Möguleikar
Það erfiðasta við að vera ung kona (hehe) í dag eru möguleikarnir! Það er alltof mikið í boði. Ég er reyndar ekki að drukkna í atvinnutilboðum frekar en aðrir en ég get ekki fundið út hvað ég vil verða þegar ég verð stór. Ég tel að ég eigi enn eftir að uppgötva hæfileika á ýmsum sviðum. Ég er kannski ekki vitavonlaus og á mér alveg von en sérstakir hæfileikar hafa eitthvað látið á sér standa. "Hey...hæfileikar, ekki vera feimnir"...
Ég reyndi nokkrar íþróttagreinar og fannst þær flestar mjög skemmtilegar en var samt frekar léleg í öllu. Ég náði í mesta lagi bronsi á innanfélagsmóti í ÍR á skíðum, kannski gulli ef það var aðeins einn annar keppandi. Mér var sem sagt ekki ætlað að verða íþróttastjarna þó ég hefði gaman af spriklinu. Mér finnst líka mjög gaman að syngja og syng yfirleitt mikið með útvarpinu en þegar einhver lækkar í því heyri ég hversu hræðilegur söngvari ég er. Raddsviðið nær yfir eina áttund svo ég get líka gleymt poppstjörnudraumum.
Það sem ég hef mestar áhyggjur af er að í mér búi duldir hæfileikar sem ég hef ekki enn uppgötvað og mun jafnvel aldrei gera. Kannski hefði ég orðið frábær banjóleikari eða nautabani. Möguleikarnir eru svo margir og það er erfitt að velja. Allar hugmyndir og ábendingar vel þegnar:)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli