fimmtudagur, janúar 16, 2003

Rækjur til sölu, kosta eina tölu
Vestfirsk úthafsrækja (ein, rosalega stór) til sölu, 2.5 kg poki á 2400 krónur. Tilvalið á ristað brauð, í kokteilinn, oní tartalettur, í hlaup, og þar fram eftir götunum.
En enn bætast vinir mínir í heimasíðubrjálæðið. Áslaug Ósk, og Óskar tilvonandi eiginmaður hennar eignuðust hana Þuríði Örnu í maí (en hún hét ekkert akkúrat þá). Þuríður Arna er næg ástæða til að kíkja á þessa síðu þó maður viti ekkert hver þessi Áslaug er, nú og hvað þá Óskar. Nei djók. Við Slauga kynntumst i den þegar hún bjó á móti Önnu Björk stóru systur, mamma hennar passaði meira að segja Birgi Stein, OG við unnum saman á Ávaxtalagernum í Hagkaup, those were the days my friend. Þá var ég 15 en hún 18, og við urðum strax svo góðar vinkonur. Það kom að því að Tótla varð 17 og fékk bílpróf, og ekki enn byrjuð að drekka alkóhól. Áslaug var reynd í bransanum, orðin 20 ára og gat notið góðs af bindindi mínu lengi. Mörg ár í röð keyrði ég skíthrædd á annan í jólum á Selfoss til að fara á jólaball með Sálinni... Áslaug var þá venjulega syngjandi "og heltu í glasið aftur..." í farþegasætinu. Einu sinni notaði hún bjórflöskuna sem míkrafón og var að syngja þetta þegar ég keyrði í holu á brúni á Selfossi. Bjórflaskan skall á framtennur Áslaugar og brotnaði ein þeirra. Agalegt, sérstaklega þar sem við vorum á leið Á ballið... hefði verið skárra ef við hefðum bara verið á heimleið. Að lokum mæli ég með smá rugli. Hvað er málið? Ég vildi samt óska að ég væri jafnkynþokkafull og gæti sungið sexy eins og Leoncie...sexy loverboy...

Engin ummæli: