föstudagur, apríl 29, 2005
Sonur minn
Í nótt eignaðist ég son. Nei, meðgangan er ekki styttri í Ástralíu, þetta var bara enn einn klikkaður draumur, en ég held ég sé með fæðingar á heilanum. Þetta byrjaði á því að ég ákvað að fara í ræktina (sem ég geri aldrei) og sund og bað tvær vinkonur mínar um að koma með mér, Söndru (sem kom með Gúndu systur Heiðar en þarna var Gúnda systir Söndru, sorry Heiður mín) og Heiðdísi Höllu. Siggi sæti sem var nemandi í Álftó á sínum tíma (nokkrum árum eldri en ég) átti líkamsræktarstöðina, og mig dreymdi alveg skrilljón eldri nemendur Álftó, eins og Ingibjörgu í Oasis-búðinni, ahaha, ekki segja þeim. Nú jæja, Heiðdís og Sandra komu, nema hvað ég ætlaði ekki að fara að púla í tækjum heldur notfærði mér eldhúsaðstöðuna í ræktinni og ætlaði að hita heitt kókó og baka pönnsur (en þess má geta að í gær fór ég á kaffihús og borðaði bestu crepes með súkkulaði og jarðarberjum EVER). Ég man ekki meira með þær stöllur Söndru og Heiðdísi (sem nota bene þekkjast ekki) því næst ól ég son minn og það var bara ekkert vont. Ég nenni ekki einu sinni að telja upp allt fólkið sem kom þarna fyrir því það voru næstum allir sem ég þekki. Skýringin; ég hélt partý og bauð öllum, um leið og ég fæddi, til að fagna fæðingunni sko. Ég man reyndar mjög skýrt að Heiður var óvenjuölvuð og með stutt hár. Sonur minn var fullkominn og var varla búið að klippa á naflastrenginn þegar hann var farinn að standa upp við húsgögn, sem flest önnur börn gera eftir nokkra mánuði. OMG, þið haldið eflaust að ég sé orðin biluð, þið sem eruð enn að lesa þessa vitleysu.
miðvikudagur, apríl 27, 2005
Draumar og dömubindi
Dagarnir koma og fara, ég sit og læri, ef ekki þá stari ég bara út um gluggann á flugumferðina. Ég elska þetta útsýni. Emiliana og Fishermans´woman sjá um að dagurinn í dag hljómi betur. Mig dreymdi í nótt að ég var á fæðingardeildinni (eða álíka stað) nema hvað, börnin voru geymd í vatnstönkum og undu sér vel. Þetta var svona Matrix þema í drauminum. Ég fékk að skoða litlu krúttin, taka þau upp úr tankinum og dást að þeim, þau voru pínulítil, eins og ungar og nokkur kúkuðu í lófann á mér. Mér fannst það ógeðfellt. Þegar leið á drauminn fór ég í barnafatabúð að velja afmælisgjöf handa Steingrími mínum sem verður eins árs í maí. Þetta var eini eðlilegi hluti draumsins. Hvað er Ástralía að gera mér? Hina dreymnu tótlu er farið að dreyma enn bilaðri drauma en áður, og voru þeir nógu klikkaðir fyrir. Það er ekki svefnfriður fyrir þessum ósjálfráðu hugsunum mínum þegar ég sef. Og ofan á allt saman þá selja þeir ekki Always dömubindi hérna! Fyrstu dömubindin sem ég keypti voru svo þykk að ég vaggaði eins og gæs, þetta minnti bara á gömlu Sjafnarbindin heima. Össs.
mánudagur, apríl 25, 2005
Anzac dagurinn...
hann er í dag og tótlutjattið hefur eiginlega ekki hugmynd um hvað það þýðir. Þetta er svona public holiday hér í Kengúrulandi og snýst eitthvað um þegar heimamenn héldu til Tyrklands 1915 í stríð í Gallipolli, og töpuðu. Þannig að þetta er ekki beint svona gleðidagur, engar skrúðgöngur og blöðrur, en þeir halda samt upp á hann, veit ekki alveg hvernig, því ég er bara búin að vera inni að lesa. Held að þetta byrji klukkan 5 eða 6 um morgun alltaf þann 25.apríl (með ræðuhöldum býst ég við án þess að hafa hugmynd) og seinnipartinn fara allir á pöbbinn og spila einhvern leik, veðja nokkrum dollurum og svo man ég ekki hvað gerist næst. Nú jæja, þar sem við Gvendur erum ekki jafn fáránlega árisul og Ástralir (þeir fara út að skokka eða jafnvel á brimbretti ELDsnemma, áður en þeir fara í vinnuna...geðsjúklingar) þá misstum við af þessu. Kannski við reynum að taka þátt á næsta ári.
Afmæli
Okkur var boðið í afmæli á laugardaginn og kíktum að sjálfsögðu. Hún María sem er grísk/suður-afrísk átti afmæli en hún er sambýliskona (flat-mate) Önnu Dóru. Foreldrar hennar voru komin alla leið frá Suður-Afríku til að elda ofan í okkur, og var smá grískur keimur yfir þessu öllu saman. Meira að segja grísk tónlist, en ég fékk engan til að koma í grískan hringdans, enda held ég að hnén mín þoli það hvort eð er ekki. Á meðan ég man, ég hef bara ekki nöldrað um Nælon hér á tótlutjattinu í hálft ár held ég! Eru þær enn til?
Afmæli
Okkur var boðið í afmæli á laugardaginn og kíktum að sjálfsögðu. Hún María sem er grísk/suður-afrísk átti afmæli en hún er sambýliskona (flat-mate) Önnu Dóru. Foreldrar hennar voru komin alla leið frá Suður-Afríku til að elda ofan í okkur, og var smá grískur keimur yfir þessu öllu saman. Meira að segja grísk tónlist, en ég fékk engan til að koma í grískan hringdans, enda held ég að hnén mín þoli það hvort eð er ekki. Á meðan ég man, ég hef bara ekki nöldrað um Nælon hér á tótlutjattinu í hálft ár held ég! Eru þær enn til?
sunnudagur, apríl 24, 2005
Útlönd
Ég er að fara til útlanda, nanínanínaní:) Túristavisað mitt er að renna út og ég þarf að fara úr landi og koma aftur til að fá að vera í 3 mánuði í viðbót. Reyndar fæ ég væntanlega stúdentavisa í sumar þannig að þá reddast þetta. Mig langaði mikið að koma til Íslands (hehe) en ákvað að frekar að fara til Auckland á Nýja Sjálandi, enda muuuuun ódýrara. Draumurinn er nú frekar að ferðast um Suðureyjuna (Auckland er á Norðureyju) en við höfum svo lítinn tíma að þetta verður bara að vera svona helgarferð til Auckland. Jamms, vildi bara láta vita. Hef varla farið út fyrir Redfern undanfarið en það er hverfið mitt þannig að þetta verður bjútífúl að sjá eitthvað fleira.
miðvikudagur, apríl 20, 2005
Fegurð
Vorið er tími...fegurðarsamkeppna. Í flestum krummaskuðum og hornum landsins er keppt í þessari grein á vorin og þykir mér þetta alltaf jafnmerkilegt. Í ár var ég næstum því búin að gleyma þessu því ég er stödd hinum megin á hnettinum en Dagný saumóvinkona var eitthvað að ræða þetta á sinni síðu þannig að ég freistaðist til að kíkja á heimasíðu keppninnar og tjekka á gripunum, skoða úrvalið. Ég á vinkonur sem hafa keppt í fegurðarsamkeppni og ég vona að þær móðgist ekki, auðvitað gerir fólk þetta á sínum forsendum og ég efast ekki um þær lærðu margt af þátttökunni og eignuðust nýjar vinkonur. Ég er ekki dæma keppniskonurnar sjálfar, bara hugmyndina sem slíka. Það eru haldnar ótal fyrirsætukeppnir sem mér finnst eiga fullkomnlega rétt á sér því það er atvinnugrein (fyrirsætubransinn) og því finnst mér ekki þörf á fegurðarsamkeppni, af hverju taka þær (og þeir) ekki bara þátt í fyrirsætukeppnum? Af hverju er keppt í því að vera fallegastur árið 2005? Mér finnst asnalegt að ná bronsi í fegurð. Fá þær kannski ekki medalíur? hehehe:) Nú jæja, ég ákvað að rétt kíkja á keppniskonurnar í Ungfrú Reykjavík og las stutt viðtal við Steinson junior sem ég man ekki í augnablikinu hvað heitir fullu nafni. Þar er hún spurð af hverju hún taki þátt í þessari keppni og hún svaraði "til að heiðra minningu ömmu minnar". Þá spyr ég, hvað ef hún væri ljót? Hvernig hefði hún þá heiðrað minningu ömmu sinnar? En hún vann þannig að hún heiðraði ömmu vel með fegurð sinni, veit ekki alveg hvernig maður orðar þetta einu sinni. Blessuð sé minning hennar.
mánudagur, apríl 18, 2005
Myndir
Ég hef verið að dunda mér við að setja inn gamlar myndir, þær eru hérna til hægri á síðunni. Á sydneyblogginu okkar Gumma eru svo myndir frá okkur héðan. Eftir u.þ.b. 3 vikur neyðist ég til að fara til útlanda, fer til Nýja Sjálands í 3 daga að endurnýja visaáritunina mína þar sem ég fæ ekki studentvisa alveg strax. Fyrir mig að fljúga til Auckland er svipaður díll og flug, fram og tilbaka frá Reykjavík til Akureyrar, kannski aðeins dýrara Nýja Sjálands flugið:) Ég veit nú ekki hvort það sé eitthvað að sjá í Auckland en alltaf gaman að skreppa til udlandet. Ætli maður lúlli ekki svo bara á YMCA til að halda niðri kostnaði ferðarinnar, hehehe:)
miðvikudagur, apríl 13, 2005
Britney er bomm...
...og bara allt að gerast. Það er lítið slúður að frétta héðan, Kylie er jú með eitthvað show sem maður ætti náttúrulega að fara á verandi í Kylielandi en mér finnst hún samt stundum svo kjánaleg eitthvað, þó þa væri náttúrulega gaman að sjá sýninguna. Nicole Kidman býr í Sydney en ég er ekki búin að lókeita hana nánar, veit bara að hún var á ströndinni sem við förum á um daginn (ég sá hana reyndar hvergi) og er bara voða happy. Kannski maður rekist á kerlu einhvern daginn. Man ekki eftir fleiri áströlskum stjörnum í bili. Ég sá líka á mbl að Mel Gibson er að pæla í að gera kvikmynd um ævi páfans. Er Mel með einhvern sérstakan samning við hann/hana þarna uppi? Hann er allur í þessu núna, sem er bara fínt, kannski er þetta svona þema hjá honum. Ok, fleira var það ekki í slúðurfréttum. Annars kom það í ljós í síðustu færslu að mig dreymdi að ég var í sundi og Íraksstríði lauk, Herdísi dreymdi að hún var í pottunum og hitti Saddam Hussein í hallærislegum karlasundbol og Hildur Edda rakst á Osama í laugunum í sínum draumi! Magnað, hefur einhver rekist á Bush? Munið bara að frussa smá vatni framan í hann þá. Epli og pera, vaxa á trjánum, þegar þau þroskast þá detta þau niiiiður!
laugardagur, apríl 09, 2005
Draumur í dós
Mig dreymdi um daginn að ég var í sundi og svo allt í einu fóru allir upp úr lauginni til að fylgjast með fréttum úr sjónvarpinu í sundlauginni. Það var greinilega eitthvað mjög mikilvægt þannig að ég ákvað að kíkja líka og í fréttum var það helst að stríðið í Írak var búið (!) Þegar ég vaknaði fannst mér þetta ansi merkilegur draumur því í raun lauk stríðinu fyrir u.þ.b. tveimur árum þó því hafi náttúrulega alls ekki verið lokið þannig séð en þá var Saddam steypt af stóli (kemur það af "staup" eða átti kannski að vera einfalt i þarna?). Jæja alla vega, þá var þetta mjög skýrt í draumnum að stríðinu var lokið, allir hentu frá sér vopnunum og voru dauðfegnir og það var bara eins og ekkert af þessu hefði gerst. Í draumnum hugsaði ég "þarf virkilega stríð til að koma á friði?" og í þessu tilviki tókst það. Það væri alger draumur ef þessi draumur rættist.
miðvikudagur, apríl 06, 2005
mánudagur, apríl 04, 2005
Reglur
Ástralir eru mjög hrifnir af lögum og reglum og fara ávalt eftir þeim. Hér er náttúrulega harðbannað að drekka áfengi á almannafæri og þeir virðast fylgja þeirri reglu mjög vel. Þannig að ef ég segist hafa setið á ströndinni og drukkið öl þá er ég að plata. Mikið var nú ljúft að vera á Spáni og Portúgal. Já, og svo er náttúrulega víðast hvar bannað að reykja, til dæmis á ströndinni, enda reykir enginn þar. Ég er náttúrulega ánægð með að það sé bannað að reykja en mér fannst þetta samt merkilegt fyrst...að jafnvel á börum og diskótekum eru reykfrí svæði. Til að komast inn á skemmtistað þarf maður alltaf að sýna skilríki, og það verður að vera vegabréf eða ökuskírteini. Ég er ekkert hrifin af því að djamma með vegabréfið en um daginn varð Gummi að fara heim að sækja ökuskírteinið því hann var bara með debetkort og stúdentakort og þeir taka slíkt ekki gilt. Einnig er bannað að vera ölvaður á barnum. Við sátum í rólegheitum og sötruðum öl með þremur íslenskum strákum sem eru hér á bakpokaferðalagi í fyrradag og urðum vitni að því hvernig verðirnir gengu um og bönkuðu í öxlina á mörgum gestum og báðu þá um að hypja sig. Fólk er greinilega vant þessu, flestir bara kinka kolli og arka út með samviskubit yfir að vera of fullir...hvort sem þeir eru það eða ekki. Sex lögreglumenn komu líka inn á staðinn og könnuðu þar allar hæðir og króka. Kannski er þetta svona víða en ég á erfitt með að venjast þessu. Bannað að vera prakkari í Ástralíu!