miðvikudagur, júlí 06, 2005
Sælkeri vikunnar
Sælkeri vikunnar á Tótlutjattinu er engin önnur en Þórhildur sjálf. Ég verð seint þekkt fyrir það að hata eftirrétti eða súkkulaði og nú ætla ég að deila með ykkur nýjasta æðinu hjá mér í þessum málum. Við Gummi Hlír tókum pönnukökupönnu með til Sydney til öryggis, en komumst svo að því að þær fást hér. Við höfum verið mjööög dugleg að baka pönnsur en það kom að því að mig langaði að útfæra þennan þjóðareftirrétt okkar Frónverja aðeins og má segja að ég hafi orðið fyrir frönskum innblæstri. Ok, það sem mér finnst sem sagt syndsamlega gott er að skera banana í tvennt og svo endilangt. Ég set þá svo í eldfast mót og sker niður marssúkkulaði (má útfæra þetta með öðru súkkulaði að sjálfsögðu) og raða nokkrum svoleiðis bitum ofan á bananann. Það þarf ekkert að þekja hann, bara raða smá svona bitum og skella í ofninn sem á alls ekki að vera of heitur. Ég man ekkert hvað ég hef þetta lengi, bara þangað til súkkulaðið hefur bráðnað og "bananinn orðinn gullinn". Nei djók, ég þoli ekki þegar það stendur eitthvað svoleiðis í uppskriftarbókum, kommon, látið súkkulaðið bara bráðna vel. Svo sem sagt raða ég tveimur svona bitum ofan á eina pönnsu (þ.e.a.s. hálfur banani) og loka pönnsunni. Það sem ég gerði einnig af því að ég er svo mikið sugar baby, var að bræða eitt mars með rjóma í potti og hellti smá svoleiðis sósu (góð íssósa) ofan á fröken pönnsu. Þá verður hún líka svo falleg. Ef ég væri með gesti myndi ég skera jarðarber og setja ofan á. Jamms, er ég rosaleg? Þetta er svakalega sætt enda er alveg nóg að borða eina...eða tvær. Ekki meira. Pönnsuútfærsla tvö er mun einfaldari þó þessi hafi ekki verið flókin. Ég keypti um daginn Cadbury íssósu en ég held hún fáist ekki á Íslandi. Hún er úr mjólkursúkkulaði. Nýjasta æðið er að smyrja smá svona sósu á pönnukökuna (bara eins og súkkulaði crepes hjá Fransmönnum). Mmm, og í nótt dreymdi mig stanslaust að ég var að gera einhvern súkkulaði eftirrétt, ég saxaði suðusúkkulaði alveg á skrilljón og stráði flórsykri yfir þetta svo til að skreyta eða eitthvað svoleiðis. Asnalegur draumur. Þess má að lokum geta að sælkeri vikunnar skilur ekkert í því af hverju buxurnar verða þrengri yfir rassinn með hverjum deginum. Hmmmm.
2 ummæli:
Vá, þig dreymir allavega girnilegri drauma en mig! Í nótt var ég í heimsókn hjá kvensjúkdómalækni sem fann einhverjar bólgur og vesen - vona að ég sé ekki berdreymin!!!
Nammi namm.. þarf að fara að læra að gera almennilegar pönnsur. Er einmitt með pönnukökupönnu hérna úti en er ekki búin að ,,brenna hana til"
Skrifa ummæli