laugardagur, febrúar 22, 2003

"Líf mitt með Vöku" ...ævisaga ungrar konu í framboði
...einnig fáanleg á hljóðbókarformi innan skamms. Nei ég segi svona, veit ekki af hverju mér datt þetta í hug, kannski af því að mér finnst alltaf svo asnalegt þegar ungt fólk gefur út ævisögu sína. Kannski líka af því að mér finnst líf mitt snúast mikið um hagsmunabaráttu stúdenta þessa dagana, sem er mjög gott mál. Margir spyrja mig hvernig í ósköpunum ég nenni þessu, en ég skil ekki hvernig er ekki hægt að ekki nenna þessu, eða ekki, eða öfugt, þið skiljið. Hvernig er hægt að kvarta yfir hinu og þessu en gera ekkert í því? Nú það er alltaf hægt að kjósa rétt, og treysta rétta fólkinu til að taka málin í sínar hendur. Þetta fer að verða manni svo mikið hjartansmál að það að hrópa stefnuskrána oní leiðinlega indverska lagið á Astró á föstudagskvöldi fyrir áhugasama er bara alveg sjálfsagt. Ég er kannski ekkert mikið að þylja hana svo sem, en jú, stúdentar láta sig málin varða svona þegar líður að kosningum og stoppa mann á förnum vegi með skemmtilegar spurningar í pokahorninu, og það er í raun svakalega gaman og dýrmætt. Við sem ætlum að ná meiri árangri í hagsmunabaráttu stúdenta verðum náttúrulega að heyra frá nemendum sjálfum hvað þeim finnst um hitt og þetta. Mig er farið að dreyma lykilkortakerfi, próf.is og hljóðbókarsjóð. Svo rekst maður á tjáningar fólks sem hefur séð okkur í stofugangi á bloggferðalögum sínum:) Ungur maður að nafni Gunni Palli er einn þeirra, hehehe, gaman að lesa þetta. Athyglisvert að stundum nefnir fólk sama hlutinn ýmist sem kost eða löst, hlutlaust dæmi myndi hljóða svo:
Nonni; frábært hvað þessi peysa er gul, ég elska svona líflega og fallega liti!
Manni; alveg hrikalegt hvað þessi peysa er gul, maður fær bara ofbirtu í augun.
Nei, ég mun seint fá Pulitzer verðlaun fyrir þennan pistil, hvað þá þetta litla dæmi, datt ekkert annað í hug:/ Önnur manneskja sem tjáði sig um stofuganginn er hún Katrín litla badmintonstelpa, hún æfði einmitt með Slaugu slím í den. Ég tók nú ekki eftir Katrínu fyrr en undir lokin, sá hana ekki því það var strákur fyrir henni. Ég var nú hissa að sjá að hún heyrði orð eins og námslán og lesblindir því hún var að gera eitthvað allt annað en að hlusta allan tímann:) Hún hefur samt hlustað smá, stundum er ég alveg að sofna í tímum en samt virðist eitthvað fara inn. Eitthvað smá... pínku pons.

Engin ummæli: