föstudagur, september 30, 2005

Kvikmyndir

Ég skil ekki hvað fólk hefur á móti Dirty Dancing. Ég sá hana aftur um daginn og fannst hún jafnæðisleg og þegar ég var 7 ára en þá hlustuðum við Ingibjörg meira að segja oft á plötuna með tónlistinni úr myndinnni. Og hvað þá La Bamba! Ég á hana núna á DVD og ég táraðist enn einu sinni í lok myndarinnar, alveg eins og í öll hin skiptin sem ég sá þá mynd. Para a bailar la bamba,... eða lalalalalaLaBamba eins og maður söng:) Þetta eru tvær toppmyndir. Sem og "Nadia", bíómyndin um hina rúmensku Nadiu sem varð Ólympíumeistari í fimleikum aðeins 14 ára gömul. Við Bryndís horfðum á hana svona einu sinni í viku í tvö eða þrjú ár. Hef reyndar ekki séð hana síðan þá. Við Gummi fórum til Melbourne á mánudaginn og komum heim í gær en þar neyddumst við (algjörlega gegn vilja okkar) til að sjá tvær vægast sagt ömurlegar myndir því við höfðum séð allt annað í bíó og höfðum ekkert að gera. Sú fyrri var Dukes of Hazzard, en til að útskýra ömurleika þeirra myndar, þá er Jessica Simpson hriiiikaleg leikkona (þrátt fyrir fagran kroppinn) en hinir leikararnir eru jafnlélegir. Þetta var pínlega lélegt. Ég losnaði við kjánahrollinn í gærmorgun loksins. Hin slæma myndin er Deuce Bigalow: European Gigalo. Hún var líka vond en ég gat hlegið meira að þeirri dellu. Áður en við fórum til Melbourne sáum við reyndar Wallace and Gromit og hún er FRÁBÆR. Hef ekkert meira um þá mynd að segja, bara fráááábær:) ok, ciaooooooo.

laugardagur, september 24, 2005

Klukkið

Fara Bloggheimar ekki að verða útúrklukkaðir? Þetta er örugglega að klárast, en ég hef verið klukkuð af Elsu minni í Skaufabæ í Svíaríki (Skövde) og Ásdísi í Kristskirkju á Nýja Sjálandi (Christchurch). Ég segi ykkur frá þessu af því mér finnst svo sniðugt hvað allir búa alls staðar, þið skiljið. Hefst þá lesturinn:
1.
Ég horfði alltaf á Dallas með mömmu þegar ég var lítil og hélt mest upp á J.R. (af öllum mönnum) því mér fannst hann svo líkur pabba í útliti. Ég sagði mömmu meira að segja frá því og henni fannst þetta ekkert svo galin hugmynd. Ég held reyndar að pabbi hafi aldrei sett á sig kúrekahatt. Kannski ég kaupi einn handa honum hérí Oz:)

2.
Ég hef frekar lélegt jafnvægi, og ég hef örugglega sagt hér söguna af því þegar ég leigði vespu á Portúgal en flaug (tvisvar) á hausinn bara á leiðinni frá vespuleigunni, og það beint fyrir framan útiveitingastað til að tryggja mér fullt af áhorfendum. Ég fékk mold á buxurnar mínar, nokkra marbletti og sært stolt, sérstaklega þegar karlinn á leigunni kom hlaupandi niður götuna og öskraði, "YOU CAN´T DRIVE THIS, YOU WILL KILL YOURSELF" og reif af mér vespuna. Ég fékk að halda á hjálminum tilbaka, en hann tók af mér tryllitækið.

3.
Ég er undarleg blanda; dreymin og ævintýragjörn en á sama tíma óþolandi varkár og raunsæ. Dæmi: á tímabili þegar ég var lítil (5-6 ára) geymdi ég lítinn bakpoka inni í fataskáp og í honum var sokkapar og nærföt til skiptana, og eitt epli sem ég skipti út reglulega (þannig að það var alltaf ferskt en ekki úldið epli í pokanum). Þetta gerði ég bara svona til öryggis ef upp kæmi sú staða að ég þyrfti að flýja að heiman með hraði, þá gæti ég kippt þessum poka með mér og hafði tryggt það að ég yrði í hreinum sokkum, nærfötum og södd á flóttanum. Það merkilegasta við þetta er að ég átti ekki í neinum útistöðum við foreldra mína, og ekki heldur þau við hvort annað. Foreldrar mínir eru þeir mestu ljúflingar sem um getur og mér leið alltaf vel heima, þannig að ekki skil ég hvaðan hugmynd mín um að fara að heiman kom. Ævintýraþrá?

4.
Þegar ég var 11 ára (as in ELLEFU ára) prófaði ég að reykja. Mér fannst það vont. Ég hafði mikið nöldrað í settinu um að hætta að reykja, en varð eitthvað forvitin og ákvað bara að prófa, ein inni í herbergi...nokkrum sinnum. Á meðan allir voru að reyna að hætta að reykja, reyndi ég að byrja:) Þetta var meira svona forvitni samt og mér fannst þetta alveg óóógeðslegt. Mamma kom svo einn daginn inn í herbergi og fattaði hvað ég hafði verið að gera. Hún átti erfitt með að fara ekki að hlæja, þegar litli engillinn játaði sekt sína, og lofaði að segja pabba ekki frá þessu (ég skammaðist mín svo mikið og bað hana um að þegja yfir þessu). Það er skemmst frá því að segja að móðir mín stóð ekki við loforðið. Hún stóðst ekki mátið og kjaftaði í pabba (ég heyrði það). Þau sátu í stofunni og voru að horfa á Derrick og svona var samtalið:
Elva: heyrðu, heldurðu að ég hafi ekki komið að Tótlu að reykja í dag!
Birgir: ha? (mjög hissa) nú er það? hahaha
Elva:já hahaha.
Svo héldu þau áfram að horfa á Derrick og ræddu þetta ekki frekar enda höfðu þau litlar áhyggjur af því að ég reyndi þetta oftar.

5.
Hins vegar finnst mér pínu gott að taka í vörina, þó ég hafi ekki gert það oft, en það er svona spari hjá okkur Söndru. Ekki segja samt mömmu og pabba:)

Þá er það komið. Nú ætla ég að klukka Palla, Gumma Hlí (á Sydney síðunni okkar), Steingrím Dag (hann er reyndar 1 1/2 árs), Védísi og Ingibjörgu Ýr:) Þið ráðið hvort þið afgreiðið þetta í kommentum hér eða á síðunum ykkar. Sem sagt að segja frá einhverjum 5 tilgangslausum staðreyndum um ykkur sjálf:)

fimmtudagur, september 22, 2005

Tiltekt

Þá hafa enn fleiri aumingjabloggarar fengið að taka pokann sinn og snauta af linkalistanum. Það þurfti að rýma til svo aðrir snillingar kæmust að. Ég mæli með að þið kíkið á þessi blogg. Ingibjörg Ýr, mín besta æskuvinkona segir frá sér og dóttur sinni, Guðbjörgu Ísabel. Ég var með þeim fyrstu sem sáu Guðbjörgu þegar hún kom í heimin fyrir 2 1/2 ári síðan og er enn að monta mig að því. Hún var eins og lítill monsi:) Ásdís á NZ er einmitt á Nýja Sjálandi (ef þið voruð ekki að fatta þetta NZ). Ef hún er ekki að príla einhvers staðar þá er hún að hjóla eða ég veit ekki hvað. Rosalegur kraftur í henni, viðvörun: þið upplifið ykkur svakalega löt við lestur bloggsins hennar. Letihaugarnir ykkar! Og....Þorsteinn og Hallgrímur DAÐASYNIR eru tvíburar sem fæddust í borginni við sundið þann 7.júlí sl. Guðrún Jónsdóttir (betur þekkt sem hænsnadansmeistarinn) er móðir þeirra, og þau eru svolítið dönskt. Mjög skemmtilegt hvernig þau (Guðrún og Daði) sletta alltaf smá á dönsku. Alveg hreint dejligt:) Kíkkið á þetta... ég var klukkuð af Elsu og Ásdísi á NZ og mun svara því við fyrsta tækifæri, þarf aðeins að fara á ströndina. Seinna.

þriðjudagur, september 20, 2005

Fortíðarþrá

Ég hefði átt að heita Nostalgía en ég veit ekki hvað mannanafnanefnd myndi segja um það. Þó ég reyni að lifa í núinu, horfa fram á veginn (og allt það) þá finnst mér rosalega gaman að hugsa tilbaka, og helst nógu langt tilbaka. 12 ára ('92) tímabilið er til dæmis mjög fyndið og pínlegt á sama tíma. Ég vil alls ekki gleyma því og finnst alltaf jafn sniðugt að rifja það upp. Meðal þess sem ég man best eftir eru:
-Böllin í Tónabæ á laugardögum milli 18 og 20. Maður var kominn heim af tjúttinu áður en Spaugstofan byrjaði:) Ég fór reyndar ekki oft, en þegar ég fór var ég ROSALEG (vægast sagt) í hipphoppinu:)
-LA Gear-skór. Mínir voru hvítir með gulum reimum, en Gummi átti víst LA Gear skó með mynd af Michael Jackson! ahahahahaha!!!
-Hiphop dansinn. Ég er enn með þessa takta á hreinu og er alltaf til í að taka sporið. Ég man að Guðrún Jóns var frekar svakaleg þegar kom að "hænsnadansinum". Ég get ekki lýst þessu betur en svo að hendurnar gengu svona upp og niður eins og þegar maður leikur hænu (við höfum nú öll gert það) nema að Guðrún mín ýkti hreyfingarnar ööörlítið. Nú er hún orðin tvíburamamma og getur kennt þeim Hallgrími og Þorsteini hænsnadansinn eftir nokkur ár.
-Gallabuxur í öllum regnbogans litum. Ég man best eftir þessum fjólubláu og myntugrænu. Einnig voru appelsínugular mjög heitar. Mig minnir að merkið hafi verið Jees (ekki jeans) en ég man það ekki. Þess ber að geta að ég var aldrei svo svöl, ekki frekar en í dag (ég held ég hafi ekki nennt því) og átti aldrei svona litaðar gallabuxur, ég fékk mér buxur í sama merki en þær vor drapplitaðar og úr riffluðu flaueli:)
-Beltissylgjurnar! Er ekki annars yppsilon í því? Þær, eins og sumt sem ég nefni hér, komust í tísku fyrir '92, sennilega um '89, og voru vinsælar um árabil. Ég man best eftir Levis týpunni og blóminu, en ég átti reyndar aldrei svona fínerí.
-Levis eins og það lagði sig. Sumar vinkonur mínar eru ENN fúlar við foreldra sem voru beðnir um að kaupa Levis 501 gallabuxur í Ameríkuferðalögum...og komu heim með Levis 550 eða eitthvað álíka. WOW! Slíkar brækur þóttu ónothæfar.
-Mussurnar. Hálfur bærinn leit út eins og Inkar frá Andesfjöllum í risastórum, litríkum ofnum mussum. Ég átti ekki þannig mussu en Ingibjörg Ýr var algör gella í sinni. Óli bróðir keypti svo rosalega flotta mussu á mig á einhverjum markaði í Amsterdam. Synd að hún er orðin of lítil á mig.
-Gardínuhárgreiðslan, jebb, allar með skipt í miðju og strákarnir með pottaklippingu:)
-Útvíðar buxur, jafnvel röndóttar í skrilljón litum.
-Ég man sérstaklega vel eftir því þegar ég tók þá ákvöðrun að verða aaaðeins meiri gella og skundaði mér í Sautján í Kringlunni. Þar fjárfesti ég í gríðarlegum bomsum, þetta voru háhælaðir skór (frekar háir) með korkhæl. Algjörir pæjuskór í anda 6. og 7.áratugarins. Gellurnar í Mamas and the papas hefðu slefað af öfund. Mamma og pabbi hins vegar sprungu úr hlátri þegar þau sáu litlu telpuna sína í þessu. Ég var 14 ára og leit út eins og fáviti á þessum skóm. Hvað var afgreiðslufólkið að pæla? Eins og alltaf hlustaði ég á forleldra mína og fór og skipti korkbomsunum út fyrir skynsamlegra skótau.
-Hekluð vesti eða prjónavesti yfir rúllukragabol ...þetta var allt frekar hippalegt, svona í bland við hip hop tónlistina sem við hlustuðum á. Kannski misskildum við eitthvað orðið "hiphop".
Snap, 2Unlimited, Nirvana, Pearl Jam, Snow- kanadíski rapparinn sem samdi lagið "Informer" í fangelsi ef ég man rétt...og söng með Jamaíka hreim (ahahaha). Jæja man ekki eftir fleiri tónlistarmönnum í bili. Snow átti það varla skilið að ég myndi eftir honum.
-Bekkjarparty! Ég man best eftir einu hjá Þóreyju, sennilega í 11 ára bekk, þar sem við dönsuðum við New Kids on the Block allt kvöldið og meira að segja vönguðum! Það hefði mátt koma síldartunnu á milli þeirra sem stunduðu vangadansinn:) Ef það var skíðaæfing hjá mér sama kvöld og bekkjarparty, þá fór ég frekar á æfingu. Steik.

Ég ætla að segja þetta gott í bili, kem með meiri nostalgíu í næstu færlsu, þarf bara að losa mig við þetta. Hér til gamans kemur svo textinn að hinum frábæra smelli, "Informer" eftir Snjókarlinn, ég mæli með að þið sækið ykkur lagið og syngið svo með. Njótið:

Informer You know say daddy me snow me-a (gonna) blame A licky boom-boom down 'Tective man he say, say Daddy Me Snow me stab someone down the lane A licky boom-boom down Police-a them-a they come and-a they blow down me door One him come crawl through through my window So they put me in the back the car at the station From that point on I reach my destination Well the destination reached in down-a East detention Where they whip down me pants look up me bottom [CHORUS] Bigger they are they think they have more power There on the phone me say that on hour Me for want to use it once and-a me call me lover Lover who me callin'-a the one Tammy And me love her in my heart down to my belly-a Yes say Daddy Me Snow me I feel cool and deadly Yes the one MC Shan and the one Daddy Snow Together we-a love 'em(?) as a tornado [CHORUS] Listen to me ya better listen for me now Listen to me ya better listen for me now When-a me rock-a the microphone, me rock on steady-a Yes-a Daddy Me Snow me are the article don But the in an a-out (?) a dance an they say, "Where ya come from?" People them say I come from Jamaica But me born and raised (in the ghetto) I want ya to know-a Pure black people man thats all I man know Yeah me shoes are-a tear up an-a my toes used to show-a Where me-a born in-a the one Toronto [CHORUS] Come with a nice young lady Intelligent, yes she gentle and irie Everywhere me go me never lef' her at all-ie Yes-a Daddy Snow me are the roam dance man-a Roam between-a dancin' in-a in-a nation-a You never know say Daddy Me Snow me are the boom shakata Me never lay-a down flat in-a one cardboard box-a Yes-a Daddy Me Snow me-a go reachin' out da top [CHORUS] Why would he? [repeat] [MC Shan:] Me sittin round cool with my jiggy jiggy girl Police knock my door, lick up my pal Rough me up and I cant do a thing Pick up my line when my telephone ring Take me to the station, black up my hands Trail me down 'cause I'm hangin with the Snowman What an I gonna do, I'm backed and I'm trapped Smack me in my face, took all of my gap They have no clues and they wanna get warmer But Shan won't turn informer

laugardagur, september 17, 2005

Lon og Don

You Belong in London

A little old fashioned, and a little modern. A little traditional, and a little bit punk rock. A unique woman like you needs a city that offers everything. No wonder you and London will get along so well. What City Do You Belong in? Take This Quiz :-) Find the Love of Your Life (and More Love Quizzes) at Your New Romance.

fimmtudagur, september 15, 2005

Drengur Britneyjar Kevinsson er fæddur.

Ég vil hvetja alla lesendur Tótlutjattsins nær og fjær til að fara á heimasíðu poppgyðjunnar, www.britneyspears.com og senda heillaóskir til nýbökuðu foreldranna. Segja ekki allir á barnalandi, "til hamingju með litla prinsinn" við svona tækifæri? Já, skrifið eitthvað svoleiðis, "congratulations with your little prince" því Óskírður Kevinsson er ekki enn kominn með nafn. Þessi síða er æði! Veitið blöðrunum sérstaka eftirtekt:)

þriðjudagur, september 13, 2005

Heia Norge

Undarlegar fréttir berast frá mínum ástkæra Noregi. Aldrei hefur verið meiri hagsæld þar en einmitt nú, og hvað gerist í gær í kosningunum? Ríkisstjórnin fellur! Ok, ég veit akkúrat ekkert um Stortinget eins og mig minnir að það heiti eða gang mála þarna og ætla ekki að drepa ykkur úr leiðindum, en ég get ekki annað en nuddað augun og lesið aftur þegar ég les fréttirnar vitandi að Noregur hefur blómstrað á síðasta kjörtímabili (eftir því sem ég best veit). Hvað vill fólk eiginlega? Ég man í kosningafjörinu í HÍ þá vorum við stundum að spauga með svona klisjukennd kosningarloforð okkar á milli. "Frí á föstudögum!" "ókeypis bjór öll hádegi í Odda!" "nuddpott í Aðalbyggingu!" "ljósastofu í anddyri Háskólabíó!" og þar fram eftir götunum:) því stundum spyr maður sig, hvað vill fólk eiginlega. Og í þessu tilviki með Noreg núna, af hverju að laga það sem er ekki bilað? þið skiljið. En ég var nú að enda við að uppljóstra fáfræði minni um norsk stjórnmál þannig að kannski er eitthvað sem ég veit ekki. Var Bondevik gómaður í LA með portkonu kannski í fyrra? Jeg vet ikke:)

mánudagur, september 05, 2005

Drullað upp á bak...

Það er nokkuð ljóst hver drullaði upp á hnakka í síðustu viku. Hann heitir George og er forseti eina stórveldis heimsins, Bandaríkjanna. Allir vita hvað gerðist þar í síðustu viku, og það sem meira er... að þeir höfðu átt von á þessu í langan tíma. Þið vitið kannski líka að að það birtist grein í New Orleans Times árið 2002 þar sem var útskýrt hvað myndi gerast ef/þegar fellibylur kæmi. Til að gera langa sögu stutta þá hljómaði sú grein meira eins og tveggja daga gömul frétt en þriggja ára blaðagrein. Þeir vissu að varnargarðarnir myndu lílega bresta, og að borgin myndi fara á flot. Þeir vissu líka að fórnarlömb yrðu flutt til dæmis á Superdome leikvanginn til að taka smá dæmi úr þessari grein. Hins vegar, þegar á reyndi stóðu yfirvöld sig vægast sagt hræðilega. Maður spyr sig af hverju (fyrst þeir sáu fram á hversu mikið ofsaveður var í nánd og einnig að varnargarðarnir kynnu að bresta) þeir skipulögðu ekki betur brottflutning borgarbúa til dæmis með rútuferðum. Það eiga alls ekki allir einkabíl, né hafa efni á farmiðum burt. Auk þess er ekki hægt að gera ráð fyrir allir (sökum fávisku, fátæktar og lítillar menntunar) geri sér grein fyrir alvarleika málsins. Mér finnst fólki hafa verið mismunað þarna stórlega þar sem hinir hraustu og ríku voru í þessu tilviki mun líklegri til að ná að forða sér burt. Það er merkilegt að fylgjast með viðbrögðum þessarar ríku stórþjóðar, sem gerir svo mikið úr eigin ágæti, á svona hræðilegri stundu. Þegar allt kemur til alls klórar forsetinn sér bara í hausnum og flýgur til Kaliforníu að hitta einhverja bisnessfélaga (fellibylurinn var víst ekki á fundarplaninu) og segir svo hluti á borð við: "I think the folks in the affected areas are going to be overwhelmed when they realize how many Americans want to help them." (tekið af www.whitehouse.gov) Já, ég veit ekki hversu "overwhelmed" fórnarlömbin verða eftir margra daga bið við glæpi, hungur og vosbúð. Ég veit ekki hvar allir þessir hjálpsömu Ameríkanar voru í síðustu viku. Alla vega ekki í New Orleans. Ég veit vel að margir sýndu ótakmarkaða hjálpsemi og að Bandaríkjamenn eru mjög óeigingjarnir þegar kemur að því að aðstoða bágstadda en samt réðu þeir ekki við þessar hamfarir sem þeir höfðu átt von á svo lengi. Hvernig hefði verið að koma upp vatns og matarbirgðum á Superdome? Það er ekki þjóðin sjálf sem er að bregðast þarna, heldur yfirvöldin sem þau hafa kosið sér. Ég gæti talað endalaust um þetta en ég ætla að sleppa því. Tótla er reið!

sunnudagur, september 04, 2005

101 (2016) Sydney

Það var svo fínt veður í síðustu viku þannig að það leit út fyrir að ég gæti farið að klæðast 3/4 brókum og pilsum, svo mín bara skellti sér í vax til að hrella ekki Sydneybúa með loðnum löppum. Það er skemmst frá því að segja að vaxið var jafnvont og alltaf, ef ekki verra. Reyndar finnst mér það yfirleitt ekki svo slæmt, kannski var gumsið farið að kólna hjá snyrtingarskvísunni. Áts... Beauty is pain! Ég hef ekki enn náð að bera kálfana fyrir fröken Sól því hún er í felum á bakvið herra Ský ...alveg síðan ég fór á sjálfspíningarstofuna í fyrradag. Í gær fórum við svo að kanna húsnæðið hans Frosta ásamt öðru fólki sem ég þekkti ekki og var þarna í sömu erindagjörðum. Á meðan við tókum höllina út, borðuðum við grillmat og sötruðum vín. Höllin var vægast sagt glæsileg og við Gummi munum henda inn myndum frá þessu skemmtilega innliti á hitt bloggið okkar við fyrsta tækifæri. Eini gallinn á gjöf Njarðar (í þessi tilfelli höll Frosta) er að hún er stödd lengst upp í Chatswood West sem á Sydneymælikvarða telst nokkuð miðsvæðis (þetta er svo stóóór og úúútbreidd borg) en okkur miðbæjarmýslunum fannst þetta vera lengst í burtu. Við erum hálfgerðir 101 miðbæjarplebbar og munum framvegis kalla Frosta "dreifara". Jæja, fleira var það bara ekki í bili, salut!