þriðjudagur, júlí 20, 2004

Sumarið er komið...

...sungu Stuðmenn og ég held ég taki bara undir.  Mér finnst allir svo fallega freknóttir og rauðnefja eftir þessa dásamlegu helgi, svei mér þá.  Mér tókst að sofa eina nótt í tjaldi (á Klaustri) og svaf bara alveg sæmilega illa.  Það verður seint sagt að ég elski að sofa í tjaldi en mér finnst samet alveg gaman að fara í útilegur og kósí að vera í tjaldi.  Það er bara þetta með svefninn.  Ég og viðhengið mitt keyrðum svo einhverja Fjallabaksleið og hann fékk þar með ágæta útrás fyrir karlmennskuna.  "Réttu mér kortið kona",  "Ertu nokkuð hrædd Tótla mín?"  "Já þetta er er nú bara "soft" vegur", "ja maður hefur nú séð þá enn verri vegina", "ohhh ég hefði átt að láta þig taka mynd af mér keyra niður þessa brekku, hún var sko "hardcore"".  Já já, á meðan fékk ég útrás fyrir dömuna í mér með landakortið á lærunum og nesti á gólfinu;  "Gummi minn viltu súkkulaðikex?"  Nei ég segi svona.  Ég væri alveg til í að vera meira við stýrið næst sem verður vonandi bara eftir hálfan mánuð:)  Annars er bara fátt að frétta.  Í dag var hálfgerður mánudagslunti í mér sem lak þó smá saman af mér.  María samstarfskona gerði heiðarlega tilraun til að létta í mér lundina (og öfugt) með því að færa mér ísraleskt nammi (geri aðrir betur) sem hún hafði reyndar ekki lyst á sjálf.  Vinur hennar sendi henni fullt af svona nammi því henni finnst það svo gott og þegar hún hafði borðað sig sadda ákvað hún að gefa mér tvær tegundir sem hún borðar reyndar hvort eð er ekki sjálf.  Ég hef bitið í hornið á öðru stykkinu og minnti það mig á bragðsterkt frauðplast.  Ég veit ekki hvort það var ég eða nammistykkið sem var að klikka en ég hef lofað Maríu að smakka það aftur með opnum huga.  Hef reyndar ekki ákveðið hvenær það verður, kannski bara næst þegar ég er full.

Engin ummæli: