sunnudagur, mars 20, 2005

jamm...

Af hverju er "blogger sign in-ið" á japönsku (eða einhverju svoleiðis)? getur einhver svarað því. Maður er alla vega búin að læra táknin fyrir "login" og "password" á þessu tungumáli. Sniðugt. Það sem er ekki sniðugt hins vegar er að hér er að byrja að hausta, á meðan allir aðrir eru að monta sig af því að það sé að byrja að vora. Fúlt. Ég hef reyndar ekkert tíma til að njóta sólar né rigningar þar sem ég húki mest inni og reyni að læra. Hef þar af leiðandi voðalega lítið til að blogga um og er hrædd um að það verði bara lítið um blogg á næstunni. Ekki nema þið hafið gaman að "í morgun borðaði ég kornfleggs en ég gær morgun kókópoffs" Ok...ég er allavega farin að fá mér morgunmat, hef það kornfleggs.

miðvikudagur, mars 16, 2005

Vond timasetning

Ég veit ekki hvort einhver annar tími hefði hentað betur til að dvelja í Ástralíu í 1 og 1/2 ár... en ég var að spá, ég hlýt að missa af mörgum 25 ára afmælisveislum:( er pínu svekkt sko. Svo er Erlan mín bestasta að fara að giftast Jónasi í sumar og mér finnst hundfúlt að missa af því. Eiginlega alveg hund -grautfúlt. Þar að auki eru nokkrar óléttur hér og þar, næst á dagskrá held ég að sé örugglega Arndís Vilhjálms MR -vinkona en hún er einmitt meðal annars fræg fyrir að hafa komið okkur Gumma saman:) Guðrún mín gengur með tvillinger en hún býr nú í Köben þannig að maður þarf sennilega að fara þangað í heimsókn til að taka tvíbbana út eftir að við ljúkum ástralíuruglinu okkar. Jamm, c'est la vie.

fimmtudagur, mars 10, 2005

Konungskross

Í gær fór Kiddi bekkjarbróðir til Bangkok þannig að við erum aftur tvö í kotinu. Kiddi slapp sæmilega frá hörðum sófanum sem hann svaf á í 4 nætur. Held að Victoria Bitter bjórinn hafi aðstoðað hann svolítið að svíf á vit draumanna á kvöldin. Ég væri alveg til í að vera í Bangkok núna. Sydney er svo sem ekkert slæm, hehe:) VIð Gummi litli ákváðum að kíkja í áður ókannað hverfi af okkar hálfu. Það er hið margrómaða Kings Cross hverfi. Í Kings Cross sáum við pönkara, strípibúllur, fullorðinsbúðir og portkonur. Við stoppuðum ekki lengi reyndar en keyptum í matinn þarna. Í gærkvöldi skunduðum við svo í bíó (aftan á Coco Pops pökkunum er tveir fyrir einn í bíó-afsláttarmiði svo hér er Coco Pops í öll mál út marsmánuð þegar tilboðinu lýkur). Hotel Rwanda varð fyrir valinu en það er sirkabát 5 vasaklúta mynd. Mjög góð, en ég vissi lítið um stríðið nema að það var á milli Hutu og Tutsi ættbálkana og eitthvað smá svona, svo er maður svo fljótur að gleyma... þetta er svo fjarri manni. Ojbarasta hvað heimurinn er ógeðslegur og hvað maður hefur það skammarlega gott. Ég hágrenjaði yfir myndinni, sat svo í lestinni á leiðinni heim, alveg grátbólgin og enn að hugsa um stríðið í Rwanda, fitlaði við hárlokk og sagði við Gumma, "er hárið á mér ekki búið að lýsast?" Svo dauðskammaðist ég mín. Hvernig get ég grátið yfir þessum grimmdarlegu atburðunum og fundist lífið svo ósanngjarnt og flókið en á sama tíma furðað mig á því (og það upphátt) að hárið á mér sé að lýsast. Svona er maður ófullkomin.

miðvikudagur, mars 09, 2005

Túristi

Ég hef verið að túristast hérna síðustu daga. Kiddi bekkjarbróðir er sem sagt hjá okkur í Sydney og þá er um að gera að nota tækifærið og skoða sig um. Fórum á safn í dag, gengum um grasagarðinn sem nota bene er mjög fallegur og á einu svæði er krökkt af leðurblökum sem eru ekkert smá skondnar. Núehhh svo höfum við þrjú tekið urmul af týpískum ferðamannamyndum, styllt okkur upp fyrir framan Óperuhúsið og svona. Já já, voða gaman. Hér er náttúrulega sumar, mjög þægilegt hitastig alltaf en mér finnst ég verða meira vör við rækallans moskítókvikindin með hverjum deginum. Ekki skemmtilegt. ókei, annars bara alles gut...

sunnudagur, mars 06, 2005

þriðji i afmæli

Takk fyrir allar afmæliskveðjurnar:) ég stóð við súkkulaðiátið, fór í Bon Bon og valdi mér fimm guðdómlega konfektmola. Svo sá ég lögguna bösta þrjá unglingspilta af asísku bergi brotnu (ekki að það skipti máli...mér finnst þau bara alltaf svo sakleysisleg) við búðarhnupl. Ég stillti mér upp og leit á klukkuna eins og ég væri að bíða eftir einhverjum og fylgdist með. Voða gaman. Svo sá ég stelpu, einhvern fimleikabrjálæðing, troða sér í glerkassa á miðju torgi og fólk borgaði henni svo fyrir skemmtiatriðið. Mig langaði frekar að borga henni fyrir að hætta þessari vitleysu. Troða sér í kassa?!?! Jæja, svo ætlaði ég að kaupa mér augnkrem (maður á víst að gera það þegar maður verður 25) en hugsaði málið betur og ákvað þar sem yfirleitt flestir halda að ég sé tveimur árum yngri en ég er, að bíða með augnkremið í tvö ár. Svona var sem sagt afmælisdagurinn, en við Gummi fórum á út að borða um kvöldið sem var aldeilis eftirminnilegt þar sem hann fékk heiftarlegt ofnæmiskast eftir nokkra bita af matnum, við þutum heim og hann var veikur alla nóttina. Það má alla vega segja að ég gleymi 25 ára afmælinu mínu seint:) Já, og eitt enn, við fórum á Hitch í gær...hmmm ekki búast við að Will Smith sé að gera nýja hluti. Það var vel hægt að hlægja að þessu en shit hvað hún var oft væmin og langdregin. Mér fannst gaurinn úr "King of the Queens" bjarga myndinni, og hann var reyndar mjög skondinn. Aðrir voru bara þarna.

miðvikudagur, mars 02, 2005

25

Þetta með að verða 25 ára í dag... ég veit ekki alveg hvað mér finnst um það. Það eru allir að spyrja hvað ég ætli að gera í tilefni dagsins... hmmm ég bara veit það varla en ég hef haft augastað á konfektbúð sem heitir "Bon Bon" í Queen Victoria Building um skeið og þangað liggur leið mín til að byrja með. Ég hef þegar í huganum ákveðið þrjá handgerða súkkulaðikonfektmola sem ég ætla að velja mér:)

þriðjudagur, mars 01, 2005

Hagsyn húsmoðir

Nú er Gummi að arka heim á leið eftir fyrsta tímann í skólanum. Ég vona að honum hafi litist vel á. Ég stend mig náttúrulega vel í hlutverki hagsýnu húsmóðurinnar. Hef beðið með hárþurrkukaup hingað til en freistaðist til að fjárfesta í einni slíkri þar sem hún kostaði einungis 800 krónur! Þar að auki fylgdi bursti með. Vona að ég hafi gert góð kaup. Svo erum við búin að baka smá og erum bara voða myndó í þessu. Þetta byrjar alla vega vel en nú þarf ég að baka afmælistertu, spurning hvernig það gengur... hmmm jamm og jæja, sem sagt allt gott að frétta frá Róshæðargötu 32 í Sydneyborg. Bless og takk, ekkert snakk.

sunnudagur, febrúar 27, 2005

Stormur

Í vikunni lauk ég lestur ákaflega skemmtilegrar bókar sem Hildur Edda gaf mér áður en ég hélt hingað út. Ég mæli með að þið farið bara öll og náið ykkur í Storm eftir Einar Kárason sem fyrst og njótið þess að lesa hana því eins og mig dauðlangar til að segja ykkur frá fullt af fyndum köflum úr henni og pælingum sem spruttu upp í kollinum á mér við lesturinn þá ætla ég ekki að gera það til þess að eyðileggja ekki fyrir ykkur:) Alla vega erum við Gummi bæði búin að lesa hana og hún er allt öðruvísi en allar bækur sem ég hef lesið og bara alveg frábær. Yndislega íslensk:) maður er svo mikil þjóðernisremba í útlöndum.

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Vandræði

Já, ég væri löngubúin að skrifa eitthvað hérna hefði ég ekki endalaust verið í einhverju stappi við bloggerinn...bölv... puff. Hvað segja Frónverjar annars? alltaf kalt? ehehhe, mér er bara frekar hlýtt sko, bara voða fínt, sól og ...hmmm hvað á ég að segja, svona 25 gráður í forsælu, já já brakandi blíða bara. Þetta er bara eins og í hitabylgjunni heima í fyrrasumar, múahahaha, aðeins betra myndi ég segja. Gummi og íslensk stelpa sem heitir Erla voru eitthvað að monta sig af þessari hitabylgju, við vorum í partýi, og sátum þar fjögur, ég, þau og ein sænsk stelpa og Gummi og erla tóku alveg Thule auglýsinguna á þetta. Ég átti bágt með mig:) In Iceland...last summer, we had like over 20 degrees for more than 3 weeks!!! og þið hefðuð átt að sjá svipinn á þeim. Ég ætla ekki að halda öðru fram en að veðrið var virkilega gott þarna í júlí/ágúst, en ef ég man rétt þá var hitametið í Reykjavík slegið...alveg 24 gráður, eða voru það 22? Man það ekki, reyndar virðast 22 gráður á Íslandi heitari en 22 á Spáni, hefur eitthvað með loftslagið að gera, en eitthvað held ég að fjarlægðin hafi gert fjöllin blá þarna. Sú sænska hló með mér. Veðrið var að vísu bjútífúl, en ég held að hitabylgjan sjálf hafi verið í um eina viku (af þremur mánuðum sem sumarið er) og ég minnist þess ekki að hafa oft klæðst stuttbuxum eða einhverju svoleiðis. Kannski svona vika sem mig rámar í að hafa verið að striplast í garðinum hjá systu þegar við vorum að mála húsið. Ísland, best í heimi!

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Australia

well, ta er eg komin til Sydney...hef ekki tima akkurat nuna til ad segja meira fra tvi...later...

mánudagur, febrúar 07, 2005

Kosningar

Bara minna ykkur á að kjósa Vöku í vikunni, og mér hafa borist kvartanir frá Guðjóni Ármannssyni vökugosa en hann hefur ekki fengið mynd af sér á tótlutjattið í tvö ár held ég. Ég vona að þessi bjargi málinu:)

sunnudagur, febrúar 06, 2005

TAKK

Ég er nú soddan flökkukind í mér og frekar vön því að kveðja Frón. Ætlaði nú ekkert að vera mikið að gera úr þessu, en bauð nokkrum myndarlegum dömum í kökuboð á fimmtudaginn, aðallega af því að mér finnst svo gaman að halda boð, og hafði í raun planað að gera svo á afmælinu mínu, þannig að þetta átti ekki að vera dramatísk kveðjuveisla. Ég tók það líka fram og var með yfirlýsingar um það að ég væri ekki mikið fyrir svona kveðjustundir, enda verð ég komin heim aftur eftir bara 1 1/2 ár. Uppáhalds systir mín skipulagði hins vegar óvænta kveðjuveislu fyrir okkur Gumma, sem var náttúrulega toppurinn, því þar náði ég að hitta svo marga vini mína í kveðjupartýi og það er ekkert drama í því. Nánari lýsing er hér.

föstudagur, febrúar 04, 2005

Spéhræðsla

Ég fór í sund eitt kvöldið í vikunni, og þar sem ég stóð í sturtunni og togaði sundbolinn til í allar áttir svo hann sæti rétt og hyldi það sem ber að hylja varð mér hugsað til Allyar vinkonu minnar. Hún er amerísk og kom að heimsækja mig til Íslands fyrir þremur árum. Við Vala tókum Ally að sjálfsögðu í Bláa Lónið sem henni fannst mjög spennandi....þar til kom að sturtunni. Þá varð hún pínu stressuð þegar hún stóð í búningsklefanum og horfði á eftir okkur Völu sem skokkuðum berrassaðar með sundbolinn í hendinni, inn í sturtu og þrifum okkur hátt og lágt með sápu, og náttúrulega á öllum stöðum svona eins og er bent á plakatinu með mannslíkamanum í almenningssturtuklefum. Ally afklæddist þegar við vorum komnar inn í sturtu, kom svo inn í sturtuna til okkar með handklæði utan um sig og smeygði sér inn í sturtu sem hafði sturtuhengi fyrir. Þar gat hún þvegið sér og klætt sig í sundfötin ein í friði en samt talað við okkur skvetturnar. Þeir eru svo séðir þarna í Bláa Lóninu, útlenska fólkið er ekki vant þessu. Við erum vön að hópast allsnakin í almenningsturtum þar sem við tepruskapur viðgengst ekki:) Fyndin tilhugsun hvað okkur finnst eðlilegt að standa svona berrassaður í sturtu með mörgum öðrum og skiptast á uppskriftum og ráðleggingum um sjampótegundir á meðan við þvoum "þið vitið hvað" og lögum sundbolinn og hlaupum út í laug. Bravó fyrir okkur:)

Þegar ég var ellefu ára fór ég til Mallorca með mömmu og systu. Ég fór ekki öðru vísi út í sundlaug en í ömmulegum og efnismiklum sundbol og víðum stuttermabol yfir. Spéhræðslan var rosaleg. Ég hef reyndar alltaf verið pínu spéhrædd, en það virðist skán með hverju árinu. Koma svo Tótla!

þriðjudagur, febrúar 01, 2005

Nýtt blogg

Við Gvendur minn erum komin með nýtt blog þó þetta verði áfram í fullu fjöri. Við ætlum að reyna að hafa svona sameiginlegt útlandablogg frá Ástralalíunni, það er svo móðins hjá pörum í dag. Endilega kíkið á þetta hjá okkur:)

mánudagur, janúar 31, 2005

Tannsi (part 2)

Var að koma frá tannsa. Er ekki sú hamingjusamasta núna enda var verið að gera við skemmd á milli framtannanna. Það er ekki þægilegt. Ég reyndi að hugsa um Steingrím, yngsta "barnabarnið" mitt þegar mestu lætin voru, en það linaði sársaukan lítið, dreifði þó huganum:)

laugardagur, janúar 29, 2005

Það styttist...

...í "útförina" eins og Ari Vökusnáði orðaði það svo skemmtilega þegar ég hitti hann í Vökupartíi á Hressó í gær. Við Gummi minn förum eftir rúma viku (7.febrúar) til Sydney, þannig að maður ætti kannski að fara að þvo og pakka og svona. Já, svo á ég eftir að fá visa alveg rétt. Hmmm, ætla að drífa í því asap. Gaman að þessu. Annars er bara allt gott að frétta...hmmm já já...

miðvikudagur, janúar 26, 2005

Hádegisfundur

Vaka er með hádegisfund á morgun, fimmtudag klukkan 12:20 í Odda stofu 101. Umræðuefnið er "þunglyndi" og framsögumenn er Elísabet Jökulsdóttir, Salbjörg Bjarnadóttir en hún er geðhjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri "Þjóð gegn Þunglyndi", og Eiríkur Örn Arnarson sálfræðingur. Mér finnst mjög áhugavert að fræðast meira um sjúkdóminn enda eru miklar ranghugmyndir, feimni og fordómar í þjóðfélaginu gagnvart þunglyndi. Ég vil því hvetja alla til að koma á fundinn:)


Ég fór til tannsa í morgun. Ég þarf að fara aftur til tannsa á eftir. Ég þarf sennilega að fara aftur til tannsa líka á morgun. Og hinn og ef dagurinn þar á eftir ("þar-hinn") væri ekki laugardagur færi ég sennilega á þá. Jebb, Tótla tannálfur og tannbursta-meiníak með meiru er með skemmdir í tönnslunum og fékk skömm í hattinn frá fröken tannsínu í morgun. Þar er frekar mikil sorg yfir þessu öllu saman enda hef ég alltaf hugsað nokkuð vel um tennurnar og er eiginlega enn að reyna að ná áttum. Ég kenni óreglulegum matartímum og Vífilfelli um. Tannsína sagði mjög skýrt við mig áðan, "EKKERT KÓK UNGA DAMA". Samt ekki alveg svona en næstum því. Þess vegna hef ég enn einu sinni tekið þá ákvörðun að hætta að drekka kók en mér er meiri alvara núna en oft áður.

laugardagur, janúar 22, 2005

Vaka

Gærkvöldið var með eindæmum skemmtilegt, var rétt að skríða fram úr bælinu núna á hádegi:) Ég byrjaði á að vera barþjónn í smástund í boði sem systir mín var í. Þið vitið hvað barþjónar gera... "einn fyrir gestinn...einn fyrir mig". Þannig á meðan ég hristi saman kokteil fyrir dömurnar hellti ég reglulega smá slurk í mitt glas og smakkaði þetta til. Reyndar var þetta alltaf sami kokteillinn en það er betra að vera viss. Mér fannst öll glösin jafngóð. Að barþjónastarfinu loknu hélt ég á listakynningu Vöku á Hressó, sem var hressandi. Mér leist vel á krakkana (við erum meira að segja með eina idol stjörnu!) þó ég eigi eftir að taka þau í persónulegt viðtal. Já, það er erfitt að vera að sleppa svona takinu á Vöku sinni þannig að það er eins gott að þessir nýju standi sig. Listakynningin var svo óhemjuskemmtileg og fjölmenn að ég held ég hafi verið til hálfþrjú á Hressó (mér finnst það mikið í ljósi þess að ég mætti þangað um 10). Svo fórum við á Vegas og Óðal en það var ekkert stuð. Nei djók, fljótlega eftir þetta fór ég sem sagt heim. Jamm. Fúlt annars að MR sé dottinn út í Gettu betur. Nenni ekki að tala meira um það.

mánudagur, janúar 17, 2005

How do you like Iceland?

Horfði á þessa skemmtilegu heimildarmynd eftir Kristínu Ólafsdóttur á Rúv í gærkvöldi. Hún var mjög athygisverð og gaman að heyra mismunandi reynslusögur útlendinga af Íslendingum og líka gott að þeir voru gagnrýnir, þeir nefndu bæði kosti og ókosti lands og þjóðar. Ég hló alla vega mjög mikið. Einn (ég held sá danski) nefndi nokkuð sem ég hef oft áður heyrt útlendinga segja, að ALLIR Íslendingar séu að gera eitthvað skapandi, sauma, hanna, yrkja, syngja, mála og þar fram eftir götunum. Ég fæ alltaf einhverja óþægilega tilfinningu þegar ég heyri þetta þar sem ég hef ekki gert neitt svona skapandi síðan í grunnskóla en þá var ég mjög dugleg að semja ljóð og sögur. Ég ætla að leyfa einu af mínum fyrstu ljóðum að fylgja þessu bloggi, ég samdi það þegar ég var um það bil átta ára og sat með mömmu úti á svölum í sólbaði.

Lítil stúlka sefur rótt,
getur ekki vaknað.
Úti hefur snjóað í nótt,
þess hefur hún saknað.


Jamm, æskuvinkonur mínar kannast kannski við þessar línur, ég fór með þetta litla ljóð við ýmis tækifæri. Maður ætti kannski að halda þessari ljóðasmíð áfram til að standa undir nafni sem sannur Íslendingur:) Ég get aðeins sett út á eitt við þessa fínu mynd, "How do you like Iceland?" og ég hef nefnt þetta áður í öðru samhengi. Hvar var íslenska tónlistin? Halló halló, af hverju þarf ég að hlusta á "Air", "Jamiriquai" og fleiri ágæta erlenda listamenn í íslenskri bíómynd sem fjallar um Ísland þar að auki þegar það eru til svo ótrúlega margt gott íslenskt tónlistarfólk. Ég fer að hallast að því að það sé satt sem einhver sagði þarna í þættinum í gær, við þjáumst af minnimáttarkennd. Þetta á ekki að hljóma eins og einhver þjóðernisremba í mér en mér finnst alveg sjálfsagt að gefa íslensku tónlistarfólki fleiri tækifæri og alger óþarfi að leita út fyrir landsteinanna þegar vantar fallega tónlist. Eru ekki allir að tala um að við séum svo skapandi? Hvernig væri að nota þessa sköpun betur?

sunnudagur, janúar 16, 2005

Oz (framhald)

Ætli það sé ekki rétt að ég útskýri þetta Ástralíudæmi nánar. Við Gummi minn erum að fara til Sydney því hann fékk skiptinemasamning þar. Þetta byrjaði sem smá flipphugmynd sem er orðin að veruleika og 7.febrúar nk. höldum við til London þar sem Al/Védís munu hýsa okkur í tvær nætur en svo heldur ferðalagið áfram þann 9.febrúar og að kvöldi 10.febrúar lendum við í Sydney, en þá verður reyndar fimmtudagsmorgun á Íslandi nota bene. Ég sótti um í skóla líka en hef ekki fengið svör en grunar að ég eigi ekki möguleika fyrr en ég hef útskrifast frá HÍ. Þannig að á meðan Gummi Hlír stúderar mun ég kengúrast í BA ritgerðinni og vonandi fæ ég líka vinnu. Jamm, svo verðum við komin heim fyrr en varir því þetta er bara eitt skólaár:) Hvernig líst ykkur á lömbin mín?