Í dag straujaði húsmóðirin á meðan hún horfði á "How to steal a million" með Audrey Hepburn og Peter O'Toole. Setti líka í nokkrar vélar, hamaðist á ryksugunni og þannig mætti lengi telja. Aðeins um 7 vikur í að ég stækki fjölskylduna og meira en nóg eftir að gera í kotinu. Ótrúlegt hvað það safnast saman " í lokin". Mér finnst ég vera stanslaust að og samt gerist þetta hægt. Ég hreyfi mig svo sem ekkert hratt þessa dagana.
Að öðru, sem er mun mikilvægara en húsmóðurstörfin: Arndís Ósk vinkona mín (linkur hérna niðurfrá) er stödd í Namibíu þar sem hún vinnur núna í nokkra mánuði. Hún fékk þá snilldarhugmynd að fá okkur vinkonurnar í lið með sér til styrkja einhver verkefni þarna þar sem hún er stödd. Sem dæmi má nefna að á leikskólunum þarna eru ekki til nein leikföng. Nú ætlum við að leggja á reikninginn hennar smá upphæð svo hún geti sjálf farið og keypt dót handa börnunum. Hún er reyndar með ótal hugmyndir að svona verkefnum enda á nógu að taka, en mér finnst svo sniðugt að hún geri þetta þá sér maður líka í hvað peningarnir manns (sem annars hefðu jafnvel farið í bíóferð, tímarit eða bara nammi...) fara. Því miður eru flestir hættir að lesa tótlutjattið eftir að ég kom heim frá Sydney en ég vildi samt benda á þetta og vona að einhverjir sem lesa síðuna vilji líka taka þátt í þessu og geti jafnvel sagt sínum vinum frá þessu. Þið komist í samband við Arndísi í gegnum síðuna hennar og getið líka sent mér línu:) Koma svo fólk!!!! Jæja, ætla að fá mér nammi, hvort eð er búin að kaupa það:)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli