þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Gleymska

Ég horfði á fréttir í gær. Þar lýstu börn yfir áhyggjum sínum á þessu kennaraverkafalli, einn sagðist bara vera búinn að gleyma öllu sem hann hefði lært. Mér finnst ég eiga svo margt sameiginlegt með þeim unga dreng. Var samt að velta fyrir mér hvort nú yrði til ný kynslóð sem vantar í nokkra kafla úr mannkynssögunni og stafsetningu. Munu þau ekki lesa Gísla sögu Súrssonar? Munu þau ekki vita muninn á veikri og sterkri beygingu sagna? Munu þau ekki komast lengra í tölunum en upp í "tyve" í dönsku? Þetta verkfall bara hlýtur að hafa varanleg áhrif. Að sjálfsögðu eiga kennarar að fá góð laun en þeir fá ekki mína samúð lengur! Ekki eftir að hafa heyrt að börn eru rekin upp úr sundlaugum landsins ef þau voga sér oní á sama tíma og skólasund fór áður fram. Og ekki heldur eftir að kennarar tilkynna veikindi, fara í messu og biðja um áfallahjálp vegna andlegs áfalls eftir lagasetninguna. Að sjálfsögðu er þeim brugðið en ef einhver er í slæmum málum andlega þá eru það skólabörnin. Í skóla Bibba frænda fóru sum yngstu barnanna að gráta í gærmorgun þegar þau voru send aftur heim. Öryggi og regla á lífinu er það mikilvægasta fyrir þau og því fá grunnskólanemendur alla mína samúð. Amen.

6 ummæli:

Hulda Björg sagði...

Já þetta er alveg furðuleg framkoma.. ég er komin með nóg líka..

Hildur sagði...

Ég styð kennara í þeirra baráttu, mér finnst að þeir eigi að geta lifað mannsæmandi lífi af launum sínum. Það má auðvitað deila um þessar aðgerðir, en eins og venjulega er hið opinbera svo gott sem fríað ábyrgð af gangi mála. Sveitarfélögin og ríkisstjórn geta allt of auðveldlega þóst vera málsvarar barnanna og úthrópað kennara sem svikara og haldið því fram að þeir eigi að lifa af "hugsjóninni" einni. Ekki þurftu alþingismenn að ganga í gegnum eins mikla niðurlægingu og kennarar til að bæta sín kjör á sínum tíma, enda völdin þeirra megin. Og það veit hvert mannsbarn að þeir myndu aldrei sætta sig við jafn lág laun og kennarar hafa búið við. >:-(

tótla sagði...

Já Hildur mín, ég er sammála þér í flestu þessu, þessar aðgerðir eru bara komnar út í þvílíka öfga. Kennarar eiga að vera með betri laun en það eru bara svo margir með of lág laun (sem eru einnig með háskólagráðu). Erfitt þegar allir fylgja á eftir.

Cilla sagði...

ég er alveg sammála þér Tótla. Pældu í börnunum sem komu í skólann á mánudaginn.. kennarinn labbar bara út þegar þau eru sest við borðin sín!!! Ekkert verið að pæla í hvaða áhrif þetta hefur á þau. Mér finnst svona illa gert! Kennarar hafa alveg rétt á mannsæmandi launum en það er nú alveg spurning um hvernig maður hagar sér fyrir framan nemendur sína!

Nafnlaus sagði...

Amen!

Heiðdís.com

Hildur sagði...

Já auðvitað verða kennarar að hegða sér eins og siðmenntað fólk og það er hvorugur aðilinn í deilunni saklaus af slæmri hegðun. Mér finnst bara óþolandi þegar kennarar eru úthrópaðir sem gráðugir og heimtufrekir, og haldið því fram að þeir séu að bregðast siðferðislegum skyldum sínum við skólabörnin, en það virðist engum detta í hug að horfa gagnrýnum augum á framferði ráðamanna í þessari deilu. Þeir eiga ofsalega gott með að þykjast vera "málsvarar barnanna" öfugt kennurum, þó svo að þeir hafi sýnt þessum málaflokki ótrúlega lítinn skilning og áhuga, og séu að minnsta kosti jafn sekir og kennarar um vítaverða hegðun. Og hana nú!