fimmtudagur, september 20, 2007
Suomi
Eins og svo margir reyni ég að heimsækja einn nýjan stað í veröldinni á hverju ári. Það gengur reyndar vonum framar og í raun gæti ég hætt að ferðast í nokkur ár því ég á svo marga punkta inni. En það kemur náttúrlega ekki til greina. Í vor fór ég til dæmis til Rómar og Pompei, svo tóku uppköstin við og þá fór ég ekki lengra en fram á baðherbergi svo vikum skipti en þar sem ég er löngu orðin hress var kominn tími á nýtt ferðalag og ákváðum við hjónaleysin að skella okkur til Finnlands og taka út ný heimkynni Völunnar minnar. Held þetta hafi verið ein besta hugmynd sem ég hef fengið lengi því þetta vikufrí var eins og frí gerast best. Mikil hvíld (held að metið hafi verið 12 tíma svefn), frábær félagsskapur (Vala og Aleksi, en þau voru svo höfðingleg að bjóða okkur bælið sitt), margt nýtt að sjá (hvorugt hafði komið áður til Finnlands) og nóg af bjór fyrir Gumma minn. Við leigðum bíl og keyrðum til Kristinakaupunki en Aleksi er þaðan. Gistum eina nótt á heimili foreldra hans sem hlýtur bara að vera eins finnskt og það gerist. Hreindýrahorn upp á vegg, saunakofi á lóðinni þeirra og nokkrir metrar þaðan út í vatnið (eða sjóinn ef út í það er farið). Held eg hafi sjaldan séð jafnmikla gæsahúð og þegar Gummi var að fara beint úr saununni ofan í kalt vatnið. Ég let mér nægja að horfa á enda held ég að erfinginn hefði ekki fílað svona snöggar hitabreytingar. Ahhh ég elska það þegar maður hefur góða og gilda afsökun til að sleppa við eitthvað sem maður virkilega þorir ekki að gera.
Helsinki var falleg og þægileg yfirferðar fyrir óléttu konuna sem hefði ekki fílað mannmergð stórborgar í þessu ástandi. Borgin er falleg, lítil og afslöppuð. Búðirnar voru skannaðar og stelpuhagfræðin kom sér stundum vel ("ef við kaupum meira fáum við meira í tax-free"). Fórum á sveittan finnskan veitingastað fyrsta kvöldið, þeirra útgáfa af Hard Rock Café býst ég við en í stað áritaðra mynda af Hollywood stjörnum, gullplatna og hljóðfæra var þessi staður eins og musteri Zetor traktora. Þarna voru gamlir Zetor traktorar út um allan staðinn og meira að segja zetorvörur seldar á staðnum. Við skulum orða það þannig að það hafi verið einn eða tveir finnskir hillbillar á staðnum:)