þriðjudagur, mars 29, 2005

Hógværð/hreinskilni

Skoðanir fólks eru mjög skiptar hvað dyggðir varðar. Hógværð held ég að teljist alltaf til dyggða en getur þó orðið þreytandi í of miklum skömmtum. Eftirfarandi samtal myndi til dæmis hljóma frekar hallærislega:

tótla: Rosalega ertu klár að syngja!
Pavarotti: nei nei...láttu ekki svona
tótla: jú í alvöru talað, þú ert svakalegur söngvari, þvílík rödd!
Pavarotti: tja...maður er svona eitthvað að gaula annað slagið, ég geri bara mitt besta.

Æ ég er ekkert frábær í dæmisögum em ég held að þetta útskýri mál mitt. Mér finnst hógværð mjög fín en oft mun skemmtilegra þegar fólk er bara hreinskilið. Bobby Fischer er ekki þessi hógværa týpa; "I object to being called a chess genius, because I consider myself to be an all-around genius who just happens to play chess".

hehehe:) Hvernig er það annars, þarf hann Bobby ekki að fá sér íslenskt millinafn núna? Ég hélt að það væri þannig með íslenska ríkisborgara. Nokkrar hugmyndir:
Bobby Örn Fiscer
Bobby Olgeir Fischer
Bobby Ívar Fischer
Bobby Freyr Fischer
Bobby Tumi Fischer

Svona mætti lengi halda áfram, möguleikarnir eru endalausir fyrir strákinn. Annars er ég með fyndið lag á heilanum, hvaða lag er þetta aftur? "country road, take me home, to the place, I belong...West Virgina..." og svo framvegis. Get ekki hætt að syngja þetta lag en man ekki fleiri línur né hvaða lag þetta er. Over and out

laugardagur, mars 26, 2005

"Fischer heim"

Muniði eftir "Börnin heim" baráttunni? Það er náttúrulega ekkert til að grínast með, en barátta Íslendinga fyrir "heimkomu" Fischers er farin að minna mig á Sophiu Hansen málið. Ég reyni náttúrulega að kíkja reglulega á mbl og vísi og fleiri svona síður og fyrsta orðið sem hefur komið upp í hugann á mér er GÚRKA! 50% fréttanna voru um landana Jackson og Fischer. Fischer má mín vegna koma til Íslands og líka gaman að senda BNA langa fingurinn einu sinni, en fyrr má nú aldeilis vera. Á ekki eitt yfir alla að ganga í þessum málum? Ég vona að íslensk stjórnvöld séu tilbúin til að berjast jafnhetjulega fyrir öðru fólki í samskonar vandræðum og þá dettur mér fyrst í hug hjónin sem fengu að vera lengur á landinu af því að þau eignuðust barn. Veit reyndar ekkert hver staðan er í því máli. Í gærkvöldi ákvað ég að horfa á "Fischer heim" útsendingu Stöðvar 2 á netinu og því verður ekki neitað að í gærkvöldi fékk ég mesta kjánahroll sem ég hef fengið lengi. Lendingu flugvélarinnar var lýst eins og knattspyrnuleik, "já við sjáum þarna smá díl, það eru ljós flugvélarinnar, sem er að koma yfir Akranes og ég giska á að hún lendi eftir eina tili tvær mínútur... þetta er æsispennandi" og svo seinna "Páll Magnússon, hvor megin siturðu í vélinni? geturðu vinkað okkur í glugganum?" ok, úff ég ætla ekki að rifja meira upp en þetta var eins pínlegt og hægt er, að gera langa sjónvarpsendingu, í beinni frá flugvellinum þegar Fischer lenti. Þarna voru líka sjúkrabílar og slökkviliðsbílar. Ætli flugbjörgunarsveitin, víkingasveitin og íþróttaálfurinn hafi ekki beðið þarna líka. Allir reiðubúnir ef eitthvað skyldi gerast. Mig grunar að meirihluti fólks hafi verið þarna í einhverju djóki að taka á móti blessuðum Bobby sem var varla kominn út úr flugvélinni þegar fréttamaður stöðvar 2 hálfpartinn réðst á hann með spurningum, það vantaði bara "how do you like Iceland?" Stöð 2 afrekaði þarna að ná botninum í hallærislegri æsifréttamennsku og mér er alveg sama þó þeir hafi borgað fyrir þessa rellu. Þeir fengu nægan tíma með Bobby inni í vélinni og sviku auk þess loforð við Bobby Fischer nefndina. hahaha, "Bobby Fischer nefndin"...ég bara varð að skrifa þetta orð aftur. Bobby er kominn heim á Frón, Páll Magnússon drullaði upp á bak og ég er farin að læra. Góðar stundir.

fimmtudagur, mars 24, 2005

Hani, krummi, hundur, svín...

...geit, lamadýr og páskaungi... eru meðal þeirra dýra sem ég sá í dag. Við Gvendólína fórum á Easter Show, eða páskasýningu eins og það myndi kallast á okkar ástkæra. Páskasýningin fer fram á Ólympíuleikvanginum og þangað flykkjast innfæddir sem útfæddir um páskana til að sjá kusur (örugglega fullt af borgarbörnum sem hafa aldrei séð belju nema í sjónkanum) og ketti og ýmis önnur dýr, fara í tívolítæki (ekki dýrin samt), borða mat, borða nammi, borða snarl og eitthvað fleira. Mér finnst fólk borða mikið hérna. Meira að segja ég borða meira en venjulega, það er reyndar ekkert "meira að segja", ég var bara að pæla hvaðan öll þessi matarlyst kæmi. Jæja, alla vega, páskasýningin var skemmtileg þó ég hafi ekki farið í nein tæki. Kannski ég segi bara aðeins betur frá þessu á sameiginlega blogginu okkar Gumma, þið getið lesið þetta þar, ég þarf að reyna að vera á undan stráknum að blogga því annars segir hann eitthvað asnalega frá deginum eins og "Tótla heimtaði candy floss og hætti ekki að suða fyrr en hún var búin að kaupa það". Héðan er annars fátt annað að frétta, ég er bara að reyna að gera ritgerð og því fátt í gangi, eða þannig sko. Veðrið hefur verið frekar glatað, haustlegt, en í dag var það reyndar mjööög fínt. Síðustu páska lá ég á ströndinni í Portúgal í góðum fíling. Nú er ég í Ástralíu í góðum fíling. Á maður þetta skilið? svo er ég alltaf að svekkja mig á því að vera ekki á skíðum um páskana eins og alltaf þegar ég var yngri. Nei, ég á þetta deffinittlí ekki skilið. Liggjandi á ströndinni eða sleikjandi sólina á ástralskri fjölskylduhátíð, hugsandi, "af hverju er ég ekki á skíðum núna?" Mikið er maður ruglaður.

mánudagur, mars 21, 2005

Que raro!

Ég var nýbúin að tala um það hér að bloggið væri alltaf á japönsku. Hvað haldiði? Það er allt í einu á ensku! Skrýtið, kannski Herra Bloggmundur hafi lesið síðustu færslu mína og ákveðið að gera eitthvað í þessu. Í dag var góður dagur. Ég fór, ásamt ástmanninum í klippingu en það höfðum við dregið lengi lengi. Ég kveið þessu eins og ég væri að fara til tannlæknis. Hélt þetta yrði kannski sárt. Klippingin, tjah... hún er bara svona í lagi. Kellan þurfti að stytta hárið mitt ansi mikið því það var orðið svo þurrt og slitið, ég var eins og hamflett hæna. Mér var skellt í djúpnæringu og spesjal trítment, þær áttu bara ekki til orð yfir hvað lubbinn var þurr. Ég fór að sakna Svavars míns, huhuhu maður er svo vanafastur. Nú, eftir að við losnuðum frá hárgreiðslustofunni fengum við okkur McDonalds nagga og ostborgara sem er nú engin stórfrétt, en þar á eftir fórum við í sportbúð og tótla fékk langþráða hlaupaskó frá Gumma sínum því hún er svo góð stelpa. Seinnipartinn ákvað ég að vígja töfraskóna, hélst á sæmilegu skokki í svona korter. Þá bara sprakk ég. Held ég fái strengi á morgun. Mér varð óglatt eftir skokkið og leið ekki betur fyrr en eftir hálfan snakkpoka, einn súkkulaðiíspinna, hlaupkalla og tvö sprætglös... og líður bara enn nokkuð vel. Ekki segja tannsa samt frá þessu, þetta var náttúrulega sérstakt tilfelli. Dagurinn á morgun mun samt hefjast með skokki, húrra fyrir mér:)

sunnudagur, mars 20, 2005

jamm...

Af hverju er "blogger sign in-ið" á japönsku (eða einhverju svoleiðis)? getur einhver svarað því. Maður er alla vega búin að læra táknin fyrir "login" og "password" á þessu tungumáli. Sniðugt. Það sem er ekki sniðugt hins vegar er að hér er að byrja að hausta, á meðan allir aðrir eru að monta sig af því að það sé að byrja að vora. Fúlt. Ég hef reyndar ekkert tíma til að njóta sólar né rigningar þar sem ég húki mest inni og reyni að læra. Hef þar af leiðandi voðalega lítið til að blogga um og er hrædd um að það verði bara lítið um blogg á næstunni. Ekki nema þið hafið gaman að "í morgun borðaði ég kornfleggs en ég gær morgun kókópoffs" Ok...ég er allavega farin að fá mér morgunmat, hef það kornfleggs.

miðvikudagur, mars 16, 2005

Vond timasetning

Ég veit ekki hvort einhver annar tími hefði hentað betur til að dvelja í Ástralíu í 1 og 1/2 ár... en ég var að spá, ég hlýt að missa af mörgum 25 ára afmælisveislum:( er pínu svekkt sko. Svo er Erlan mín bestasta að fara að giftast Jónasi í sumar og mér finnst hundfúlt að missa af því. Eiginlega alveg hund -grautfúlt. Þar að auki eru nokkrar óléttur hér og þar, næst á dagskrá held ég að sé örugglega Arndís Vilhjálms MR -vinkona en hún er einmitt meðal annars fræg fyrir að hafa komið okkur Gumma saman:) Guðrún mín gengur með tvillinger en hún býr nú í Köben þannig að maður þarf sennilega að fara þangað í heimsókn til að taka tvíbbana út eftir að við ljúkum ástralíuruglinu okkar. Jamm, c'est la vie.

fimmtudagur, mars 10, 2005

Konungskross

Í gær fór Kiddi bekkjarbróðir til Bangkok þannig að við erum aftur tvö í kotinu. Kiddi slapp sæmilega frá hörðum sófanum sem hann svaf á í 4 nætur. Held að Victoria Bitter bjórinn hafi aðstoðað hann svolítið að svíf á vit draumanna á kvöldin. Ég væri alveg til í að vera í Bangkok núna. Sydney er svo sem ekkert slæm, hehe:) VIð Gummi litli ákváðum að kíkja í áður ókannað hverfi af okkar hálfu. Það er hið margrómaða Kings Cross hverfi. Í Kings Cross sáum við pönkara, strípibúllur, fullorðinsbúðir og portkonur. Við stoppuðum ekki lengi reyndar en keyptum í matinn þarna. Í gærkvöldi skunduðum við svo í bíó (aftan á Coco Pops pökkunum er tveir fyrir einn í bíó-afsláttarmiði svo hér er Coco Pops í öll mál út marsmánuð þegar tilboðinu lýkur). Hotel Rwanda varð fyrir valinu en það er sirkabát 5 vasaklúta mynd. Mjög góð, en ég vissi lítið um stríðið nema að það var á milli Hutu og Tutsi ættbálkana og eitthvað smá svona, svo er maður svo fljótur að gleyma... þetta er svo fjarri manni. Ojbarasta hvað heimurinn er ógeðslegur og hvað maður hefur það skammarlega gott. Ég hágrenjaði yfir myndinni, sat svo í lestinni á leiðinni heim, alveg grátbólgin og enn að hugsa um stríðið í Rwanda, fitlaði við hárlokk og sagði við Gumma, "er hárið á mér ekki búið að lýsast?" Svo dauðskammaðist ég mín. Hvernig get ég grátið yfir þessum grimmdarlegu atburðunum og fundist lífið svo ósanngjarnt og flókið en á sama tíma furðað mig á því (og það upphátt) að hárið á mér sé að lýsast. Svona er maður ófullkomin.

miðvikudagur, mars 09, 2005

Túristi

Ég hef verið að túristast hérna síðustu daga. Kiddi bekkjarbróðir er sem sagt hjá okkur í Sydney og þá er um að gera að nota tækifærið og skoða sig um. Fórum á safn í dag, gengum um grasagarðinn sem nota bene er mjög fallegur og á einu svæði er krökkt af leðurblökum sem eru ekkert smá skondnar. Núehhh svo höfum við þrjú tekið urmul af týpískum ferðamannamyndum, styllt okkur upp fyrir framan Óperuhúsið og svona. Já já, voða gaman. Hér er náttúrulega sumar, mjög þægilegt hitastig alltaf en mér finnst ég verða meira vör við rækallans moskítókvikindin með hverjum deginum. Ekki skemmtilegt. ókei, annars bara alles gut...

sunnudagur, mars 06, 2005

þriðji i afmæli

Takk fyrir allar afmæliskveðjurnar:) ég stóð við súkkulaðiátið, fór í Bon Bon og valdi mér fimm guðdómlega konfektmola. Svo sá ég lögguna bösta þrjá unglingspilta af asísku bergi brotnu (ekki að það skipti máli...mér finnst þau bara alltaf svo sakleysisleg) við búðarhnupl. Ég stillti mér upp og leit á klukkuna eins og ég væri að bíða eftir einhverjum og fylgdist með. Voða gaman. Svo sá ég stelpu, einhvern fimleikabrjálæðing, troða sér í glerkassa á miðju torgi og fólk borgaði henni svo fyrir skemmtiatriðið. Mig langaði frekar að borga henni fyrir að hætta þessari vitleysu. Troða sér í kassa?!?! Jæja, svo ætlaði ég að kaupa mér augnkrem (maður á víst að gera það þegar maður verður 25) en hugsaði málið betur og ákvað þar sem yfirleitt flestir halda að ég sé tveimur árum yngri en ég er, að bíða með augnkremið í tvö ár. Svona var sem sagt afmælisdagurinn, en við Gummi fórum á út að borða um kvöldið sem var aldeilis eftirminnilegt þar sem hann fékk heiftarlegt ofnæmiskast eftir nokkra bita af matnum, við þutum heim og hann var veikur alla nóttina. Það má alla vega segja að ég gleymi 25 ára afmælinu mínu seint:) Já, og eitt enn, við fórum á Hitch í gær...hmmm ekki búast við að Will Smith sé að gera nýja hluti. Það var vel hægt að hlægja að þessu en shit hvað hún var oft væmin og langdregin. Mér fannst gaurinn úr "King of the Queens" bjarga myndinni, og hann var reyndar mjög skondinn. Aðrir voru bara þarna.

miðvikudagur, mars 02, 2005

25

Þetta með að verða 25 ára í dag... ég veit ekki alveg hvað mér finnst um það. Það eru allir að spyrja hvað ég ætli að gera í tilefni dagsins... hmmm ég bara veit það varla en ég hef haft augastað á konfektbúð sem heitir "Bon Bon" í Queen Victoria Building um skeið og þangað liggur leið mín til að byrja með. Ég hef þegar í huganum ákveðið þrjá handgerða súkkulaðikonfektmola sem ég ætla að velja mér:)

þriðjudagur, mars 01, 2005

Hagsyn húsmoðir

Nú er Gummi að arka heim á leið eftir fyrsta tímann í skólanum. Ég vona að honum hafi litist vel á. Ég stend mig náttúrulega vel í hlutverki hagsýnu húsmóðurinnar. Hef beðið með hárþurrkukaup hingað til en freistaðist til að fjárfesta í einni slíkri þar sem hún kostaði einungis 800 krónur! Þar að auki fylgdi bursti með. Vona að ég hafi gert góð kaup. Svo erum við búin að baka smá og erum bara voða myndó í þessu. Þetta byrjar alla vega vel en nú þarf ég að baka afmælistertu, spurning hvernig það gengur... hmmm jamm og jæja, sem sagt allt gott að frétta frá Róshæðargötu 32 í Sydneyborg. Bless og takk, ekkert snakk.