Horfði á þessa skemmtilegu heimildarmynd eftir Kristínu Ólafsdóttur á Rúv í gærkvöldi. Hún var mjög athygisverð og gaman að heyra mismunandi reynslusögur útlendinga af Íslendingum og líka gott að þeir voru gagnrýnir, þeir nefndu bæði kosti og ókosti lands og þjóðar. Ég hló alla vega mjög mikið. Einn (ég held sá danski) nefndi nokkuð sem ég hef oft áður heyrt útlendinga segja, að ALLIR Íslendingar séu að gera eitthvað skapandi, sauma, hanna, yrkja, syngja, mála og þar fram eftir götunum. Ég fæ alltaf einhverja óþægilega tilfinningu þegar ég heyri þetta þar sem ég hef ekki gert neitt svona skapandi síðan í grunnskóla en þá var ég mjög dugleg að semja ljóð og sögur. Ég ætla að leyfa einu af mínum fyrstu ljóðum að fylgja þessu bloggi, ég samdi það þegar ég var um það bil átta ára og sat með mömmu úti á svölum í sólbaði.
Lítil stúlka sefur rótt,
getur ekki vaknað.
Úti hefur snjóað í nótt,
þess hefur hún saknað.
Jamm, æskuvinkonur mínar kannast kannski við þessar línur, ég fór með þetta litla ljóð við ýmis tækifæri. Maður ætti kannski að halda þessari ljóðasmíð áfram til að standa undir nafni sem sannur Íslendingur:) Ég get aðeins sett út á eitt við þessa fínu mynd, "How do you like Iceland?" og ég hef nefnt þetta áður í öðru samhengi. Hvar var íslenska tónlistin? Halló halló, af hverju þarf ég að hlusta á "Air", "Jamiriquai" og fleiri ágæta erlenda listamenn í íslenskri bíómynd sem fjallar um Ísland þar að auki þegar það eru til svo ótrúlega margt gott íslenskt tónlistarfólk. Ég fer að hallast að því að það sé satt sem einhver sagði þarna í þættinum í gær, við þjáumst af minnimáttarkennd. Þetta á ekki að hljóma eins og einhver þjóðernisremba í mér en mér finnst alveg sjálfsagt að gefa íslensku tónlistarfólki fleiri tækifæri og alger óþarfi að leita út fyrir landsteinanna þegar vantar fallega tónlist. Eru ekki allir að tala um að við séum svo skapandi? Hvernig væri að nota þessa sköpun betur?
2 ummæli:
Gæti ekki verið meira sammála þér með tónlistina í myndinni. Alveg asnalegt að hafa hana ekki íslenska!
Sama hér, ég er ekki að gera neitt "skapandi", að minnsta kosti ekki með höndunum, enda er ég með tíu þumalfingur á báðum höndum. Ég sá reyndar ekki þessa mynd.
Mér finnst samt allt í lagi að vera þjóðernisremba... svo lengi sem maður telur sig ekki merkilegri en aðra.
Skrifa ummæli