fimmtudagur, nóvember 29, 2007

meiri Moli


Það er gífurleg eftirspurn eftir myndum af litla monsanum svo maður reynir bara að anna þessu:) Við ætlum ekki að setja upp barnalandssíðu eða eitthvað slíkt en ég set einhverjar myndir hér áfram. Lífið gengur bara vel í Kópavoginum, hann sefur og drekkur nema að á kvöldin veit hann ekki alveg hvað hann vill og ýmist drekkur eða liggur á brjóstinu mínu (steinsofandi) eins og hundur með beinið sitt, og sármóðgast ef mér dettur í hug að leggja hann frá mér. Í nótt leið honum greinilega eitthvað illa og gekk illa að sofna svo ég er ansi lúin sjálf. Við bara krossleggjum fingur og vonum að hann fái ekki hina alræmdu magakveisu eins og svo mörg börn (og báðir foreldrar hans) ...vona bara að þetta hafi verið eitthvað loft og hann hafi þurft að leysa vind:)

sunnudagur, nóvember 25, 2007

Geisp...

Í dag er litli Molinn okkar vikugamall! húrra húrra... og foreldrarnir eru enn dáleiddir að þessari fegurð og hafa ekki augun af unganum sínum:) ég vara ykkur við, þessari væmni í nýbakaðri móður lýkur ekki í bráð þannig að þeir sem eru ekki með þolinmæði fyrir meira "mússí mússí" og mont í mér geta hvílt tótlutjattið í bili því ég mun bara halda áfram að vera upptekin af honum:) ...og að setja trilljón broskalla í hverja færslu:) :) :)

fimmtudagur, nóvember 22, 2007

Halló heimur...

...hér kem ég!



Takk fyrir allar kveðjurnar:) Unginn okkar Gumma fæddist 18.nóv, 14 merkur og 51 cm og yndislegur:)

miðvikudagur, nóvember 14, 2007

Jólagjöfin í ár!

Ég las á mbl í vikunni að einhver nefnd hefði verið fengin til að velja "jólagjöfina í ár". Þessi nefnd valdi GPS tæki sem það heitasta í pakkann 2007. Puff, þau hljóta hreinlega að hafa fengið eitt slíkt tæki hvert fyrir að velja það. Ég er alls ekki sammála þessu, kannski sniðugt fyrir rjúpnaskyttur og flakkara en rosalega held ég að margir eigi eitt svona tæki í skúffunni sinni og noti það lítið. Nei ÉG skal segja ykkur hver jólagjöfin í ár er og það vill líka svo skemmtilega til að hún er mun ódýrari en GPS tæki. Haldið ykkur fast. Jólagjöfin í ár.... eeeeeeeeer.......

PUKKI BOLLYWOOD BABY
...nýjasta geislaplata Leoncie!

Skellið ykkur á eintak ef þið viljið vera viss um að ná að gleðja ástvini ykkar:)

miðvikudagur, nóvember 07, 2007

Ólöf á Indlandi!!!

Ég vil vekja athygli lesenda á nýjum link hér undir "fleiri vinir" en það er hún Ólöf Inga vinkona mín og skokkfélagi hér á árum áður sem er farin að blogga um komandi ævintýri á Indlandi. Hún er mætt í karríið og ætlar að vera þarna þangað til hún hefur fundið sér eiginmann. Nei grín. Hún er að bjarga heiminum:) ...og við ætlum að fylgjast með því. Ohhh hvað það er gott að vita að maður á svona fulltrúa í Asíu (Ólöfu) og Afríku (Arndísi Ósk) sem sjá um að bjarga heiminum á meðan við hin erum upptekin af okkur sjálfum:) Ég lagði inn á reikning Arndísar um daginn en hún stendur fyrir söfnun sem ég hef sagt áður frá. Mér finnst alltaf gaman að velta fyrir mér þeirri heimspekilegu spurningu af hverju tökum við þátt í svona söfnunum, og hjálparstarfsemi. Er það af því að við viljum virkilega hjálpa þeim sem minna mega sín? ...eða af því að það lætur okkur líða vel? ...friðar líka pínu samviskuna. Er reyndar viss um að það er blanda af þessu öllu. Ég vil virkilega koma að einhverju gagni og láta gott af mér leiða en það lætur mér líða vel með sjálfa mig í leiðinnin. Sem er kannski bara svona rúsínan í pylsuendanum og allt í góðu lagi með það. Finnst góð umræðan sem hefur verið í gangi síðustu daga um þróunaraðstoð. Að það þýðir ekkert að dæla peningum í Afríku þar sem spillingin er svo mikil. Ekki gefa fátæka bóndanum pening fyrir mjólk, gefðu honum heldur mjólkandi belju og þar fram eftir götunum. Arndís mun einmitt koma peningunum úr söfnuninni sjálf í gagnið svo þeir skila sér alveg örugglega þangað sem þeir eiga að fara. Okei, hugsum aðeins um þetta... en það er kominn matartími hjá mér. Takk.