föstudagur, desember 07, 2007
Jólajóla!
Desember kom á sínum tíma eins og við var að búast þrátt fyrir að ég teldi mig ekki klára í slaginn. Þá er mál að skreyta og punta og því komið smá babb í bátinn. Vér hér í Fífuhvammi eigum ekki svoleiðis fínerí. Ég er reyndar mikið jólabarn en það sem er stöðvar mig er valkvíðinn. Mér finnst erfitt að finna jólaskraut. Fór í leiðangur síðustu helgi með það eina markmið að sanka að mér skrauti en kom heim með nokkra köngla og lakkrís (ekki til skrauts heldur áts). Úff. Er þó búin að baka engiferkökur og Gummi er búinn með þær. Eftir bara svona tvö ár getur hann kennt syni sínum um það, en reyndar hugsa ég að ég muni notfæra mér þetta gamla góða trix meira en Gummi... það er bara aðeins of snemmt núna. Ég er hrædd um að Gummi myndi sjá í gegnum "en það var Moli sem kláraði allar kökurnar og súkkulaðið". Við pabbi erum bæði vön að nota þetta trix en nú eru þau mamma bara tvö eftir í kotinu svo hann verður víst að viðurkenna sekt sína þegar mamma skammar hann fyrir að klára smákökurnar. Jæja, ég vona að allir séu að njóta aðventunnar og hendi hér inn einum mola:)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli