sunnudagur, desember 26, 2004

Gleðileg jól!

Jamm, kominn annar í jólum og tíminn vel nýttur í át, gláp og almenna leti þessa dagana. Ég borðaði skoska rjúpu á aðfangadag, og ég segi nú bara eitt, þeir kunna þetta líka skotarnir! Það var ekkert að þessari rjúpu, Anna Björk tróð nokkrum krækiberjum upp í rassinn á henni og þá var þetta alveg eins og sú íslenska. Systa bjó einnig til himneskan forrétt, humar í villisveppasósu og ég gæti alveg hugsað mér slíkan forrétt á hverjum degi:) Mágsi sér yfirleitt um eftirréttinn þann 24.des og heitir sá réttur Úrsúla, en hún Úrsúla fékk´frí í ár svo við fengum ís, jordbær og syndsamlega góða súkkulaðisósu. ohhhh, namm. Við vorum enn að japla á humrinum (forréttinum) þegar Birgir Steinn frændi hóf að þrusa í okkur pökkum til að opna. Það veitti kannski svo sem ekkert af að byrja þar sem pakkaflóðið var ótrúlegt í ár. Jedúdda mía. Ég fékk ýmislegt fallegt sem ég ætla ekkert að vera að gorta mig af hérna. Ætla að athuga hvort ég finni ekki eitthvað óhollt í pottunum og ´skápunum í eldhúsinu, fleygja mér með það sem ég finn ætt í sófann og vera þar, þangað til ég þarf að mæta í næsta jólaboð. Góðar stundir.

mánudagur, desember 20, 2004

Búúúúúiiiin.....

...í prófunum:) gerði meira að segja heiðarlega tilraun til djamms á laugardag (nota bene, kláraði á föstudag) en var bara í svo rólegu skapi og hálflúin að það gekk brösulega. Það var reyndar mjög gaman en ég er oft bara of þreytt eftir svona lestörn til að djamma. Helgin fór því í að jafna sig, nú já og vinna. ok best að fara að huga að jólahreingerningu... ekki tjúllast í jólastressi gott fólk!

miðvikudagur, desember 15, 2004

Snerpa



Jólastrákarnir í ár

Það er ekki mikil snerpa í stelpunni þessa dagana. Mér finnst tíminn bara svona fljóta áfram, stundum svo hratt, samt svo hægt, ég vakna, læri, borða, fer á salernið, kíki á netið. Hmmm tilbreytingaleysi prófanna vofir yfir, sem er gott. Ég er jú að fara í próf. Ég er álíka vel til höfð og Osama á slæmum degi, mér vex reyndar ekki grön, alla vega ekki mikil. Þetta hljómar illa, en vitiði hvað, þetta er allt í lagi því allt í kringum mig er fólk í sömu sporum, við hámum í okkur nammi og erum klístruð af bráðnuðu súkkulaðikexi og sveitt af æsingi að lesa. Þegar ég fæ annað slagið nóg af tíberuðum bókum og útkrotuðum og krumpuðum glósum, svo ekki sé minnst á súkkulaði og svitafýlu fæ ég mér bíltúr í Kópavog þar sem er að finna fallegasta og skemmtilegasta Steingríminn (að bróður mínum ólöstuðum) sem horfir á mig aðdáunaraugum og finnst ég yfirleitt sniðug. Hann meira að segja hlær að fíflaganginum í mér. Ég hressist af þessum heimsóknum og get alltaf brunað beint á safnið aftur, full af eldmóði að troða inn fróðleik.

mánudagur, desember 13, 2004

MSN

Ég ætla að leyfa mér að vera með smá leiðindi núna. Þannig er mál með vexti að ég nota MSN talsvert, sérstaklega til að tala við vini mína (og kærastana mína) í útlöndum. Mér finnst þetta bara mjög sniðug leið til að ná smá spjalli við vini sína sem maður myndi annars ekkert endilega hringja í né hitta á förnum vegi. Það er þó eitt sem ég skil ekki við þróun MSN, og það er hneigð fólks til að "heita" eitthvað annað en þeir heita. Skilst þetta? Ég til dæmis heiti alltaf bara "tótla" á MSN en ekki, "ein að læra", "ógeðslega þunn", "Alabama", "hress í sturtu"..."mygluð" eða ég bara veit ekki hvað. Mér finnst hálfgerður óþarfi að flækja málin og fólk þarf ekki að hafa fyrir því að sjá hvort ég sé "signuð inn" eða ekki. Ég hef ekkert á móti þessu, en mér finnst þetta óþarfi. Er ég tuðari? Kannski ég ætti að heita það á MSN, "tuðari"...

sunnudagur, desember 12, 2004

Hugmynd

Fékk smá hugmynd við lestur síðunnar hennar Ásdísar (er enn í vandræðum með að linka á fólk). Ef ég eignast annan kött þá mun ég skíra hann Miltis Brand, eða bara Miltisbrand. En Gríma verður að duga í bili...og Myrra ....og Milla, nú og Frosti minn, en hann er heimilisköttur á öðru heimili mínu. Já og ekki gleyma fuglinum sem Gríma veiddi handa mér og fór með undir rúmið mitt, já og hinn fuglinn sem endaði daga sína í eldhúsinu og svo þessi sem hún faldi á bakvið sjónvarpið í síðustu viku, plús mýsnar sem hún kemur með heim til að fara í löggu og bófa. Held það sé ekki pláss fyrir fleiri dýr í bili, Miltis Brandur verður að bíða betri tíma.

föstudagur, desember 10, 2004

Flores

Nú hef ég gróðursett eina tótlu á safninu. Þessi tótla ætlar að vaxa og dafna hér á safninu í eina viku og nærist á suðuramerískum bókmenntum. Það þarf líka að vökva hana reglulega með magic og jólaöli svo hún taki dálítinn vaxtarkipp enda þarf þessi tótla að vera orðin að mannvitsbrekku þann 17.des næstkomandi þegar hún verður rifin upp (afskorin) af safninu og þá vonandi blómstrandi af suðuramerískum bókmenntum. Ég hef reyndar aldrei verið lagin við að halda lífinu í blómum.

fimmtudagur, desember 09, 2004

miðvikudagur, desember 08, 2004

Aumingi

Ég er svoddan aumingi. Þegar ég keyrði frá Keflavíkurflugvelli í lok sumars eftir að hafa skutlað ástmanninum þangað fannst mér ár og öld þangað til ég myndi endurheimta hann. Nú fer þessu grasekkjutímabili mínu að ljúka (þremur vikum síðar að mér finnst) en Gummi kemur heim eftir 15 daga. Ég verð að viðurkenna að þó þetta sé kannski ekkert hrikalegt þá hefur mér eiginlega fundist þetta hálfglatað. Ekki gleyma að ég dvaldi á Spáni í 3 mánuði í vor (Gummi er reyndar nokkuð lengur í DK en ég var á Spáni) en þá var allt annað hljóð í tótlunni. Það var bara eiginlega ekkert mál, voða skrýtið. Þannig að ef þú lesandi góður ert að velta fyrir þér kostum og göllum fjarbúðar hafðu þá í huga orðatiltækið "betra er að vera skutlað upp á flugvöll en að skutla upp á flugvöll". Góðar stundir.

sunnudagur, desember 05, 2004

"Fannstu allt sem þig vantaði?"

Ef þið hafið farið í verslanir 10-11 nýlega hafið þið kannski orðið vör við þessa nýjung hjá kassafólkinu þeirra. Þeir spyrja "fannstu allt sem þig vantaði?" Greinilega nýtt policy hjá þeim, tekið fyrir á starfsmananfundi og svona. Þeir fá hrós dagsins fyrir góða þjónustu:) Næst þegar ég fæ þessa spurningu langar mig þó að prófa að svara; "neiiii, eigið þið nokkuð Nýmjólk"

múahahaha

Ég er að hugsa um að skrifa pirringsblogg á fimmtudögum í framtíðinni því þá verður allt svo skemmtilega vitlaust á síðunni, allir trylltir, mér finnst það gaman. Annars hefi ég lítið að segja í dag, ég sé um hund tengdó þessa dagana og það er fínt nema að stundum nenni ég ekki með hana í göngutúr (geri það nú samt). Hef mikið pælt í hvort það sé ekki hægt að þjálfa hunda í að fara sjálfir í göngutúr að gera númer eitt og tvö.

fimmtudagur, desember 02, 2004

Skammir

jæja, ég bloggaði í gær en það mistókst þannig að ég ætla að endurtaka mál mitt. Ég finn mig nefnilega knúna til að ausa úr skálum reiði minnar. Fyrir barðinu á mér verða fjölmiðlar. Því miður get ég ekki "drullað" yfir þá (afsakið orðbragðið) eins og mig langar þar sem ég veit ekki nóg um málið en pabbi setti mig aðeins inn í það og ég horfði á Kastljósið í gær. Kastljósið er yfirleitt fínn þáttur en þau mega skammast sín fyrir þáttinn í gær. Málið snýst um tónleika til styrktar krabbameinssjúkum börnum og hversu mikið listamenn fá borgað fyrir sinn hlut. Mér finnst fréttamenn hafa rétt á að spyrja um kostnaðinn en þeir hafa enga afsökun fyrir dónaskap né beint rétt á að yfirheyra tónleikahaldarann um hversu mikið hver listamaður fékk borgað. Tónleikahaldarinn (sem ég man ekki hvað heitir) hefur sent félaginu skýrlsu býst ég við þar sem allur kostnaður og ágóði er útlistaður. KB banki gaf 2.5 milljón en kostnaður var 5 milljónir minnir mig. Kristján segist hafa fengið 700 þús fyrir kostnað og aðrir þrír listamenn fengu afganginn. Ef Krabbameinsfélagið sér eitthvað athugavert við kostnaðinn láta þeir eflaust í sér heyra en fjölmiðlar hafa á aðdáunarverðan hátt reynt af alefli að draga eitthvað mögulega misjafnt upp á yfirborðið. Ég þoli ekki svona æsifréttamennsku, fulla af upphrópunum eins og í Kastljósinu í gær þar sem Sigmar og Eyrún (þá sérstaklega hún) voru árásargjörn og dónaleg og hún byrjaði þrisvar að tuða um það sama ..."bíddu, nú borgaðir þú Kristjáni 700 þús, og hinum þremur restina, það er einfalt reikningsdæmi, bíddu hvað fengu þeir mikið" bla bla. Er ekki alltaf gott ef einhver peningur safnast? Þetta er atvinna tónlistarmanna og mér finnst sjálfsagt að þeir fái einhver laun þó um styrktartónleika sé að ræða. Þetta voru þrennir tónleikar og ég efast um að Inga Lind, Eyrún og fleiri væru til í að gefa vinnu sína þrjú kvöld (+æfingar). Nú er ég í pirringi mínum orðin ómálefnaleg, en til að draga saman aðalatriðin í þessu þá var Kristján kannski fulldónalegur (samt líka fyndinn) í Kastljósinu en ekkert í líkingu við fréttamennina sem í gúrkutíð tóku fegins hendi þetta tækifæri til að hvíla viðtöl við hrakfallabálka á slysó sem flugu á hausinn í hálkunni og hófu stórskotahríð á fólk sem reynir að styrkja þetta ágæta málefni. Spurning hvort þeir nenni því aftur?