi fara á flot. Þeir vissu líka að fórnarlömb yrðu flutt til dæmis á Superdome leikvanginn til að taka smá dæmi úr þessari grein. Hins vegar, þegar á reyndi stóðu yfirvöld sig vægast sagt hræðilega. Maður spyr sig af hverju (fyrst þeir sáu fram á hversu mikið ofsaveður var í nánd og einnig að varnargarðarnir kynnu að bresta) þeir skipulögðu ekki betur brottflutning borgarbúa til dæmis með rútuferðum. Það eiga alls ekki allir einkabíl, né hafa efni á farmiðum burt. Auk þess er ekki hægt að gera ráð fyrir allir (sökum fávisku, fátæktar og lítillar menntunar) geri sér grein fyrir alvarleika málsins. Mér finnst fólki hafa verið mismunað þarna stórlega þar sem hinir hraustu og ríku voru í þessu tilviki mun líklegri til að ná að forða sér burt. Það er merkilegt að fylgjast með viðbrögðum þessarar ríku stórþjóðar, sem gerir svo mikið úr eigin ágæti, á svona hræðilegri stundu. Þegar allt kemur til alls klórar forsetinn sér bara í hausnum og flýgur til Kaliforníu að hitta einhverja bisnessfélaga (fellibylurinn var víst ekki á fundarplaninu) og segir svo hluti á borð við: "I think the folks in the affected areas are going to be overwhelmed when they realize how many Americans want to help them." (tekið af www.whitehouse.gov) Já, ég veit ekki hversu "overwhelmed" fórnarlömbin verða eftir margra daga bið við glæpi, hungur og vosbúð. Ég veit ekki hvar allir þessir hjálpsömu Ameríkanar voru í síðustu viku. Alla vega ekki í New Orleans. Ég veit vel að margir sýndu ótakmarkaða hjálpsemi og að Bandaríkjamenn eru mjög óeigingjarnir þegar kemur að því að aðstoða bágstadda en samt réðu þeir ekki við þessar hamfarir sem þeir höfðu átt von á svo lengi. Hvernig hefði verið að koma upp vatns og matarbirgðum á Superdome? Það er ekki þjóðin sjálf sem er að bregðast þarna, heldur yfirvöldin sem þau hafa kosið sér. Ég gæti talað endalaust um þetta en ég ætla að sleppa því. Tótla er reið!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli