fimmtudagur, febrúar 16, 2006
Fyrsti strengurinn, ekki fyrir viðkvæma...
Við getum öll verið sammála um að tíminn líður hratt, og ekki fyrir svo löngu hafði ekkert okkar nokkurn tíma heyrt um, séð, hvað þá klæðst g-strengs nærbuxum. Ok, ég sagði að þetta væri ekki fyrir viðkvæma þannig að þið teprurnar getið bara farið aftur á leikur.is að spila tetris eða eitthvað. Mér varð hugsað til þess um daginn þegar maður sá þessar flíkur fyrst, og hvað það er í raun stutt síðan. Ég er ekki alveg með ártalið á hreinu en ég er að skjóta á '96 ?!?! hjálpið mér. Jæja, alla vega þá var maður nú ekkert að hlaupa út í búð að festa kaup á svona nærfatnaði enda var mamma sennilega enn að kaupa á mig bónusbrækur þegar þetta var, sem sagt í fyrsta bekk í menntaskóla. Þetta þótti náttúrulega ægilega patent þar sem nærbuxnafarið sást ekki á miðjum bossanum ef maður var í þröngum buxum (mér hefur alltaf þótt það ólekkert) nema hvað, að jólin '96 þá fékk ég dálítið óvænta jólagjöf ...frá Guðrúnu Jóns sem margir lesendur Tótlutjattsins ættu að kannast við. Ég man eftir að hafa setið í stofunni með settinu og gott ef amma í Fells var ekki þarna líka og ef til vill fleiri fjölskyldumeðlimir þegar pakkinn frá Guðrúnu rataði í fangið á mér og ég tók til við að taka utan af honum pappírinn. Í ljós komu þessi fínu brjóstahöld (sem ég hafði sennilega enn minna við að gera þá en nú, ...eða jú annars ...sennilega voru púðar í honum, sem veitti ekki af fyrir horaðan unglinginn) og g-strengur! Mér tókst sem betur fer að sjá hvurslags brók þetta var áður en ég lyfti henni upp til að sýna viðstöddum gjöfina. Held ég hafi falið strenginn undir bh-inum og þegar mamma spurði hvað ég hefði fengið frá Guðrúnu svaraði ég "nærföt"... örugglega farin að svitna þá. Milli jóla og nýárs þegar ég hitti prakkarann spurði hún hvort jólagjöfin hefði nokkuð skapað vandræðalegt fjölskyldumóment við jólatréð, og ég man það mjög vel ennþá að hún var svakalega prakkaraleg á svipinn og hló bara. Að sjálfsögðu var þetta ekkert vandræðalegt móment, svo það sé alveg á tæru. Þær stöllur, hún og Aldís unnu einmitt í Hagkaup á þessum tíma og hafa fengið góðan díl á þessu býst ég við og ég var himinlifandi yfir gjöfinni. En ekki hvað? Ég man reyndar nokkru síðar eftir mömmu þar sem hún var að hengja þvott á snúru og þar á meðal jólagjöfina frá Guðrúnu að hún átti í einhverjum vandræðum með strenginn. Ég heyrði hana tauta "efnisprufa" og "hvernig snýr þetta eiginlega?" enákvað að forða mér út áður en hún færi að pæla meira og ræða þetta frekar:)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli