föstudagur, apríl 28, 2006

Enn af hetjudáðum mínum

Þá er hetjudáðum á Kóralrifinu mikla lokið! Ég er komin aftur til Sydney. Ég kafaði eins og hvalur þarna í Kyrrahafinu, ótrúlega svöl allan tímann. Mér fannst rosalega gaman að kafa, veit ekki hvort það hafi komið fram nú þegar, en til að það fari ekki á milli mála vil ég taka það fram að ég stóð mig með prýði. Kafaði þarna á laugardaginn, á sunnudag fórum við svo á sjókajak. Þar reyndi á "teamworkið" hjá okkur Guðmundi þar sem ég var fram í og Gummi var fyrir aftan á tveggja manna kajak. Hann átti að segja mér alltaf hvor megin ég átti að róa (svo árarnar okkar myndu ekki rekast saman). Það gekk brösulega þar sem Gummi þekkir ekki vel muninn á hægri og vinstri. Hann meinar oft vinstri þegar hann segir hægri og öfugt, en Gummi deyr ekki ráðalaus svo hann ákvað að kalla þetta bara "einn" og "tveir" í stað "hægri" og "vinstri". Þetta gekk sæmilega, þurftum að róa út í einhverja eyju og áttum að sjá fullt af skjaldbökum. Á ferðabæklingnum hét þetta "Turtle Tour". Eina skjaldbakan á svæðinu var hins vegar ég sjálf. Hinar halda sig fjarri þegar svona stór Baka mætir á Rifið.

Á mánudaginn leigðum við vespu. Það var gaman. Við keyrðum út í sveit þar sem ég var sett á nöðruna og svo bara keyrði ég nokkur hindruð metra, alveg eins og vindurinn. Ég flissaði smá og Gummi tók þetta upp á vídjó. Verð að segja að það er hundrað sinnum auðveldara að kafa en keyra vespu. Treysti mér alla vega ekki út í umferðina á svona hjóli, finnst betra að sitja bara aftan á.

Á þriðjudag fórum við svo í tveggja daga siglingu en Gummi er búin að setja myndir á Sydneybloggið okkar. Þetta voru nokkrir dagar í Paradís, við fundum Nemó og Elvis (sjá myndir á hinni síðunni) og sáum ótrúlega fiska og önnur kvikindi, sem og kórala í öllum mögulegum og ómögulega litum og formum. Ótrúleg upplifun, eins og koma í aðra veröld í smá stund. Ahhh...

Svo óheppilega vildi til að ég gleymdi plokkaranum mínum í Sydney. Veit ekki hvort fólk átti sig á hvað það þýðir í mínu tilfelli svo ég ákvað að birta hér mynd sem var tekin af mér í gær. Það var gott að koma heim til Sydney og ég er aftur með tvær augabrúnir.


Góða helgi lömbin mín,
Bert

Engin ummæli: