föstudagur, febrúar 07, 2003

Sei sei...og fleira til
Í gær fór ég á alþjóðakvöld í Stúdentakjallaranum og það var svo gaman, nei meira svona svooooo gaman. Þau eru alltaf í stuði útlendingarnir, því ég held svei mér þá að það sé helst einmitt þarna, á alþjóðakvöldunum fyrsta fimmtudag í hverjum mánuði sem það myndast almennileg háskólastemning hér á landi. Jú, nýnemavikan, stúdentadagurinn og og menningardagarnir voru náttúrulega frábærir og þá var góð stemning, en það vantar svo hérna þessa afslöppuðu háskólastemningu sem ég fékk aðeins að kynnast í Salamanca forðum daga. Það að fara út (og ekki hafa sig eitthvað sérstaklega til fyrir það) á fimmtudagskvöldum, fá sér bjór eða kaffi á kaffihúsum og tralla saman. Ég sem sagt kom heim í miklu nostalgíukasti í gær.
Eins og sennilega allir hafa tekið eftir þá hef ég ekki farið í klippingu svo mánuðum skiptir en nú verður breyting þar á, ég hef ákveðið að láta undan miklum þrýstingi og láta skerða hár mitt í fyrramálið, spennandi að sjá hvað hann Svavar minn vill gera við mig. Að öllum líkindum verð ég gjörsamlega óþekkjanleg um hádegi á morgun, jú ég er vön að gera eitthvað róttækt þegar ég fer í klippingu. Kannski ég þurfi bara að skipta um mynd af mér hér á síðunni. góða helgi!

Engin ummæli: