föstudagur, janúar 17, 2003

Mjá mjá mjá....
God dag, Áslaug Ósk, hér eftir kölluð Áslaug Tönn gerði athugasemd í gestabókinni minni um að ég hefði mátt sleppa sögunni með tönnina, sko nei nei, Áslaug, þetta var svo fyndið að ég sleppi ekki svona sögu, langar mikið að finna myndina sem ég á frá þessu:) hvernig líst þér á það heillin?

Í fyrradag eignaðist Anna Björk stóra sys og samt aðallega Birgir Steinn sonur hennar lítinn kettling sem ber nú hið virðulega nafn Frosti. Hann er algjör krúsídúlla og þegar ég sá hann langði mig líka í einn Frosta. Hringdi í "hina mömmu og pabba" í Vatnsendanum. Þeim leist vel á að bæta kött á heimilið en fyrir eiga þau marga hesta, einn hund og einn Gumma. Anna Sigga sagði meira að segja að ég mætti binda kálf í garðinum því þeir eru svo sætir. En Tótlu langaði ekki í belju! Ég hélt að kisi væri minn en þá kom smá babb í bátinn (hvað er þetta "babb"?). Gummi Hlír vildi ekki kött! Ég fór næstum því að skæla því að í huganum var ég búin að gefa honum nafn, ákveða hvað sandurinn hans yrði, hvar hann ætti að sofa o.s.frv. Svo voru málin rædd og í ljós kom að stráksi var einn á móti þremur (ef frá er talin Myrra, voffinn). Til að gera langa sögu bara pínu styttri þá sótti ég kisa í gær og hann var rosalega glaður að sjá mig. Hann er krúttlegasti og sætasti kisi í heimi og geimi (hmm, geimkisar, eru þeir til?) og áður en ég verð mikið væmnari þá vil ég bara lofa að setja mynd af honum og Frosta sem er líka sætastur í heimi hér á tjattið svo ég þurfi ekki að dást meira að þeim hér. Kisinn minn er líka klár og kassavanur, hann hélt bara í sér í nótt því hann mundi greinilega ekki hvar sandurinn var, þegar hann loksins var leiddur þangað inn af fóstru sinni kom í ljós að hann var með niðurgang. Samt hélt hann í sér (Frosti stígur alltaf oní skítinn sinn, kúkalabbi) og var góður. Áður en við fórum að sofa lögðum við hann á sinn stað en 2 mínútum síðar klifraði hann upp gaflinn og hlammaði sér, ef maður getur sagt "hlamma" um svona pínulítið kríli, á koddana milli mín og Gumma. En ekki lengi því hann fór hinum megin við Gumma, (þar sem ég ligg ekki:(...) og kúrði þar í hálsakotinu hjá honum. Ég var pínu abbó fyrst en ég veit samt hvað það er gott að kúra í hálsakotinu á Gumma, svo ég sagði ekkert. Svo þorði hvorugt okkar að hreyfa sig af hræðslu um að kremja krílið. Ég svaf vel í nótt en Gummi vaknaði nokkrum sinnum við að kisi var að klóra hann eða bara skipta um stellingu. En ég held að litli sé búinn að ná tökum á Gumma sem vildi ekki kött. Hver myndi svo sem ekki bráðna í návist svona lítils kisa? og hann sem mjálmar og allt!...

Engin ummæli: