sunnudagur, september 01, 2002
Ljóst er eftir tilkynninguna um lundabréfsefnin hversu gífurlega mikill máttur Tótlutjattsins er því þau gjörsamlega ruku út eins og heitar lummur, eða kleinur og heitt kakó. En nóg um það, skólinn er að hefjast og ég veit ekki hvort ég sé alveg tilbúin. Ég hlakka til á hverju hausti og legg leið mína í bókaverslanir borgarinnar til að kaupa nýtt strokleður, límmiða, túss, plastmöppur og sa videre. Málið er að ég á erfitt með að ákveða hvaða kúrsa skal taka og hef lofað mér kannski í fullmikil félagsstörf og vinnu. Fyrir þá sem ekki fylgjast með þá er ég háttvirtur formaður Kólumbusar heppna (félag spænskunema, fyrir þá sem ekkert vita) og meðstjórnandi í Vöku. Veturinn sem sagt stefnir í að vera hörkuskemmtilegur með suðrænni stemmningu og skemmtilegu Vökustarfi og líka muy erfiður. Ég þarf sennilega bara að skipuleggja mig vel svo námið fari ekki fjandans til. Annars sé ég fram á að einn daginn um miðjan október, þegar ég á eftir að lesa kannski eina skáldsögu, skipuleggja spænskt kvöld, fara á fund, hef vanrækt vini mína og hef orðið fyrir árás 100 kínverja í Rammagerðinni sem heimta afslátt, fari ég bara að grenja! En auðvitað eru þetta óþarfaáhyggjur því þær Sigrún Lóa og Klara ætla að vera með mér í stjórn Kólumbusar, og mér finnst þetta allt svo svakalega gaman og veit að margir hafa miklu meira að gera en ég. Það koma kannski tveir, þrír "sviðnir dagar" eins og Sigga Víðis, kollegi minn úr Rammó segir. Hún er af Skaganum. Þá held ég að ég hafi skrifað nóg í bili, bless og takk, ekkert snakk.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli