sunnudagur, júní 19, 2005
Fratman
Við Gvendólína Ræs fórum í bíó í gær. Hann náði að lokka mig með sér á Batman með fögrum orðum eins og "það eru heilar 14 mínútur í myndinni teknar á Íslandi." Þar með var björninn unninn. Ég get ekki sagt að ég hafi skemmt mér vel í bíó. Fylltist reyndar stolti og þjóðerniskennd þessar 14 mínútur sem yfirþyrmandi jökullinn og napurlegir íslenskir móar og hraun voru á skjánum. Frú Kata Cruise sem ég minntist á í síðustu færslu fer þarna með stórt hlutverk. Fín stelpa. Annars á ég ekkert að vera að dæma þessa mynd þar sem mér leiðast yfirleitt þessar amerísku stórslysamyndir. Ég vil forðast að vera fórnarlamb skólabókardæmis um markaðssetningu söluvænna mynda sem eru gerðar til að græða sem mest á. Auðvitað myndi ég reyna að græða á kvikmyndum ef ég væri sjálf í bransanum, ég tek mig ekki svo hátíðlega að halda öðru fram, en mér finnst þeir þarna í Hollywood bara framleiða sama skítinn aftur og aftur. Því eru þessar myndir klisjukenndar og fyrirsjáanlegar. Mér leiddist svo sem ekki allan tímann yfir myndinni, en þessar myndir eru ekki minn tebolli. Margar svona Hollywood klisjumyndir eru enn frábær afþreying, ég er bara ekki mikið fyrir akkúrat þennan flokk kvikmynda (stórslysakjaftæði og framtíðar-geim-bla bla). Ég sá til dæmis ekki Day after tomorrow og ætla mér ekki að sjá War of the worlds og The island (sá auglýsingu úr þeirri seinni í gær...jeremías, ég spurði Gvend, "hver gerir svona myndir?" sá svo að það er sami framleiðandi og að Armageddon og Pearl Harbour...kom á óvart, eða þannig). Ég lofa að tala ekki meira um svona myndir í framtíðinni þar sem þær heilla mig augljóslega ekki. Ég veit samt að ég mun halda áfram að sjá einhverjar þeirra þar sem mér leiðist aldrei í bíó og þær hafa yfirleitt sína ljósu punkta, (og ég vil síður senda litla kútinn tótlulausan í bíó).
3 ummæli:
Var næstum búin að láta plata mig á þessa mynd í kvöld til að sjá ástkæra föðurlandið.. sem betur fer lét ég nú ekki gabbast og ætla (kannski) að leigja myndina þegar hún kemur út á spólu.
Fór einmitt á þessa umtöluð mynd um helgina og var allan tíman að hugsa... "ég get svo svarið það ég er búin að sjá þessa mynd áður"
kv.
Arndis
Sammála þér með stórslysamyndir. Þær eru drulluleiðinlegar upp til hópa, af því að enginn nennir að gera góð handrit. Ég segi "veto"
Skrifa ummæli