fimmtudagur, júlí 28, 2005
Bryndís 25 ára!
Tótlutjattið tileinkar blogg dagsins í dag Bryndísi Harðardóttur en stúlkan á 25 ára afmæli í dag. Til hamingju lilla mín, ég mun skála í mjólkurhristingi í tilefni dagsins. Hér gengur lífið annars bara sinn vanagang. Gummi Hlír byrjaði í skólanum í dag og ég byrja á mánudaginn. Í dag fór ég bara niður að Óperuhúsið vopnuð Kleifarvatni og sat þar í sólinni og las í smá stund. Það er óvenju hlýtt hér miðað við árstíma, en hitinn hefur farið yfir 20 stig á daginn og að sjálfsögðu ekki skýhnoðri á himnum frekar en fyrri daginn. Held að plan morgundagsins sé að gera það sama og í dag, kannski fara líka í leikfimi... en hinu ljúfa lífi lýkur brátt, eða það verður alla vega ekki jafnkæruleysislegt miðað við námskeiðalýsingarnar sem ég fékk í skólanum í gær. Get samt ekki sagt annað en að ég er orðin veeeerulega spennt. Jæja, góðar stundir.
þriðjudagur, júlí 26, 2005
Selma og þristurinn
Þegar umræður um búninginn hennar Selmu í júrovisjón stóðu sem hæst voru allir að afsaka hnébuxurnar hennar með að þetta væri "the next big thing". Nú veit ég ekki hvað er í gangi í Evrópu, en ég get ekki séð að hnébuxurnar séu málið hér í Ástralíu. Neibb. Ég hef séð þessar flíkur hangandi í nokkrum búðum en það virðist engin vilja klæðast þeim. Skrýtið. Eins og ég er nú alltaf mikið fyrir svona 3/4 buxur og svoleiðis, þá veit ég ekki með þessa hnésídd, hún virkar ábyggilega á sumum kvennsum samt. Mér finnst stuttbuxur meira töff, en maður þarf að vera pínu djarfur til að þora því, að vera í pæjuskóm, stuttbuxum og peysu, en mér finnst það frekar flott, hef reyndar ekki séð neinn í því heldur. Bara í tískublöðum. Jæja, næsta mál á dagskrá...BUS.IS. Ég hef enga skoðun á þessu, mér finnst bara pínu leiðinlegt að það er enginn þristur til lengur:( Bara eitthvað S3 sem fer ekki einu sinni á Háaleitisbraut heldur í Seljahverfi af öllum stöðum. Ég á bara svo margar góðar minningar tengdar þristinum, eins og þegar maður var í skólasundi í Sundhöllinni og fleira og fleira. En nýrri kynslóð fylgja nýjar strætisvagnaleiðir og ég er viss um að krakkarnir í Seljahverfi í dag munu í framtíðinni eiga góðar minningar úr S3.
sunnudagur, júlí 24, 2005
Til hamingju...
...með sólina og hlýjuna:) já það fréttist alla leið hingað. Nú er sennilega jafnhlýtt á Íslandi og í Sydney, nema hvað að hér er hávetur. Ég er búin að vera á einhverjum kynningum í nýja skólanum mínum og í næstu viku eru fleiri kynningar og skráning í námskeið. Mig langar bara til að byrja í tímum, nenni ekki þessu dútli mikið lengur. Við fórum út að borða á fimmtudagskvöldið ásamt bólivískum og filipeyskum félögum. Ég fékk að smakka kengúrusteik hjá þeirri bólivísku, og mér fannst eftirbragðið vont. Nú get ég þó sagst hafa smakkað eina svona skoppandi krúttgúru. dojojojojojong.
miðvikudagur, júlí 20, 2005
Skopp skopp
Finnst ykkur hún ekki sæt? Við Guðmundur fórum í Australia Zoo (rétt hjá Brisbane) um daginn og það var æðislegt. Þar skoppuðu þessar elskur um allar trissur og átu úr lófum fólks eins og ekkert væri. Ótrúlega gæfar. Þessi á myndinni var sérlega forvitin, og það sem meira er, hún var með unga í pokanum sínum, maður sér lappirnar stingast þarna út. Við sáum líka koalabirni en þeir sofa og kúra til skiptis. Algjör krútt. Þeir sitja á mjúka bossanum sínum á trjágrein, halda utan um stofninn og dorma þannig megnið af sólarhringnum. Ég hef alltaf sagt að ef ég væri dýr myndi ég vilja vera mörgæs (gaman að renna sér á bumbunni niður brekkur) en nú held ég að koalabjörn sé kominn í annað sætið. Reyndar ekki jafnmikið fjör en greinilega notalegt líf. Það er mér að skapi. Ég klappaði koölunum en ég sleppti því að fá að halda á einum því það kostaði heila 20 dollara (1000 kall) sem er næstum eins og ef það kostaði 2000 kall heima. Auk þess vorkenndi ég birninum sem var í því skítadjobbi að láta einhverja krakkagemlinga halda á sér fyrir myndatöku. Ojbarasta, ég vona að hann fái extra djúsí laufblöð að japla á eftir vinnudaginn.
mánudagur, júlí 18, 2005
Slúður
Ok, ég sel það ekki dýrara en ég keypti það en mér heyrðist í útvarpsfréttum áðan að fyrrverandi kærasti minn, Jude Law hefði viðurkennt að hafa haldið framhjá hinni gullfallegu Sienna Miller. Viðhaldið heitir Daisy eða eitthvað álíka hallærislegt og Jude segist dauðskammast sín fyrir þetta og hann sér víst eftir öllu saman. Já já Jude, þú færð ekki mikla samúð núna er ég hrædd um. Hvað er málið? Þau hafa verið saman í minna en tvö ár ef mér skjátlast ekki, og hann bað hennar um jólin (já maður er með allt á hreinu) og svo bara heldur hann framhjá henni. Jeminn, þar að auki hef ég ítrekað lesið "fréttir" í slúðurblöðunum um skapofsaköst hans sem eru víst farin að hafa sín áhrif á sambandið. Ég tel að Sienna blessunin þoli þetta ekki mikið lengur enda á hún betra skilið ef hann er farinn að láta svona. Skammastu þín Jude!
miðvikudagur, júlí 06, 2005
Sælkeri vikunnar
Sælkeri vikunnar á Tótlutjattinu er engin önnur en Þórhildur sjálf. Ég verð seint þekkt fyrir það að hata eftirrétti eða súkkulaði og nú ætla ég að deila með ykkur nýjasta æðinu hjá mér í þessum málum. Við Gummi Hlír tókum pönnukökupönnu með til Sydney til öryggis, en komumst svo að því að þær fást hér. Við höfum verið mjööög dugleg að baka pönnsur en það kom að því að mig langaði að útfæra þennan þjóðareftirrétt okkar Frónverja aðeins og má segja að ég hafi orðið fyrir frönskum innblæstri. Ok, það sem mér finnst sem sagt syndsamlega gott er að skera banana í tvennt og svo endilangt. Ég set þá svo í eldfast mót og sker niður marssúkkulaði (má útfæra þetta með öðru súkkulaði að sjálfsögðu) og raða nokkrum svoleiðis bitum ofan á bananann. Það þarf ekkert að þekja hann, bara raða smá svona bitum og skella í ofninn sem á alls ekki að vera of heitur. Ég man ekkert hvað ég hef þetta lengi, bara þangað til súkkulaðið hefur bráðnað og "bananinn orðinn gullinn". Nei djók, ég þoli ekki þegar það stendur eitthvað svoleiðis í uppskriftarbókum, kommon, látið súkkulaðið bara bráðna vel. Svo sem sagt raða ég tveimur svona bitum ofan á eina pönnsu (þ.e.a.s. hálfur banani) og loka pönnsunni. Það sem ég gerði einnig af því að ég er svo mikið sugar baby, var að bræða eitt mars með rjóma í potti og hellti smá svoleiðis sósu (góð íssósa) ofan á fröken pönnsu. Þá verður hún líka svo falleg. Ef ég væri með gesti myndi ég skera jarðarber og setja ofan á. Jamms, er ég rosaleg? Þetta er svakalega sætt enda er alveg nóg að borða eina...eða tvær. Ekki meira. Pönnsuútfærsla tvö er mun einfaldari þó þessi hafi ekki verið flókin. Ég keypti um daginn Cadbury íssósu en ég held hún fáist ekki á Íslandi. Hún er úr mjólkursúkkulaði. Nýjasta æðið er að smyrja smá svona sósu á pönnukökuna (bara eins og súkkulaði crepes hjá Fransmönnum). Mmm, og í nótt dreymdi mig stanslaust að ég var að gera einhvern súkkulaði eftirrétt, ég saxaði suðusúkkulaði alveg á skrilljón og stráði flórsykri yfir þetta svo til að skreyta eða eitthvað svoleiðis. Asnalegur draumur. Þess má að lokum geta að sælkeri vikunnar skilur ekkert í því af hverju buxurnar verða þrengri yfir rassinn með hverjum deginum. Hmmmm.
sunnudagur, júlí 03, 2005
Gömul?
Þar sem ég hafði mikinn tíma aflögu núna seinni partinn og nennti eiginlega ekki að gera neitt ákvað ég að ráfa um netið eins og ég á stundum til. Eftir að hafa skoðað myndir af djamminu á heimasíðum Hverfisbarsins, Vegamóta og Priksins og einungis fundið Völu mína á einni þeirra (en annars engann og nota bene ég skoða þessar síður eiginlega aldrei, finnst hálfkjánalegt að segja frá þessu) ákvað ég að skoða blogg vina vina minna. Skiljið þið? Ég fór að skoða linka út frá bloggum vina minna og það er stundum svolítið gaman en samt eins og að njósna. Á þessum rúnti sá ég fullt af linkum undir "Vökufólk", eða svona "Nonni Vökustrákur" eða "Ella Vökugella" en nú var ég að skálda nöfnin, en ég sem sagt kannaðist ekkert við þetta Vökufólk. Það finnst mér súrt. Ég missti nefnilega eiginlega af kosningunum í ár og náði því ekki að kynnast öllu þessu ágæta fólki sem bættist í Vökuliðið og mér finnst ég vera gasalega útúr. Reyndar fannst mér ég vera orðin hundgömul, lífið líður alltof hratt, hmmm. Ég á samt langt í þessa elsku á myndinni, Babúska babúska babúska jajajaja:)
laugardagur, júlí 02, 2005
Hrós...
...fær íslenska löggan fyrir að verja (að mig minnir) 40 milljónum í aukið eftirlit á vegum landsins á næstu mánuðum. Við keyrum alltof hratt miðað við aðstæður og því verða alltof mörg banaslys á þjóðvegum landsins. Ég er viss um að þetta framtak þeirra mun bjarga einhverjum mannslífum, og það er svo sannarlega 40 milljónum króna virði. Verst að það þarf blessaða lögguna til að minna ökumenn á að draga úr hraðanum. Já og ég get alveg eins lokið því af að segja frá því að ég fór á War of the Worlds í gær en ég lofaði því hér á síðunni fyrir nokkrum dögum að fara ekki á þessa mynd. Ég get alveg viðurkennt að hún kom mér á óvart og þrátt fyrir að vera ægilega niðurdrepandi og svört þá var hún bara nokkuð góð. Í morgun las ég svo gagnrýni í áströlsku blaði þar sem er talað um það að hann Steven Spielberg er gyðingur og hvernig margt í myndinni minnir á gyðinga í Seinni heimstyrjöldinni og eftirá að hyggja þá er þetta bara laukrétt. Ég vil samt ekki fara nánar út í þá sálma þar sem lesendur tótlutjattsins eiga kannski eftir að sjá myndina. OK, over and out...